Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:51:10 (1910)

1997-12-09 17:51:10# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:51]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga árið 1997. Hér er um að ræða, samkvæmt venju, fyrra frumvarpið til fjáraukalaga þar sem leitað er eftir viðbótarheimildum til útgjalda. Hið seinna er uppgjörsfrumvarp sem venjulega er afgreitt á vorþingi. Þar sem nú lifa aðeins tvær vikur eftir af árinu ætti niðurstaðan nú að gefa allgóða mynd af því hvers má vænta með afkomu ríkissjóðs á árinu 1997.

Uppgjör ríkissjóðs á þessu ári er á greiðslugrunni en sem kunnugt er verða fjárlög 1998 sett upp á rekstrargrunni. Með þeim tillögum sem meiri hluti fjárln. flytur og fjallað hefur verið um í vinnu nefndarinnar er niðurstaðan sú að halli er á ríkissjóði á þessu ári um 1,9 milljarðar kr. Taka verður hins vegar tillit til þess þegar þessi útkoma er vegin og metin að leitað er eftir heimildum í fjáraukalagafrv. til að verja 4 milljörðum kr. til innlausnar spariskírteina og endurfjármögnunar sem mun spara ríkissjóði vaxtagjöld næstu árin, allt að 700 millj. kr. á ári.

Fjárln. hefur haft frv. til athugunar og leitað að venju skýringa hjá fagráðuneytum og fjmrn. varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Einnig hafa komið fyrir nefndina forsvarsmenn nokkurra ríkisstofnana sem lagt hafa fram upplýsingar um tiltekin verkefni og önnur erindi. Nefndin leitaði jafnframt eftir áliti Ríkisendurskoðunar á frumvarpinu. Í ljósi þeirra skýringa hefur meiri hluti nefndarinnar fallist á þær tillögur um fjárheimildir sem fram koma í frumvarpinu.

Á meðan nefndin hafði frumvarpið til athugunar var unnið að sérstakri athugun á nokkrum málum í ráðuneytunum sem nú hafa verið leidd til lykta, auk þess sem ný útgjaldatilefni hafa komið fram.

Þar ber fyrst að nefna málefni sjúkrahúsanna en heilbrrn., ríkisstjórn og fjárln. hafa haft þau til sérstakrar umfjöllunar og gildir það bæði um fjáraukalögin og fjárlagafrv. fyrir árið 1998. Fjárhagsvandi sjúkrahúsa er mikill, hvort heldur eiga í hlut stærri sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri eða smærri sjúkrahús vítt og breitt um landið. Óskir hafa borist fjárln. sem sýna þetta. Ástæður þessa fjárhagsvanda eru af ýmsum toga, ónákvæmar rekstraráætlanir, mismunandi sterk stjórnun, starfsemi umfram fjárveitingar eða fjárhagserfiðleikar frá fyrri árum. Afstaða ríkisstjórnarinnar og heilbrrn. til þessa máls er sú að óhjákvæmilegt sé að ætla að nokkurt viðbótarfé á fjáraukalögum fyrir árið 1997 og á fjárlögum árið 1998 til málaflokksins, enda verði rekstur og skipulag á starfseminni bætt.

Fram hefur komið sú afstaða heilbrrn. og ríkisstjórnar að þessi málaflokkur njóti forgangs og sérstakrar umfjöllunar stjórnvalda árið 1998. Heilbrrn. hefur lagt til við ríkisstjórn að stýrinefnd, sem fái til þess víðtækt umboð, verði falið að fjalla um málefni sjúkrahúsanna allra. Að þessu starfi kæmu, auk heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, fulltrúar stærri og smærri sjúkrahúsa. Verkefni nefndarinnar eru að skilgreina starfssvið heilbrigðis- og sjúkrastofnana, semja um þá þjónustu sem skal veita og fjárframlög til hennar styrkja stjórnun þeirra og bæta eftirlit og aðhald. Fjárln. hafa verið kynntar þessar hugmyndir og byggir meiri hluti nefndarinnar tillögur sínar á þeim. Heilbrrn. mun kynna fjárln. stöðu mála á hverjum tíma og tillögur nefndarinnar þegar þær liggja fyrir.

