Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 18:37:08 (1916)

1997-12-09 18:37:08# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[18:37]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna því sem vel hefur verið gert í heilbrigðiskerfinu en ég harma hvernig staðan er í þeim hryggilega líkama sem líkja mætti við hró, ekki eldri en hann er og þyrfti að gefa almennilega kröftuga vítamínssprautu. (Gripið fram í: Ertu að tala um Ingibjörgu?)

Herra forseti. Ég tel rétt að vekja athygli á því að ég leyfði mér að láta vera að tala við 1. umr. um fjáraukalög. Af hverju skyldi það nú hafa verið? Jú, ég taldi það nægjanlegt að félagar mínir, í minni hluta fjárln., bentu á nokkrar staðreyndir um það hvernig tekju- og útgjaldaspá minni hluta fjárln. stóðst langtum betur en áætlanir reiknimeistara fjmrn. og hæstv. fjmrh. Það er þannig með svona mál þar sem allt kjöt vantar á beinin og kemur nú æ betur í ljós með röngum áherslum í heilbrigðismálastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég kalla það falsáætlanir, hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh., að leggja fram tillögur um niðurskurð þegar menn vita að á annan milljarð vantaði í fyrra í fjárlög. Margsinnis var það sagt hér í þessum ræðustól, það var margsagt á fundum og því var mótmælt af hæstv. ráðherrum. Við þetta er ekki hægt að búa. Menn eiga að viðurkenna staðreyndirnar og eins þau vandamál sem þarf að fást við. Ekki hefur strandað á minni hluta fjárln. eða stjórnarandstöðunni að vilja vinna í þessum málum.

Það er ekki hægt að skera niður þar sem fitulagið er horfið. Það var ekki tímabært að ræða þessi fjáraukalög eins og þau voru þegar þau voru lögð fram og ég tók ekki þátt í því vegna þess að þá þegar vissu menn að inn vantaði tillögur um 400--500 millj. Mín skoðun er sú, herra forseti, að vafasamt sé að leggja fram frv. og mæla fyrir þeim þegar hvert einasta mannsbarn veit að framlögð gögn standast ekki og eiga eftir að taka miklum breytingum í meðförum nefnda og Alþingis. Það hefur reyndar ávallt verið svo um fjáraukalagafrv. að það hefur tekið miklum breytingum og stundum hrikalegum breytingum. Kannski er ekki hægt að segja það nú þó við bætist liðlega tveir milljarðar. Liðlega tveir milljarðar bætast nú við frá 1. umr. til 2. umr. og eitthvað á eftir að koma í viðbót. Það hafa einhverjir samningar verið í gangi um launamál --- er það ekki? Hafa ekki læknar, þroskaþjálfar og einhverjir fleiri aðilar verið að gera samninga um launamál? Ætli það eigi ekki eftir að breyta einhverju --- ja, ég veit það ekki, örugglega um 300--500 milljónum. Ætli það eigi ekki eftir að bætast við. Mér finnst það trúlegt. Hvernig eru þessar breytingar gerðar? Þær eru þannig gerðar að fyrst ræðum við um fjáraukalögin eins og þau eru lögð fram þó þegar sé ljóst að þau atriði sem frv. fjallar um hefðu getað verið meðfylgjandi fjárlagafrv. Nú er ég að tala um fjárlagafrv. fyrir 1997. Þegar það var samþykkt lá þegar fyrir að upp á vantaði þær tillögur sem menn vissu að kæmu. Það er hluti af þeim tillögum sem við erum að ræða núna. Menn vissu nákvæmlega að það mundi vanta 500--800 milljónir til þess rétt að fleyta sér yfir árið. Þetta var 20. desember í fyrra, þetta var ljóst en samt vantaði þetta inn í frv. Hvers vegna? Vegna þess að það þarf að sýna góðar tölur, fá góða útkomu, hæstv. fjmrh. Það er málið. Afkoma ríkissjóðs var 1,2 milljörðum lakari en ætlað var. En mín skoðun er einfaldlega sú að þær heimildir sem verið er að gefa í fjáraukalögum eigi að falla niður séu þær ekki nýttar.

Ef ég ræði um þessa framkvæmd við gerð fjáraukalaga þá held ég að hún hafi verið að batna en þessar upplýsingar um hafnar og óhafnar heimildir gefa til kynna að það séu inni óhafnar heimildir upp á 1,1 milljarð. Ég tel hreinlega að þar sem ekki er búið að gera grein fyrir notkun á fjárlagatillögum þá eigi bara að fella þær niður. Það er einfalt mál.

