Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 19:00:29 (1917)

1997-12-09 19:00:29# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[19:00]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var einkum eitt atriði sem mér fannst gæta örlítils misskilnings á í ræðu hv. þm. Það var um launamálin en eins og honum er kunnugt erum við í fjárln. að fjalla um tillögur um aukin útgjöld vegna kjarasamninga, m.a. lækna og þroskaþjálfa fyrir næsta ár. Sá kostnaður fellur ekki til nema að mjög litlu leyti á þessu ári en vissulega er það rétt hjá hv. þm. að næsta ár munu verulegir fjármunir falla til vegna þessara mála.

Varðandi óhafnar heimildir er að venju tekin afstaða til þess í lokafjáraukalögum, hvaða heimildir stofnanir fá að draga með sér yfir á næsta ár. Vissulega er rétt ef heimildirnar eru ekki notaðar og ef það er mat fjmrn. og fjárln. að ekki sé þörf fyrir fjárveitingarnar þá á vissulega að fella þær niður en það geta auðvitað verið ástæður fyrir því að heimildir eru óhafnar.

Það er rétt að miklar upplýsingar liggja fyrir um heilbrigðiskerfið og við höfum reynt eftir föngum að kynna okkur ástand þeirra mála og að draga að okkur upplýsingar um ástandið í heilbrigðiskerfinu. Ég held að góður grundvöllur sé fyrir því að ganga til samninga um þessi mál við sjúkrahúsin og það er gott fyrir báða aðila að semja um umfang starfseminnar þannig að það ljóst sé fyrir stofnanirnar (Forseti hringir.) að hverju þær ganga og ljóst hvað fjárveitingavaldið ætlar að láta í hverja stofnun.