Ýmislegt hefur áunnist í rekstri sjúkrahúsanna á þessu ári. Til að mæta rekstrarvanda þeirra er lagt til að veittar verði 200 millj. kr. í sérstökum fjárlagalið. Jafnframt eru tillögur til meðferðar í fjárln. um að 300 millj. kr. til viðbótar verði ætlaðar á fjárlögum 1998 til reksturs sjúkrahúsanna. Að svo komnu máli verður fjárveitingu þeirri sem sótt er um á fjáraukalögum ekki skipt á einstakar stofnanir fyrr en samningar hafa verið gerðir við þær.

Ríkisstjórnin hefur lagt til að 320 millj. kr. verði veittar til Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur á þessu ári, enda er það í samræmi við sérstakt samkomulag þar um á milli hlutaðeigandi aðila. Því lítur meiri hlutinn svo á að viðbótarfjárútvegun, þ.e. 200 millj. kr. skuli verja til þess að leysa úr fjárhagserfiðleikum annarra sjúkrahúsa, ýmissa sjúkrahúsa utan höfuðborgarsvæðisins þar sem rekstur hefur verið í jafnvægi til þessa en spáð er hallarekstri á þessu ári. Með þessu móti er verið að bæta 520 millj. kr. á árinu 1997 og 300 millj. kr. árið 1998 í rekstur sjúkrahúsanna og 80 millj. að auki á þessu ári í rekstur sjúkra- og daggjaldastofnana eða alls 900 millj. kr. á tveimur árum.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim brtt. sem fluttar eru af meiri hluta nefndarinnar. Þær liggja fyrir í nefndaráliti og eru eftirfarandi:

Lagt er til að framlag til Alþingis hækki um 41 millj. kr. og skiptist fjárhæðin á sex liði. Lagt er til að Alþingiskostnaður hækki um 15,8 millj. en þar af eru 9,3 millj. kr. vegna úrskurðar Kjaradóms. Enn fremur er lagt til að framlag til þingmála- og rekstrarskrifstofu hækki um 6,7 millj. kr., viðhaldsliðurinn um 11,5 millj. kr. vegna umfangsmikilla breytinga er voru gerðar á húsnæðisaðstöðu þingflokka og vegna lagfæringa á fasteignum Alþingis. Loks er lagt til að liðurinn tæki- og búnaður hækki um 4 millj. kr. og veittar verði 3 millj. kr. vegna skipulagningar í tengslum við undirbúning framkvæmda á Alþingisreit.

Gerð er tillaga um 8 millj. kr. hækkun fjárveitingar til Rannsóknarnámssjóðs. Árið 1993 tók ríkisstjórnin þá ákvörðun, í framhaldi af lagasetningu, að veita 8 millj. kr. til rannsóknartengds framhaldsnáms. Framlagið var í raun stofnframlag Rannsóknarnámssjóðs. Fjárveiting þessi hefur ekki verið afgreidd með heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum til þessa.

Lagt er til að veita 4,5 millj. kr. til að ljúka úrbótum á húsnæði Hússtjórnarskólans á Hallormsstað. Á þessu ári hafði skólinn rúmar 7,2 millj. kr. til ráðstöfunar til að lagfæra aðstöðu í kjallara skólahússins og byggja yfir svalir ásamt því að innrétta viðbótarherbergi og koma í veg fyrir leka. Heildarkostnaður er áætlaður 14,8 millj. kr.

Í ágúst 1996 tók utanrrn. formlega yfir mannvirki á Gufuskálum af varnarliðinu. Frá þeim tíma hefur utanrrn. borið formlega greiðsluskyldu vegna óhjákvæmilegs kostnaðar við rekstur mannvirkjanna og viðhald þeirra. Gjaldfallinn kostnaður til ársloka 1997 er talinn nema 17,4 millj kr. og er sótt um heimild til greiðslu hans.