Það er ástæða til að benda á að lántökur ríkissjóðs eru um 75% á árinu. Í fjárlögum var veitt heimild til lántöku að 12,5 milljörðum kr. Auknar lántökur eru vegna tekjuhalla upp á 1,2 milljarða kr. í auknar afborganir vegna tekinna lána, 4,6 milljarðar vegna innlausnar spariskírteina og því til viðbótar voru veitt lán til Húsnæðisstofnunar upp á 3,5 milljarða. Lánsfjárþörfin er því 22 milljarðar kr. í stað 12,5 milljarða. Mín skoðun er sú að allt þetta hafi verið fyrirsjáanlegt. Það var fyrirsjáanlegt í lok desember í fyrra að í stað 12,5 milljarða í lánsfjáráætlun þá þurfti í kringum 20 milljarða.

Þetta gátu menn séð strax og hefði auðvitað átt að vera í fjárlagafrv. En þá hefði myndin verið öðruvísi en menn vildu sýna hana og það er svo sem ekkert við því að segja. Ég vil bara kalla það feluleik af gamalli hefð en ekki af nauðsyn. Það væri ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að breyta þessum vinnubrögðum. Hið fyrirsjáanlega á að vera inni í fjárlagafrv. hvers árs. Og við umræðu sem á eftir að fara hér fram um fjárlög er fyrirsjáanlegt að það þarf að lágmarki, að setja 600--700 milljónir inn í heilbrigðiskerfið. Ég bara nefni það núna að síðla á næsta ári --- við skulum segja í október --- þá verður það komið í ljós að til viðbótar við þennan 300 milljóna pott sem verið er að gera tillögu um núna fyrir árið 1998, mun vanta 600--700 milljónir bara til að ná endum saman. Þetta veit ég að hv. formaður fjárln. gerir sér manna best ljóst vegna þess að síðan ég fór að vinna í fjárln. hafa aldrei legið fyrir gleggri upplýsingar um stöðu þessa málaflokks sem mestu ræður hjá okkur, þ.e. heilbrigðiskerfisins. Það er það sem mestu ræður. Það hafa aldrei verið betri eða meiri upplýsingar um stöðuna enda geta menn fjallað um hana alveg hiklaust og reiðilaust og ætti að geta verið sátt um það sem þarf að laga.

[18:45]

Ég vil vitna, með leyfi forseta, í athugasemdir Ríkisendurskoðunar til fjárln. um frv. til fjáraukalaga þar sem segir m.a. um gjöld:

,,Fjárlög 1997 og frv. til fjáraukalaga veita gjaldaheimildir að fjárhæð 131,9 milljarðar kr.`` sem er 6,9 milljörðum hærri heimild en fjárlög 1997 áformuðu eða sem nemur 5,5% og það er veruleg tala í fjárlögum íslenska ríkisins. Til viðbótar er í frv. til fjáraukalaga annars vegar sótt um þá gjaldaheimild sem ég var að ræða um áðan að fjárhæð 1,1 milljarður kr. vegna flutnings frá fyrra ári og síðan er sótt um nýjar heimildir að fjárhæð 6,9 milljarðar kr. vegna ársins 1997. Af þessari upphæð er áætlað að flytja 1,1 milljarð kr. milli ára. Mér finnst það ekki rétt. Það á aðeins að flytja þær fjárheimildir milli ára sem útgjaldatilefni er til fyrir. Þar hygg ég að við getum verið sammála, ég og hv. formaður fjárln., ásamt og með flestum þeim sem hafa verið að sýsla um þessi mál.

Ég vitnaði í samanburð gjalda og um heimildir. Um er að ræða 6,3 milljarða 1. nóvember og þá voru ekki öll kurl komin til grafar. Það eru fróðlegir listar um þá aðila sem hafa ekki nýtt fjárheimildir og þá sem eru umfram og lagt er til að fái umframheimildir. Oft er um að ræða aðila sem höfðu gert grein fyrir fjárþörf við fjárlagagerð en var hafnað en fá síðan frammúrkeyrsluna bætta. Ég spyr: Er það þetta sem við eigum að vinna eftir? Það er fróðlegt að skoða hvaða stofnanir það eru sem sem eru með umframgreiðslur í lok september þegar eftir eru þrír mánuðir af árinu. Fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu er komin 13% fram úr þá þegar. Það er hægt að skoða fleira. Í dómsmrn. er húsnæði og búnaður sýslumanna kominn í 110% 1. september. Það er líka fróðlegt að skoða að Vinnumálaskrifstofan var komin í 222%, rúmlega 100% fram yfir heimildir 1. september. Það er líka fróðlegt að sjá að ýmis lán ríkissjóðs og vextir sem ég var að fara yfir áðan eru komin í 105% 1. september. Það verður líka fróðlegt að sjá hver staðan er núna við áramót. Hana höfum við ekki. Ég vona satt að setja að þetta versni ekki mikið.

