Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 14:51:59 (1885)

1997-12-09 14:51:59# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:51]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Enn er komið að föstum lið hér á jólaföstu á hinu háa Alþingi sem er umræða um svokallaðar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það er rétt sem fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna, að sá bandormur sem er til umræðu er heldur rýrari en þeir hafa verið á undanförnum árum og þakka ber að ekki sé nú verið að krukka víðar í en gert er í þessu frv. En af ýmsu er þó að taka.

Eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi gaf ríkisstjórnin út afmælisrit í haust, Áfangar á réttri leið, þar sem er að finna fagrar lýsingar á verkum ríkisstjórnarinnar og ýmsum áformum hennar. Þegar ég sá þetta rit fyrst fannst mér menntamálakaflinn skera sig heldur betur úr og hólið þar vera heldur úr hófi fram en þar segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: ,,Metnaðarfull þróun skólastarfs á öllum menntunarstigum.`` En því miður, eins og við vitum, er víða pottur brotinn í menntakerfi okkar.

Ríkisstjórnin hrósar sér mjög í þessum bæklingi og tíundar að hagvöxtur sé meiri hér en í öðrum iðnríkjum, störfum fjölgi og atvinnuleysi minnki, ráðstöfunartekjur aukist og verið sé að gera umbætur í ríkisrekstri og fyrirheit um betri tíð o.s.frv. En þrátt fyrir það er enn haldið áfram að krukka í markaða tekjustofna og því miður þar sem síst skyldi.

Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum þessa frv. og vil fyrst ítreka það sem ég hef sagt á hverju einasta ári við þessa umræðu að þetta er afar neikvæð og slæm leið sem farin hefur verið um árabil að krukka með þessum hætti í markaða tekjustofna, svo ekki sé nú minnst á ákveðin loforð eða fyrirheit sem hafa verið gefin í ákveðnum málefnum. Enn eitt árið er krukkað í Þjóðarbókhlöðuskattinn og af honum eru teknar 200 millj. kr. sem renna í ríkissjóð. Það er eins með þennan tekjustofn og ýmislegt annað að hann átti að vera takmarkaður við nokkur ár en honum hefur verið við haldið. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gagnrýna það því ég tel að mikil þörf sé fyrir viðhald og endurbætur á menningarstofnunum þjóðarinnar. Það var okkur til háborinnar skammar hvernig að þeim málum var staðið svo árum og áratugum skipti með þeim afleiðingum að ýmsar menningarstofnanir voru orðnar mjög illa farnar sem hefur kostað þjóðarbúið stórfé.

Í frv. til fjárlaga á bls. 336 er gerð grein fyrir hvernig á að verja þessum 315 millj. kr. og vekur þær spurningar hvort menn séu ekki að dreifa þessum fjármunum um of og hvort það leiði ekki til þess að ýmsar endurbætur taki allt of langan tíma. Til dæmis hafa endurbætur staðið yfir á Þjóðminjasafni Íslands um árabil og því eru ætlaðar 85 millj. kr. til áframhaldandi endurbóta. Þjóðleikhúsið fær 60 millj. o.s.frv. Það vekur spurningar hjá mér hvort hér sé rétt stefna á ferðinni að dreifa þessu á þennan hátt og hvort ekki væri nær að einbeita sér frekar að ákveðnum verkefnum eins og gert var en kannski er skýringin sú að margar af þeim byggingum sem hér um ræðir þoli enga bið og reyndar er nú verið að ljúka við eitt og annað. En ég gagnrýni það, hæstv. forseti, að klipið skuli af þessari upphæð og spyr hvort ekki væri nær að breyta lögunum og breyta þessum tekjustofni eða hreinlega skilgreina hann upp á nýtt.

Ég vil taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á niðurskurðinum til átaksverkefnis um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Ég man ekki betur en þetta hafi verið eitt af þeim verkefnum sem mikið var til umræðu þegar verið var að ræða það hvernig bæri að minnast 50 ára afmælis lýðveldisins. Það varð að samkomulagi að styðja þetta verkefni á sérstakan hátt en hins vegar var Lýðveldissjóðurinn stofnaður sem veitir styrki til vísindaverkefna og til varðveislu íslenskrar tungu. Það er nú vægast sagt nánasarlegt að skera þá upphæð niður um helming, þetta fyrirheit, þetta átak sem átti að styðja og styrkja, og ég óska eins hv. þm. Gísli S. Einarsson eftir upplýsingum um það hvernig á þessu stendur. Er það svo að ekki sé þörf fyrir meira fé eða má lesa út úr þessu viðhorf og stefnu hæstv. ríkisstjórnar til þessa verkefnis?

