Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 16:29:01 (1889)

1997-12-09 16:29:01# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:29]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér eru á ferðinni gamlir kunningjar og flest þau atriði sem er að finna í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum hafa sést áður í einu eða öðru formi. Satt er það sem hér hefur verið fullyrt að þetta frv. er minna að umfangi nú en oft áður og er auðvitað engin furða. Það er hverju orði sannara sem hefur verið sagt að á tímum góðæris og efnahagslega styrkrar stöðu þjóðarbúsins gefur auga leið að menn hljóta að taka talsvert mið af því hverjar þarfir\-nar eru til þess að brjóta upp markaða tekjustofna ríkisins og verja fjármunum sem ella ættu að renna til skilgreindra hluta í ríkissjóð sjálfan. Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, strax í upphafi að mér finnst þetta dálítið aumingjalegt frumvarp í þessu ljósi.

[16:30]

Ég hlustaði með mikilli athygli á ágæta ræðu hv. þm. Gísla Einarssonar til að mynda um einn tiltekinn þátt þessa frv. sem er að finna hér í 2. gr. og lýtur að framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Þetta er agalega aumingjalegt. Árið 1994, eins og hv. þm. rifjaði upp mjög ítarlega, var tekin um það ákvörðun sem síðan var fest í lög 1995 í góðri sátt í þinginu, að verja tilteknum fjármunum, 50 millj. kr. á ári hverju, til átaks í þessum efnum. Nú eru menn að skera þetta niður og framlag ríkissjóðs um helming og fara með það niður í 12,5 millj. kr. Ég hafði satt að segja trúað því að menn þyrftu ekki að vera í þessum tittlingaskít --- fyrirgefðu orðbragðið, virðulegi forseti --- í þessum efnum og ég er satt að segja mjög undrandi á því að menn skuli vera að svona hlutum og bíð þess með athygli að hæstv. viðsk.- og iðnrh. sem er hér í ýmissa manna hlutverki. Hann er utanrrh., hann er landbrh., hann er umhvrh. og ég veit ekki hvað og hvað. Hann er a.m.k. ekki heilbrrh. því að hæstv. heilbrrh. hefur setið hér, samviskusöm að vanda, og hlýtt á þessar umræður. En það er kannski minna sem maður heyrir til hennar í þessu frv. en oftast áður og er það út af fyrir sig fagnaðarefni. Þetta er svona lítið en dæmigert um þann anda sem svífur yfir vötnunum og birtist í 12,5 millj. kr. í meintum sparnaði sem á að renna í ríkissjóð vegna svikinna vilyrða og ákvarðana um markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Þetta segir meira en mörg orð.

Það hins vegar vekur athygli, virðulegur forseti, að frv. er ekki eingöngu ,,þrátt-fyrir``-frv. Inn í þennan bandorm, á einum þremur eða fjórum stöðum er laumað efnislegum og væntanlega varanlegum breytingum á gildandi lögum og það er auðvitað alvörumál og spurning sem kallar á hvort þessi vinnubrögð séu réttmæt, þ.e. að menn séu hér að gera viðvarandi efnisbreytingar á gildandi lögum í bandormi af þessum toga, bandormi sem hefur jafnan gengið hér undir nafninu ,,þrátt-fyrir``-bandormurinn.

5. gr. frv. vekur athygli þar sem verið er að gera efnisbreytingar á hlutdeild Atvinnuleysistryggingasjóðs og síðan, sem ég ætla að staldra hvað helst við hér, eru þær breytingar sem gerðar eru í 14. gr. á flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, með síðari breytingum. Hér er það fastákveðið og niðurnjörvað að tína út fjármuni úr flugmálaáætlun til þeirra mörkuðu tekjustofna sem þar er að finna og þessara stóru og miklu verkefna sem alls staðar bíða hringinn í kringum landið. Það þekkja auðvitað þeir þingmenn sem best hafa kynnt sér þau mál, hv. þm. á borð við Egil Jónsson, sem vita gjörla hvar skórinn kreppir í þeim efnum, að alvörumál er á ferðinni þó ekki sé kannski um háar upphæðir þar að ræða, 60 millj. kr. að þessu sinni sem á að taka úr þessum mörkuðu tekjustofnum sem eiga að fara til viðhalds og uppbyggingar flugvalla á landinu. Svo er þessi sama hæstv. ríkisstjórn að vandræðast með það með réttu að hún hafi ekki nein skýr markmið eða svör varðandi fólksflótta frá landsbyggðinni hingað á þéttbýlissvæðið.

Virðulegi forseti. Mér finnst einhver órói í salnum. Kann að vera að hæstv. ráðherrar eigi í einhverjum erfiðleikum utan þings? (ÖS: Sem innan þings.) Er Vilhjálmur Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, kannski eitthvað að gera þeim lífið leitt? (Gripið fram í.) Ég er ekkert að kalla sérstaklega eftir viðveru þeirra en ég finn og skynja að einhver órói er hér í salnum af ástæðum sem tengjast ekki beint ræðu minni. Ég held að það geti varla verið.