Fleiri eru með umframgreiðslur. Kvikmyndaskoðunin var í 135,9%, Listdansskólinn var í 150,4%, Veiðimálastofnun var í 176%, Fasteignir ríkissjóðs voru í 129% og Flugvellir í 226%. Svo er ýmislegt í þessu plaggi sem sýnir fram á að þetta voru stofnanir sem höfðu sótt eftir fjárveitingum en var hafnað og þegar árinu er lokið kemur í ljós að þær þurftu peningana til að standa undir því sem þeim var ætlað. Það er þetta sem er að og þarf að laga við fjárlagagerðina.

Herra forseti. Ég hef verið að ræða um fjáraukalög og það sem birtist í þeim. Það er fróðlegra hvað ekki er sagt og ljóst er að gífurlegur vandi er í heilbrigðiskerfinu. Fjárskortur er að lágmarki 1,2 milljarðar. Rekstrarfjárvandi næsta árs er a.m.k. 600 millj. kr. og ég spái því að til viðbótar við þann pott upp á 300 millj. kr. þá þurfum við 600 millj. kr. Ég bið menn að hafa þetta hugfast því ég hygg að þetta verði alveg hárrétt. Viðhaldsþörfin í heilbrigðiskerfinu öllu er um það bil 1,5 milljarðar kr. Það er miðað við þær áætlanir um viðhald sem fjárln. hefur undir höndum. Eins og kom fram hjá hæstv. heilbrrh. er aðeins gert ráð fyrir 600 millj. til úrbóta. Lögð var fram 320 millj. leiðrétting og til viðbótar 80 millj. vegna ýmissa stofnana sem ég er ekki með til að telja upp en ég tel að þar hafi verið gengið til svokallaðra þjónustusamninga. Ég tek undir þá aðgerð og vona að menn séu að stíga þar rétt skref. Síðan koma til viðbótar 200 millj. sem er gert ráð fyrir í tillögum meiri hlutans. Alls var spáð fyrir 600 millj. kr., hæstv. heilbrrh., á síðasta hausti að vantaði og meira til. Það kemur líka í ljós. Ef tillögur minni hlutans eru skoðaðar kemur í ljós að 1,2 milljarðarnir sem ég nefndi oftar en einu sinni úr þessum ræðustól í fyrra var hárrétt tala. Í fyrra vantaði 1,2 milljarða og það var fyrir utan viðhald. Hvað er hún orðin núna?

Sjúkrahúsum á landinu, stórum og smáum, eru ætlaðar 200 millj. kr. til að fást við þann gífurlega vanda sem þau búa við vegna hallareksturs. Ég nefndi áðan að ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir nýlega og það á eftir að leiðrétta. Ég vona að það verði gert fyrir utan þessar tölur sem ég hef verið að nefna og ég trúi að svo verði enda sé ég að hæstv. heilbrrh. tekur undir það og kinkar kolli.

Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni var ekkert af þessum hækkunum ófyrirséð við fjárlagagerð síðasta árs heldur er það vilji ríkisstjórnarinnar. Hver er hann? Hver skyldi vera vilji ríkisstjórnarinnar? Hvað er hægt að lesa út úr þessu? Það er verið að reka sveltistefnu gagnvart heilbrigðiskerfinu. Þess vegna er ég að segja að þessar gjörðir sem ég er að reyna að lýsa séu feluleikur til að geta sýnt á pappírum betri stöðu en hún raunverulega er. Alls er verið að hækka frv. vegna fjáraukalaga um 949,2 millj. til viðbótar við þær tölur sem ég hef áður nefnt. Útkoman úr þessu dæmi er 1.922,1 millj. í halla vegna ársins 1997. Þetta eru horfurnar. Ég tel að það vanti a.m.k. 500--600 millj. til að stoppa í það gat sem er núna vegna ársins 1997 til viðbótar við þær 200 millj. sem menn eru að láta einhverja stýrinefnd deila út og gera tillögur til hæstv. heilbrrh. sem á svo að blessast af fjárlaganefnd. Ég vil halda þessu til haga til að láta vita um að við erum með allar tölur og jafnvel fleiri tölur á borðinu en hæstv. heilbrrh. um þessi mál því heita má að við höfum fengið upplýsingar frá hverri einustu sveitarstjórn á landinu um lítinn og stóran vanda þeirra.

