Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:41:49 (1907)

1997-12-09 17:41:49# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:41]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Því miður er viðmiðunargrein almannatryggingalaganna enn eitthvað að vefjast fyrir okkur, a.m.k. mér. Ég átta mig ekki alveg á því um hvað menn eru að tala. Í frv. er miðað við þrennt. Í fyrsta lagi stendur í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ekki einu sinni forsendur heldur í samræmi við fjárlög.

Í öðru lagi stendur að ákvörðun þeirri skuli taka mið af launaþróun. Launaþróun getur verið með ýmsu móti. Þegar kemur að hlutum eins og að meta launaþróun getur verið mismunandi hvað í rauninni kemur út úr því dæmi, hvort um er að ræða taxtaviðmiðun eða tekjuviðmiðun. Á því getur verið grundvallarmunur. Menn þekkja það frá undanförnum árum að geysilegur munur getur verið á því hvernig kaupmáttur ráðstöfunartekna þróast og kaupmáttur kauptekna.

Í þriðja lagi á að miða við að þetta hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta er eini öruggi punkturinn í dæminu og hann er mjög mikilsverður. Þá bendi ég á það sem hefur væntanlega verið gert hér áður, heyrist mér, í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er að á sama tíma á að fella niður tvær lykilgreinar í almannatryggingalögunum sem hafa verið snagarnir sem allar taxtabreytingar bóta almannatrygginga hafa verið hengdar á. Þessi ákvæði eiga að fara út, samkvæmt þessu frv. Annars vegar er það 2. mgr. 18. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta. ,,Með reglugerð skal fjárhæðum 17. gr. breytt árlega til samræmis við árlegar hækkanir bóta og annarra tekna milli ára``.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að fella út ákvæði sem verið hafa í 65. gr. og eru gömlu ákvæðin, alveg frá því í alþýðutryggingalögunum, 1934 eða 1936, þar sem stendur:

,,Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðherra þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta samkvæmt lögum þessum ...`` Það að þetta tvennt er fellt út um leið og hitt er sett inn, gerir málið tortryggilegt. Ég held að óhjákvæmilegt sé að þessi setning og þetta ákvæði frv. verði endurskrifað og þá er ég aðallega að tala um fyrri málsliðinn. Ég segi líka, herra forseti, að meðan það er eins óljóst og það er núna og ef menn eru ekki tilbúnir til að endurskrifa það, þá hljóti ég fyrir mitt leyti að greiða atkvæði á móti því að fella niður 65. gr. og 2. mgr. 18. gr. vegna þess að það eru í raun þær læsingar sem verið hafa í lögum. Tvöföld læsing, eins hæstv. forsrh. kallaði það áðan. Ég mundi vilja hafa þær inni nema menn skrifi fyrri hlutann af 9. gr. þessa frv. öðruvísi. Ég tel að þau ummæli forustumanna samtaka aldraðra um að þessi mál væru komin í höfn og væru jafnvel öruggari núna en áður séu á misskilningi byggð og standist ekki. Vegna þess að það er alveg augljóslega þannig að ráðherrar eða ríkisstjórn eða þingmeirihluti hefur talsvert svigrúm til að hreyfa til breytingar eða hækkanir á bótum almannatrygginga eftir mörgum mismunandi viðmiðunum, eins og þetta er í frv. núna. Það getur hver maður séð sem hefur fengist við þessa texta, hvort sem það eru lagatextar eða reglugerðartextar, að bersýnilegt er að þarna geta menn lent í því að túlka hlutina á mismunandi hátt og það geti því orðið átök. Þess vegna tel ég það langhreinlegast að við reynum að orða þetta skýrt, nema menn vilji ekki segja það fullum fetum að bætur almannatrygginga eigi að þróast í samræmi við kauptaxtana. Það hefði ég í raun og veru viljað sjá, þannig að a.m.k. andinn, að teknu tilliti til breytinga í þjóðfélaginu á undanförnum árum og áratugum, í 65. gr. verði áfram inni ásamt því ákvæði sem hér um ræðir.