Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:11:11 (1900)

1997-12-09 17:11:11# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:11]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú lýst yfir því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að falla frá áformum um að brjóta lögbundin loforð sín frá sl. hausti sem mörg sambönd innan Alþýðusambandsins litu á sem forsendur kjarasamninga. Þennan sigur ber að þakka viðbrögðum hér á Alþingi, stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar í landinu. En þetta minnir okkur á nauðsyn þess að vera vel á verði. Þær ráðstafanir sem voru í bígerð lýsa ákveðnu hugarfari gagnvart verkalýðshreyfingunni, sveitarfélögunum og Alþingi.

Það var þakkarvert að þessi mál skyldu upplýst hér á Alþingi í gær. Hv. þm. Svavar Gestsson þurfti að toga það með töngum upp úr hæstv. fjmrh. hvað til stæði að gera. Margt bendir til að þessi áform hafi átt að fara lágt, að menn hafi ætlað að gera slíkt hið sama og gert hefur verið undanfarin ár að koma með skerðingarfrv. undir jól svo lítið færi fyrir þeim og umræðan drukknaði í jólaundirbúningi þjóðarinnar. En sigur hefur unnist í þessu máli og hann ber að þakka viðbrögðum á Alþingi og í verkalýðshreyfingunni.