Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 16:59:35 (1893)

1997-12-09 16:59:35# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:59]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef heimurinn stöðvaðist við eitt slys. Ég ber enga ábyrgð og ætla ekki að verja þetta Litháen-slys sem varð. En dæmi er um að menn hafi sóað peningum og farið skakka leið. Við seljum um 3.000 hesta úr landinu á ári hverju og það skapar miklar tekjur og menn eiga von á að ná enn frekari árangri. Þá á ekki að koma og tína til eina slysið á ferlinum og telja sölu á íslenska hestinum erlendis bara draumóra.

Það er alveg rétt sem hv. þm. minntist á að við glímum við ákveðin vandamál. Þar er exemið eitt. En við megum ekki hlusta á það sem keppinautarnir segja. Það er barist við okkur á hinum þýska markaði og þess vegna er það náttúrlega stórmál fyrir vísindin að fjármagn verði sett í það að finna mótefni gegn exeminu. Moskitóflugan veldur exeminu og við þurfum að setja fjármagn í rannsóknir og ná t.d. samstöðu um það við þýskan háskóla að menn fari að vinna í þessu stóra verkefni. Ég held að það séu miklir hagsmunir landbúnaðarins. Ég vil bara að lokum, hæstv. forseti, leggja á það áherslu að ég tel að við Íslendingar eigum mikla möguleika að markaðssetja íslenska fjölskylduhestinn og það eru sem betur fer íslenskir bændur og hestamenn að gera á mörgum sviðum.