Að undanförnu hefur verið unnið að gerð samnings við Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg um nýtingu á stórum hluta aðstöðunnar að Gufuskálum en þessi samtök hafa í hyggju að koma þar á fót þjálfunar- og fræðslumiðstöð. Stefnt er að því að ganga frá samningi fyrir lok þessa árs þannig að samtökin taki yfir rekstur flestra húseignanna í byrjun árs 1998.

[18:00]

Húsnæðismál sendiráðsins í London hafa verið í skoðun um nokkurra ára skeið en langtímaleigusamningur fyrir núverandi aðsetur rennur út eftir fimm ár. Er verulegur viðhaldskostnaður þegar fallinn á eignina sem íslenska ríkið er skuldbundið til að greiða hvort sem það leigir húsið áfram eða ekki enda eru ákvæði í samningnum sem kveður á um að skila beri húsinu í sama ástandi og það var þegar upphaflegur leigusamningur var gerður.

Framboð á fasteignum sem henta sem sendiráðsaðsetur er mjög takmarkað og verðlag hátt. Eftir ítarlega athugun embættismanna í utanrrn., fjmrn., Framkvæmdasýslu og sendiherrans í London með sérfræðilegri aðstoð fasteignamiðlara og verkfræðifyrirtækis þar í borg er niðurstaðan sú að hagkvæmasti kosturinn sé að endurnýja langtímaleigusamning fyrir núverandi bústað til 99 ára fyrir 1,78 millj. sterlingspund eða 214 millj. kr. Lauslega áætlað er talið að kostnaðurinn við endurnýjun samningsins nemi allt að 290 millj. kr. að meðtaldri viðgerð á húsinu, endurnýjun húsbúnaðar og leigu bráðabirgðahúsnæðis meðan á viðgerð stendur. (SvG: Er það fyrirframleiga í 100 ár?)

Þá er það Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Lagt er til að 3 millj. kr. verði veittar til Þróunarsamvinnustofnunar til að greiða áfallinn kostnað hennar vegna sjúkraflugs frá Afríku til Íslands með einn af starfsmönnum hennar sem var í bráðri lífshættu.

Þá er komið að landbrn. en þar er lagt til að veittar verði 7 millj. kr. til yfirdýralæknis vegna byggingar krufningarstofu við Tilraunastöðina að Keldum. Hún er mikið notuð af dýralæknum sem þar starfa enda er aðgangur að slíkri aðstöðu undirstaða greininga vegna búfjársjúkdómavarna.

Embætti yfirdýralæknis óskaði eftir fjárframlagi til að standa undir hluta embættisins við þessa byggingu. Þó að framkvæmdir séu á forræði tilraunastöðvarinnar er embætti yfirdýralæknis veitt þessi fjárveiting til þess að undirstrika skýran rétt starfsmanna embættisins á aðgengi að krufningarstofunni vegna vinnu við búfjársjúkdómavarnir.

Þá er komið að Jarðasjóði og Jarðeignum ríkisins, en farið er fram á 100 millj. kr. framlag til Jarðeigna ríkisins. Að öllu jöfnu eru eignakaup jarðeignanna viðskiptafærð þannig að þegar kemur til greiðslu vex skuld stofnunarinnar við ríkissjóð eftir því sem eignakaup eru umfram jarðasölu. Á undanförnum árum hefur safnast upp skuld á viðskiptareikningi Jarðasjóðs hjá ríkissjóði vegna jarðakaupa umfram jarðasölu og nemur sú skuld nú um 50 millj. kr. Óvíst er að jarðasala næstu ára muni jafna viðskiptaskuldina. Þá þurfa að eiga sér stað lögbundin kaup Jarðeigna ríkisins á eignum ábúenda á Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu sem keyptar voru á matsverði samkvæmt samningi frá mars 1991. Ætla má að skuldbinding jarðeignanna vegna þessara jarða sé um 100 millj. kr. en greiðslur fara ekki að fullu fram fyrr en samið hefur verið um ábúðarlok. Mikilvægt er að ábúðarlögum, nr. 64/1976, og lögum um Jarðasjóð, nr. 14/1997, verði breytt á þann veg að mat á eignum við ábúðarlok á ríkisjörðum taki mið af markaðsverði í stað þess mats sem nú er unnið eftir.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Lagt er til að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði hækkað um 59 millj. kr. til viðbótar við þær 25 millj. kr. sem var gert ráð fyrir í frv. Endurskoðuð áætlun bendir til þess að markaðar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafi verið vanmetnar um 21 millj. kr. vegna ársins 1997. Þá fórst fyrir að gera ráð fyrir 38 millj. kr. lokauppgjöri vegna ársins 1996.