Það eru einkum greinar 3--7 sem heyra undir okkur í hv. félmn. og sem við munum fá þar til meðferðar og snerta annars vegar málefni fatlaðra og hins vegar lög um atvinnuleysistryggingar, vinnumarkaðsaðgerðir og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Það sama gildir um erfðafjárskattinn og Þjóðarbókhlöðuskattinn að þarna er um verulega fjármuni að ræða sem meiningin var að verja til ákveðinna verkefna en það er eins og ríkisstjórnin geti aldrei séð þetta í friði. Það gerðist fyrst í fyrra að farið var að klípa verulega af erfðafjárskattinum og nota hluta hans til rekstrar í stað þess að peningarnir gengju til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Nú má um það deila hversu mikil þörf er fyrir framkvæmdir og hvernig beri að verja þeim peningum. Það kemur fram í frv. til fjárlaga að þrjú heimili fyrir fatlaða eru í byggingu, þrjú sambýli, en við vitum að sérstaklega í Reykjavík og á Reykjanesi er gífurleg þörf og langir biðlistar eftir plássum á sambýlum og því er engan veginn hægt að segja að ekki sé þörf fyrir þetta fé. En þetta er óþolandi, hæstv. forseti, að ganga fram með þessum hætti og skerða þetta fé. Það er þá miklu nær að breyta lögunum. Að breyta því hvernig ráðstafa skuli þeim peningum heldur en að klípa alltaf af með þessu móti og þetta er orðinn meiri hluti þess fjármagns sem telst til erfðafjárskatts sem rennur nú beint í ríkissjóð í stað þess að fara til uppbyggingar í málefnum fatlaðra. Þetta tengist bæði 3. og 4. gr. þessa frv.

[15:00]

Það eru ekki liðnir margir mánuðir, hæstv. forseti, síðan hér voru samþykkt ný lög um vinnumarkaðsaðgerðir og um nýjan tryggingasjóð sjálfstætt starfandi fólks. Alveg er það nú makalaust að menn skuli svo koma hér örfáum mánuðum seinna og breyta lögum. Það er eins og menn hafi bara alveg gleymt því að það þyrfti að fjármagna þennan rekstur. Við stjórnarandstæðingar gagnrýndum það fyrst og fremst varðandi frv. um vinnumarkaðsaðgerðir hvílíku stjórnkerfi væri verið að koma þar á fót og í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. var því spáð að rekstur hinnar nýju stofnunar, vinnumálastofnunar, mundi kosta á bilinu 190--215 millj. fyrsta árið en síðan 160--175 millj. kr. á ári. Þetta eru auðvitað verulegir fjármunir. Samt sem áður var sett í 22. gr. laganna, með leyfi forseta: ,,Kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana greiðist af ríkinu.`` En þegar að því kemur að reiða þessa peninga fram úr ríkissjóði er það auðvitað ekki hægt og þá á að velta kostnaðinum yfir á atvinnulífið, þ.e. þeir peningar sem koma í gegnum tryggingagjaldið eiga að renna til rekstrar Vinnumálastofnunar og vinnumiðlana þó ekki sé skýrt hvernig það gangi fyrir sig. Atvinnuleysistryggingasjóður og Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga eiga að leggja af mörkum 100 millj. kr. Nú get ég vel séð það fyrir mér, hæstv. forseti, að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi verulega fjármuni til ráðstöfunar. Það er sem betur fer að draga úr atvinnuleysinu og þar af leiðandi eru verkefni sjóðsins nokkuð að breytast. Ég tel hann vera aflögufæran þó deila megi um hvort það sé verkefni hans að standa undir hinni nýju ríkisstofnun en spurning mín snýr einkum að Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga. Hver á hlutur hans í þessum rekstri að vera? Það kemur ekkert fram um hve mikið af þessum 100 millj. Atvinnuleysistryggingasjóðurinn á að reiða fram og hversu mikinn hluta Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga á að leggja fram. Ekki kemur það fram í þessum gögnum og ég spyr, hæstv. forseti: Hvernig er Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga í stakk búinn til að leggja þetta fé af mörkum? Nú er hæstv. félmrh. fjarri góðu gamni og ég held að ég hafi heyrt það rétt, hæstv. forseti, að hann væri erlendis.

(Forseti (RA): Jú, það er rétt.)

Þar af leiðandi verður það að bíða þar til á fundum hv. efh.- og viðskn. eða félmn. að fá þetta upplýst hvernig þetta fyrirkomulag verði. En um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga segir í lögum, með leyfi forseta:

,,Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum deilda hans.``

Nú er spurningin: Hverjar eru tekjurnar? Hvernig er þessi sjóður staddur? (Gripið fram í: Hver er staðgengill?) Það er enginn hér til svara, hv. þm., þannig að þetta mál þarf að kanna rækilega. Og það var meira að segja talið svo tvísýnt um útkomu þessa sjóðs að það var sérstaklega tekið fram í lögunum. Með leyfi forseta, þá segir í 24. gr.:

,,Ef sýnt þykir að deildir sjóðsins geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins gera tillögu til ráðherra um hertar úthlutunarreglur, um skerðingu bóta og/eða um hækkun á tekjum viðkomandi deildar.``

Reyndar var því lýst í umræðum að ríkissjóður mundi hugsanlega hlaupa undir bagga ef til vandræða kæmi og í ljósi alls þessa spyr ég, hæstv. forseti: Hvernig er Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga í stakk búinn til þess að leggja hluta af þessum 100 millj. kr. inn í rekstur Vinnumálastofnunar og til svæðisvinnumiðlana. Það er svo annað mál að skoða hvernig allt þetta kerfi virkar sem hæstv. félmrh. var að koma á fót. Eins og hér hefur komið fram voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem við stjórnarandstæðingar þurfum nauðsynlega að fara að komast í og skoða hvaða afleiðingar þær hafa haft.

