Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:39:27 (1906)

1997-12-09 17:39:27# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hvað sem öðru líður er það enn sem komið er þannig að formaður Alþfl. talar ekki fyrir mína hönd í vegamálum. Ég skil hins vegar vel að hæstv. forsrh. kunni að hafa ruglast eitthvað í þessu, eins og umræður hafa gengið undanfarna mánuði í þeim efnum. Hitt er svo alvarlegra og meira mál í mínum huga --- hvort við ræðum vegáætlun fyrr eða síðar breytir e.t.v. ekki öllu --- að algerlega verði skýrt hver hinn pólitíski frágangur þessa máls varðandi tengingu lífeyris, frítekjumarka, meðlaga og annarra slíkra hluta í almannatryggingakerfinu við launaþróunina í landinu er. Ég fagna því að hæstv. forsrh. býður upp á að efh.- og viðskn. fari yfir það mál og reyni að leita að frágangi sem er þannig að hann sé skýr. Vonandi erum við sammála um að orðin beri í raun að skilja sem beina tengingu við launaþróunina, og það sé þá frekar frágangsmál að finna þar viðmiðun og annað því um líkt sem þurfi að setja niður. Þá mun það að sjálfsögðu ekki vefjast fyrir mönnum að ganga frá því í nál. eða breytingartexta að skilningur á þessu ákvæði verði gersamlega kristalstær og skýr. Ef við megum halda áfram og líta svo á að 70.000 kr. lágmarkslaunin sem verða við lýði frá næstu áramótum eða þar um bil, skuli vera í framtíðinni sú viðmiðun sem komi í staðinn fyrir tiltekna launataxta áður og við megum ganga þannig frá málinu fyrir áramótin, þá er ég mjög sáttur við það ef það væri sameiginlegur skilningur okkar forsrh. Ef ekki, þá er nauðsynlegt að fá málið á hreint og það verði algerlega skýrt hvað hér er á ferðinni. Ég vil auðvitað trúa því að á bak við þetta standi góður hugur. Það sem ég hef gagnrýnt er kynning málsins í fjölmiðlum og á fundum með hagsmunasamtökum. Ég taldi hana ekki í samræmi við innihaldið þegar betur var að gáð. En ef menn ná samkomulagi (Forseti hringir.) og eru sammála um þá pólitík sem hér skuli gilda í þessum efnum, þá er að vinda sér í það.