Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 16:57:19 (1892)

1997-12-09 16:57:19# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:57]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson taldi að ég hafi skriplað á síðustu orðum mínum um íslenska hestinn. Ég má til með að sýna hv. þm. grein þar sem haft eftir dýralækni í Þýskalandi að peningum er hreinlega kastað út um gluggann. Hvað þýðir það? Hér er í greininni, með leyfi forseta, vitnað til þess að á síðasta ári voru flutt út 2.842 hross. Af þeim fóru 1.079 til Þýskalands.

Hvert er vandamálið sem er verið að fást við varðandi þennan útflutning? Það er hrossaexem. Hvers vegna myndast exemið? Það er vegna stungu flugna þar sem eggjahvítuefni sprautast í hrossin, sem þau þola ekki. Að þessum málum þarf að vinna með rannsóknum og við getum ekki haldið áfram í því horfi sem við erum nema með því að gerbreyta um stefnu. Ég legg til að hv. þm. kynni sér þau svör sem fyrir liggja þar sem undirritaður spurði hæstv. landbrh. um hrossaútflutning og kynningu á íslenska hestinum erlendis. Fyrirspurnin til landbrh. var um störf útflutnings- og markaðsnefndar og þar sem fyrir liggur svar hæstv. landbrh. um árangurinn af rekstri hestabúgarðs í Litháen. Í svarinu kemur fram að viðurkennt er að ekki hafi verið fylgst með nokkrum sköpuðum hlut af því sem hefur verið gert í ráðstöfun þeirra fjármuna í Litháen.