En ég var að segja að hér eru menn að tína 60 millj. kr. sem fram undir þetta og á síðari árum hafa runnið til uppbyggingar flugvalla hringinn í kringum landið og hafi skipt þar verulegu máli. En þessar 60 millj. kr., og það veit náttúrlega hæstv. fjmrh. mætavel, skipta ekki nokkrum sköpuðum hrærandi hlut í sambandi við afkomu Flugstöðvarinnar hvað varðar þær tilraunir að reyna að greiða upp þau áhvílandi lán sem þar er að finna. Maður sér í greinargerð með fjárlagafrv. að þess er getið með nokkru stolti að hæstv. fjmrh. hafi borgað þarna inn á 22 millj. dollara lánið sem er eitt af fleiri og það stóð til, og er sennilega búið núna, að ganga frá skuldbreytingu á öðrum áhvílandi lánum á Leifsstöðinni fyrir þessi áramót og vafalaust er hæstv. ráðherra búinn að klára það mál. Mér þætti því fróðlegt að vita hvort þetta sé ný matarhola, að tína 60 eða 40 eða 80 millj. kr. úr mörkuðum tekjustofnum til uppbyggingar flugvalla vítt og breitt um landið til þess að reyna eitthvað að kroppa í hin stóru og áhvílandi lán sem er að finna í henni Leifsstöð.

Fulltrúar flugmálastjórnar komu á fund samgn. um daginn og ég spurði þá hvort þetta mundi sköpum skipta og hverju þetta í raun breytti um stöðu flugvallarins og Leifsstöðvarinnar í næstu og lengri framtíð. Svarið var alveg skýrt. Þetta skiptir auðvitað engu máli. En andinn er alveg skýr í þessu og ljós. Hann er sá að menn ætla sér ekki að byggja upp með sama krafti og fyrr samgöngur vítt og breitt um landið og skiptir þá litlu máli hversu margar nefndirnar og rannsóknaraðilarnir eru eða skýrslurnar sem samdar verða um erfiða stöðu úti á landi þegar gjörðirnar eru svona því það er ekki eingöngu á vettvangi flugmálanna sem menn eru að tína fjármuni inn í ríkissjóð eða í einhverja stóra og mikla skuldasúpu suður í Leifsstöð heldur er það líka í vegamálunum. Og af því að hv. þm. Árni Mathiesen sem þekkir mætavel stöðu mála þarna suður frá stendur fyrir framan mig, þá væri fróðlegt að heyra til að mynda frá honum af því að hann er nú hv. 2. þm. Reykn., hvort hann telji þessar 60 millj. kr. sem á að tína af flugmálaáætlun, bjarga fjármálum Leifsstöðvarinnar til framtíðar. Er það markmiðið eða er þetta bara tilviljunarkennt með öllu og menn kroppa bara hér og kroppa þar eftir hendinni?

Ég leita líka eftir því að hjá almennum þingmönnum sem hafa sumir hverjir látið í sér heyra í fjölmiðlum og lýst yfir talsverðri óánægju með þessa ráðsmennsku og þessa framsetningu máls, bæði hvað varðar þennan stuld af flugmálaáætlun og einnig og ekki síður með þann gífurlega niðurskurð sem er að finna á vegáætlun. Því hlýt ég að spyrja beint hvort eitthvað sé að marka yfirlýsingar þessara þingmanna í fjölmiðlum, þingmanna á borð við Einar K. Guðfinnsson formann samgn. sem hefur talað digurbarkalega í þá veru að svona geti þetta ekki gengið fram. Og það er eins og mig minni líka að hv. þm. Egill Jónsson hafi gagnrýnt þetta með efnislegum rökum. Því hlýt ég að spyrja þráðbeint hvort þessir hv. þm. til að mynda og fleiri sem á hátíðisdögum í þinginu hafa talað um nauðsyn þess að efla hinar dreifðari byggðir með því m.a. að stórauka vegabætur og einnig flugumferð, ætli að láta þetta yfir sig ganga.

