Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:07:59 (1897)

1997-12-09 17:07:59# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:07]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessa athyglisverðu yfirlýsingu. Hæstv. ríkisstjórn hefur breytt þeirri ákvörðun sinni sem hæstv. fjmrh. sagði vera á dagskrá í gær, að fresta boðaðri skattalækkun sem átti að verða um áramótin. Það eru góð tíðindi og ég lýsi ánægju minni með þau. Hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að standa við samkomulagið sem gert var til hliðar við síðustu kjarasamninga eins og henni ber að gera. Ég tel því ekki, herra forseti, ástæðu til að ræða frekar um þetta frv. enda hafa stjórnarandstæðingar nú þegar komið að öllum efnisatriðum þess. Ég vil þó gera eitt atriði að umtalsefni er varðar 13. gr. frv. Við þingmenn höfum að undanförnu hlustað á fjölmiðla fjalla um langtímaáætlun í vegamálum sem er til umfjöllunar í stjórnarflokkunum sem eðlilegt er, herra forseti. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að út af þeim fundum berist fréttir og yfirlýsingar einstakra þingmanna um efnisatriði í slíkri gjörð sem langtímaáætlunin er. Þeir lýsa yfir að þeir séu ýmist með eða á móti eins og hv. þm. Hjálmar Jónsson hefur gert, svo dæmi sé tekið, án þess að Alþingi hafi hugmynd um hvað verið er að fjalla. Og ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Finnst honum þetta eðlileg og eftirbreytniverð meðferð málsins?