Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 18:34:38 (1914)

1997-12-09 18:34:38# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[18:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekki úr því að víða er úrbóta þörf. En mér finnst rétt að halda því til haga sem vel er gert. Víða horfir til verulega bóta varðandi ýmsar sjúkrastofnanir. Og af því hv. þm. kom að því í ræðu sinni áðan að þrengslin væru mikil á þessum stofnunum þá er í fjárlögum næsta árs gert ráð fyrir að hafist verði handa við barnaspítala sem mun gjörbreyta ástandinu. Þá eykst rými mjög verulega á Ríkisspítölum þannig að menn sjá víða bjartara fram undan. Mér finnst rétt að vekja athygli á því að á næsta ári verður opnuð líknardeild sem er ný þjónusta og við það mun einnig aukast rými á sjúkrahúsum á Reykjavíkursvæðinu. Þetta finnst mér að megi koma fram hjá hv. þm. þegar þeir tala um ýmislegt sem að gera þarf úrbætur á. En það er búið að gera stórátak á stuttum tíma.