Þær tillögur sem ég hef verið að ræða staðfesta að fjármálastjórnin okkar er því miður óviss og laus í böndunum, ekki nema óraunveruleg fjármálastjórn nema að því leyti að segja má að rekin sé nokkurs konar sveltistefna. Heilbrigðiskerfislíkaminn er að verða hró sem þarf að gefa deyfilyf og er verið að gefa deyfilyf, eins konar morfín, svo hann hjari í stað þess að taka garminn í skipulega endurhæfingu eða fyrirbyggjandi viðhald. Kannski væri ágætt að nefna það fyrirbyggjandi viðhald. Það þarf vítamíngjöf, það þarf áætlun, hæstv. heilbrrh., til þriggja eða fjögurra ára svo hægt sé að herða skrokkinn. Hann er ekki gamall en hann hefur búið við ósæmileg kjör og svelti í of langan tíma og ekki síst síðustu árin vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnar hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar. Staðan er þannig að stóru spítalarnir í Reykjavík hafa efasemdir um að raunhæft sé að fara í sameiningu. Þetta kemur fram á pappírum. Miðað við núverandi ástand er fjárskortur hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur 471 millj. kr. miðað það sem áætlað er á næsta ári. Ef ég nefni Ríkisspítalana er hægt að taka kannski langtum stærri tölu en uppsöfnuð fjárvöntun Ríkisspítalanna verður í árslok 1998 872 millj. kr., þar af er uppsafnaður halli 385 millj. kr. Hvernig ætla menn að leysa þetta? Gert er ráð fyrir 520 millj. fyrir árið 1997 og síðan 80 millj. kr. vegna þjónustusamninga við hjúkrunarheimili og heilsugæslustöðvar. Það er alveg ágætt að það sé gert en heildarvandinn sem blasir við í rekstri, í viðhaldi og tækjakaupum í heilbrigðiskerfinu, hæstv. heilbrrh., nemur 2,6 milljörðum. Óleystur vandi er því nú við 2. umr. fjárlaga um 2 milljarðar en bráðavandinn er um það bil 1 milljarður ef reiknað er með að þær stofnanir sem hér er um að ræða geta dregið með sér mánaðarveltu. Kannski er ekki óvarlegt að reikna með því að stofnanir geti dregið með sér mánaðarveltu en um er að ræða 2 milljarða vanda og 1 milljarðs bráðavanda.

Allar stofnanir á landinu eru í einhverjum vanda. Þær sem hafa sloppið yfir árið 1997 horfa fram á halla á næsta ári. Ég get nefnt t.d. Sjúkrahúsið á Patreksfirði sem er með rekstrarvanda upp á hátt í sjöundu millj. og horfir í alvarlegan vanda ef ekki á að bæta úr þeirri neyð. Ég vona að það verði gert og bætt um betur á milli 2. og 3. umr. Ég treysti því að hæstv. heilbrrh. beiti sér fyrir því að setja fjármuni inn í kerfið milli umræðna þannig að komið verði í veg fyrir vandann sem við er að etja og fólksflóttann sem er í kerfinu. Ég nefni bara stöðuna eins og hún er. Á Grensásdeildinni er hluti af húsinu lokaður en á sama tíma ætla menn að fara af stað með endurhæfingarstöð suður í Kópavogi. Mér er sagt að ástæðan fyrir því að Grensásdeildin sé ekki rekin af fullum krafti sé að ekki sé hægt að ráða starfsfólk. Getur verið að það sé auðveldara að ráða starfsfólk suður í Fossvogi en á Grensásdeildina? Ég skil ekki þessar ráðstafanir. Ég skil sumar ráðstafanir engan veginn eins og verið er að gera tillögur um í þessu kerfi. Þess vegna legg ég til að menn fari heildstætt í þetta með einhverjum aðila sem gerir raunverulegar tillögur, ekki með nefnd fyrir hvern spítala og ótal nefndir og ráð út um allt kerfið sem eru með misvísandi tillögur. Það þarf að taka miklu betur á því.