Þá er komið að Sjúkratryggingum en allmargar stofnanir heilbrrn. eiga við rekstrarerfiðleika að etja. Þar af eru níu stofnanir sem unnt er að koma á réttan kjöl með þjónustusamningi innan ramma fjárlagafrv. 1998. Til þess þarf 77,8 millj. kr. framlag í fjáraukalögum 1997 og er lagt til að orðið verði við því.

Þessar stofnanir eru: Hjúkrunarheimilið Naust á Þórshöfn, hjúkrunarheimilið Hornbrekka á Ólafsfirði, hjúkrunarheimilið Hulduhlíð á Eskifirði, hjúkrunarheimilið Lundur á Hellu, hjúkrunarheimilið Sólvangur í Hafnarfirði, Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða á Reykjalundi, heilsugæslustöðin í Ólafsvík, heilsugæslustöðin í Laugarási og heilsugæslustöðin í Hafnarfirði.

Tekið skal fram að útborgun fjárveitinga í fjáraukalögum 1997 til framangreindra stofnana er háð því að náðst hafi samkomulag milli heilbrrn. og viðkomandi stofnunar um meginþætti þjónustusamnings, umfang rekstrar og fjárveitingar á árinu 1998. Áhersla er lögð á að því verði lokið á næstu dögum og vikum þannig að útborgun geti átt sér stað fyrir árslok 1997.

Ég hef nú þegar fjallað um þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til sjúkrahúsanna, um 200 millj. kr. Einnig er ætlunin að veita 4 millj. kr. til að endurgreiða að fullu skuld vegna D-álmu við sjúkrahús Suðurnesja til samræmis við samning þar um.

Þá er lagt til að veita aukafjárveitingu á rekstrarhagræðingarlið heilbrrn. en með henni verði ráðuneytinu heimilt að verja allt að 2 millj. kr. til að greiða fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Krýsuvíkursamtakanna, en málefni samtakanna hafa verið til meðferðar í fjárln. bæði vegna fjáraukalaga og fjárlagagerðar fyrir árið 1998.

Þá er komið að útgjöldum samkvæmt heimildarákvæðum en gerð er tillaga um 60 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til að mæta ýmsum útgjöldum samkvæmt heimildarákvæðum 6. gr. fjárlaga, en útgjöld vegna þeirra heimilda eru jafnan háð talsverðri óvissu við setningu fjárlaga.

Þá er komið að ýmsum verkefnum undir samgrn. Gert er ráð fyrir tillögu um 5 millj. kr. fjárveitingu til flugminjasafns að Hnjóti. Í frv. til fjárlaga er lagt til að millifæra 4,5 millj. kr. af fjárlagalið 472 Flugvellir vegna safnsins og er þetta viðbót við þá fjárhæð. Ætlunin er að ljúka uppsetningu á grind og klæðningu svonefnds Vatnagarðaflugskýlis sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Þá er komið að liðnum: Ýmis orkumál. Þar er kveðið á um að 50 millj. kr. verði veitt til niðurgreiðslu á rafhitun. Það er ætlunin að veita þetta fjármagn til að eyða þeirri hækkun húshitunarkostnaðar eða rafhitunar sem var boðuð og hefur verið boðuð um næstu áramót.

Lagt er til að 3,6 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt til þess að aðstoða litlar hitaveitur úti á landi sem eru í skuld við ríkissjóð. Styrkur til þeirra nemi þá 8,4 millj. kr. alls, en áður var búið að veita 5 millj. kr. til þessa verkefnis í fjáraukalögum 1996 og færðist sú upphæð til þessa árs. Farið er fram á 3,4 millj. kr. viðbótarstyrk auk 0,2 millj. kr. kostnaðar við vinnslu þessa verkefnis.