Ég minnist þess að við síðustu fjárlagagerð hlýddi ég hæstv. samgrh. yfir það hvort hann ætlaði að láta hæstv. fjmrh. beygja sig eins og hann gerði þá. Ég fékk auðvitað engin svör og mér sýnist því miður að öll döngun og allur kraftur vera úr þeim ágæta hæstv. samgrh. og þar sé litla fyrirstöðu að finna mikið lengur. Hann lætur þetta einfaldlega yfir sig ganga og þetta átak sem sannarlega var að finna, sérstaklega í vegabótum vítt og breitt um landið fyrr á þessum áratug, það er bara liðin tíð. Það eru bara afrek gærdagsins. Nú blasir allt annað við og ég spurði um það þá hvort þetta væru ný áhersluatriði að finna hjá samstarfsflokki Sjálfstfl. því að ég man ekki betur en þegar Alþfl. var í samstarfi við Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili að menn stæðu saman um að fara í kraftmikla uppbyggingu í vegamálum og reyna þannig að styrkja hinar dreifðari byggðir. En það er allur kraftur úr mönnum á yfirstandandi kjörtímabili þrátt fyrir allt góðærið sem menn hafa hér orð á sýknt og heilagt. Því hlýt ég að segja: Óð ég í villu og svima á síðasta ári þegar ég taldi þetta vera sök Framsfl. Er það bara svo að Sjálfstfl. hefur misst áhugann eftir að hæstv. ráðherra hefur misst máttinn í þessum málaflokki og látið hæstv. fjmrh. ganga yfir sig eða eru þingmenn Sjálfstfl. sjálfs, dreifbýlisþingmenn þá einkanlega sem hafa haldið ágætisræður um mikilvægi þess að efla byggðir hringinn í krinum landið, bara hættir? Láta þeir hæstv. fjmrh., sem nú er í símanum að ræða væntanlega við forsvarsmenn sveitarfélaga, ganga svona yfir sig á skítugum skónum? Öðruvísi mér áður brá. Ég trúi því satt að segja ekki fyrr en ég tek á því að þannig fari að menn ætli hér að segja: ,,Amen!``, við þessum niðurskurði sem hér er að finna. Ég bara neita að trúa því að vaskir þingmenn á borð við hv. þm. Egil Jónsson og formann samgn. ætli sér að guggna og leka niður í þessum efnum. Ég bara neita að trúa því.

Enn síður trúi ég því að þeir ætli að láta þetta verða varanlegan niðurskurð í flugmálaáætluninni, að það sé bara sjálfsagður hlutur inn í lengri framtíð og það eigi að vera bautasteinn þessara manna, að ekki skuli lengur byggja upp öflugar aðstæður fyrir flugumferð hringinn í kringum landið heldur eigi að nota þessa fjármuni til að borga í skuldahítina í Leifsstöð. Er það svo að menn hafi látið þetta yfir sig ganga og séu búnir að viðurkenna þessa staðreynd?

Virðulegi forseti. Á sama tíma og menn eru að gera þetta þá sjáum við hæstv. utanrrh. koma keikan í sjónvarpið eftir ríkisstjórnarfund þar sem þessi sama ríkisstjórn hefur samþykkt það að nú eigi að fara í viðamikla uppbyggingu þar syðra, á Keflavíkurflugvelli. Það er sannarlega uppbygging sem ég fagna og tel brýna nauðsyn á að gangi fram. En hverju svaraði hæstv. utanrrh. þegar hann var spurður: ,,Hvernig á nú að borga þennan brúsa?`` Jú, jú. Þá kom gamla svarið: ,,Stöðin á að standa undir þessu.`` En dettur mönnum í hug að Leifsstöðin standi undir einhverju þegar um það bil 500--600 millj. kr. af sjálfsaflafé hennar á hverju ári renna í ríkissjóð? Eru menn að reyna við þessa fjárlagagerð að vinda ofan af þessum hlutum og láta sjálfsaflafé Leifsstöðvarinnar renna til hennar sjálfrar? Nei, þvert á móti. Hér eru menn að festa það í sessi að þannig verði það ekki. Og hverjum dettur þá í hug að trúa því þegar hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., kemur í sjónvarp og segir: ,,5 milljarða fjarfesting á næstu fimm eða sjö árum, eða hvað það nú var, á auðvitað að greiðast af Fríhöfninni sjálfri.`` Nei, auðvitað rekst þarna hvað á annars horn og er málflutningur sem gengur ekki upp.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi. Mér finnst þetta aumingjalegt plagg og ég átti satt að segja von á öðru, því að menn reyndu nú á tímum góðæris að nýta þessa uppsveiflu sem sannanlega er í okkar efnahagskerfi til þess að standa við fyrri fyrirætlanir um að markaðir tekjustofnar rynnu til þess að hreinsa upp gamlar syndir, rynnu til þess að borga Þjóðarbókhlöðuna, eitthvað að kroppa í það, rynnu til þess að borga hinar stóru skuldir sem íhaldið skildi eftir sig í Leifsstöðinni, reyndu svona aðeins að malda í móinn en hlypu ekki undan. En hér er allt venjubundið. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að auðvitað er það eðlilegt og sjálfsagt og getur ekki orðið á annan veg þegar kreppir að og menn þurfa að grípa til erfiðra ákvarðana á þrengingartímum, að skoða alla hluti og það hefur svo sannarlega verið gert. En nú erum við bara í allt öðru efnahagsástandi.

Virðulegi forseti. Einkunnin sem þetta plagg fær er að þetta er aumingjalegt.