Í 12. gr. frv. sem hér er til umræðu er annars vegar verið að lækka tryggingagjaldið vegna minna atvinnuleysis og hins vegar hækka það örlítið til þess að standa undir fæðingarorlofi feðra.

Nú hefði mátt velta fyrir sér, hæstv. forseti, hvort skynsamlegt sé að lækka tryggingagjaldið og hvort ekki væri ráð að nýta þessar 400 millj. sem lækka skal um, enda kemur 100 millj kr. hækkun á móti, til lengingar fæðingarorlofs. Hér eru peningar sem runnið hafa í Atvinnuleysistryggingasjóð og þó ég sé ekki sérstaklega að mæla með hækkun tryggingagjalds og vildi reyndar gagnrýna hvernig að því er staðið gagnvart sjálfstætt starfandi einstaklingum, þá má nú spyrja hvort hér skjóti ekki skökku við miðað við aðrar þær skerðingar sem hér er að finna.

Hæstv. forseti. Ég hljóp yfir kaflann um almannatryggingar og í ljósi þess sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns um aðrar þær breytingar sem hér er verið að gera, að afnema eða breyta frítekjumarki og að hreyfa til meðlögin, þá áskil ég mér allan rétt til að skoða þessi ákvæði nánar og hvað þau þýða í raun og veru. Það er þó alla vega tryggt að aldraðir fá ekki minni hækkun á sínum bótum en nemur hækkun verðlags. En þetta þarf að skoða mjög rækilega og hvernig þetta tengist öðrum breytingum sem hér er verið að boða.

Þá eru hér einnig gamlir kunningjar. Enn er skertur tekjustofninn til vegagerðar, þ.e. hluti þeirra tekna er tekinn beint inn í ríkissjóð. Ef ég man rétt hefur þessi skerðing aldrei verið hærri og það vekur auðvitað þá spurningu hvort hér sé ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu. Hvað liggur hér að baki? Næg er þörfin og eins og hér hefur komið fram þá bíðum við hér eftir áætlun hæstv. samgrh. um það hvernig skuli staðið að vegaframkvæmdum á næstu árum.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef komið að er ýmislegt í þessu frv. sem skoða þarf betur. Það sem hér er verið að boða verður auðvitað að vera á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar. Eins og ég hef rakið hef ég um árabil gagnrýnt þá aðferð sem valin er í svokölluðum bandormum hvað varðar þessar skerðingar og ég tel að það sé miklu réttari leið að breyta lögum og endurskilgreina þarfir og hugleiða það hvort markaðir tekjustofnar, eyrnamerktir tekjustofnar, eigi við í dag. Það er miklu betra að hafa þetta á hreinu og ákveða þá í fjárlögum þess árs hvaða fjármunum skuli varið til einstakra verkefna heldur en að gefa falskar vonir og vera alltaf að klípa af því sem áður var búið að lofa. Það hefur t.d. valdið fötluðum og aðstandendum þeirra miklum vonbrigðum hvernig staðið hefur verið að þessum skerðingum til framkvæmdasjóðsins því að þar er þörfin mikil.

Ég ítreka gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga á þær breytingar sem gerðar voru á lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlanir, vinnumarkaðsaðgerðir og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, enda er sýnt að hér verða menn aftur að lappa upp á þessi lög. Það kæmi mér ekki á óvart, herra forseti, þó ýmislegt kæmi í ljós á næstu árum um það hve erfitt er að framkvæma þessi lög um vinnumarkaðsaðgerðir og ég er enn þá á þeirri skoðun að það hafi ekki verið rétt skref að færa þennan málaflokk frá sveitarfélögunum til ríkisins. Ég verð að segja alveg eins og er að ég botna ekkert í stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar flutning á verkefnum ýmist til eða frá ríkisvaldinu og væri fróðlegt að fá það upplýst hver stefnan er. Það hafa staðið yfir viðræður við sveitarfélögin um tilflutning verkefna og upplýst hefur verið að ríkisstjórnin hefur orðið að bakka hvað varðar húsaleigubæturnar. Þær verða áfram greiddar úr ríkissjóði að hluta til vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag við sveitarfélögin um það fyrirkomulag sem ætlað var, þ.e. að flytja það alfarið yfir til sveitarfélaganna. Sannast að segja er þetta að verða hálfgerður hrærigrautur og við hljótum að kalla eftir umræðu um það á hinu háa Alþingi, hæstv. forseti, hver stefna ríkisstjórnarinnar er með tilflutning þessra verkefna.

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu verður að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.