Sett verður í fjáraukalög 5,3 millj. kr. framlag til tækniaðstoðarsjóðs Íslands við Endureisnar- og þróunarbanka Evrópu. Bankinn hefur gert samning við tvo íslenska rekstrarráðgjafa um gerð framkvæmdaáætlunar við endurskipulagningu öflugs sjávarútvegsfyrirtækis í Vladivostok í Rússlandi.

Þá leggur fjárln. til að veittar verði 3 millj. kr. á viðfangsefninu 139 Mengunarslys, undir umhvrn., vegna strands saltflutningsskipsins Eriks Boye árið 1992. Grípa þurfti til aðgerða til að koma í veg fyrir umhverfisskaða og féll kostnaður á heimamenn. Hluti útlagðs kostnaðar fékkst greiddur af útgerð skipsins en eftir standa um 3 millj. kr. og er lagt til að þessi upphæð verði gerð upp.

Þá er komið að liðnum: Veiðistjóri. Þar leggur meiri hluti fjárln. til að veittar verði 1,5 millj. kr. til veiðistjóra vegna refaveiða. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að ríkissjóður endurgreiðir fasta upphæð sem er annars vegar 3.500 kr. á hvern fullorðinn ref sem er veiddur og hins vegar 800 kr. á hvern yrðling. Greiðslur ríkissjóðs eru helmingur af þeim kostnaði sem greiða á þeim sem veiðir dýrið og eru fyrst og fremst miðaðar við það að greitt sé til skotveiðimanna sem viðkomandi sveitarfélag hefur gert samning við um veiðar og er greitt samkvæmt framlögðum skýrslum viðkomandi sveitarfélags. Með brtt. sinni leggur fjárln. til viðbót við núverandi fyrirkomulag til að koma til móts við sveitarfélög þar sem nauðsynlegt er talið að grípa þurfi til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir tjón af völdum refa. Ef fyrirséð er að kostnaður við veiðarnar verði viðkomandi sveitarfélagi fjárhagslega erfiður þá getur viðkomandi sveitarfélag leitað til embættis veiðistjóra áður en gripið er til aðgerða og farið fram á viðbótarþátttöku ríkisins í viðkomandi aðgerð. Eins og áður er sagt er lagt til að veita 1,5 millj. kr. aukafjárveitingu til þess að mæta þessu.

Þá er lagt til að 1,5 millj. kr. verði veittar Náttúrufræðistofnun Íslands vegna greiðslu fyrir hugbúnaðarleyfi.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir helstu brtt. sem meiri hluti fjárln. leggur til en þær liggja fyrir á sérstöku þskj. Niðurstaðan sem nú liggur fyrir sýnir að þegar frá er talinn kostnaður sem var stofnað til í þeim tilgangi að lækka fjármagnskostnað ríkisins í framtíðinni, og ég gerði grein fyrir í upphafi, er um 2 milljarða kr. rekstrarafgangur hjá ríkissjóði á greiðslugrunni. Lagt var upp með áætlun um tekjuafgang upp á 124,3 millj. kr. en auknar tekjur gera það að verkum að afkoman er betri sem þessu nemur.

Það var í ljósi þessarar stöðu sem var ákveðið að leita heimilda til skuldbreytingar upp á 4 milljarða kr. til þess að bæta afkomuna í framtíðinni. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þessari mynd þegar endanleg afkomutala upp á 1.922 millj. kr. halla er skoðuð. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut að halda rekstri ríkissjóðs í jafnvægi og minnka fjármagnskostnaðinn og skuldabyrðina. Ég mun þó ekki fjölyrða um það markmið að sinni. Önnur umræða fjárlaga er fram undan og þá verður fjallað nánar um framtíðina og áformin fyrir árið 1998 og tengsl ríkisfjármálanna við efnahagsþróunina.