Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 19:02:46 (1918)

1997-12-09 19:02:46# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[19:02]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hef farið eitthvað geyst í ræðu minni um launamálin var þar vissulega átt við árið 1998 eins og formaður nefndi réttilega. Þar er um mikinn vanda að ræða sem ekki er farið að gera ráð fyrir. Þess vegna hlýtur það koma í fjárlagatillögum en ekki fjáraukalagatillögum og ekkert er óeðlilegt þó menn fari að blanda einhverju saman þegar vinnudagurinn er frá u.þ.b. kl. 8 á morgnana og fram til kl. 1 um nótt og svo byrjað aftur næsta morgun og það er sitthvað verið að ræða, fjárlög og fjáraukalög, og þá er nú kannski hætt við að eitthvað slái saman í viskustykkinu á manni. En við erum sammála um þau atriði sem lúta að óhöfnum tillögum og óhöfnum fjárveitingum. Ég tel að það eigi að fella það niður þar sem ekki er gerð grein fyrir útgjaldatilefni. Menn eiga ekki að hafa þann möguleika á stofnunum ár eftir ár til að flytja á milli til að geta ráðstafað þessu þegar þeim þóknast.

Ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég er ekki með langa ræðu um fjáraukalög er að það sem við erum að fjalla um eru gerðir hlutir og þess vegna er ekki ástæða til þess að halda langar ræður um þessi mál eins og þau eru. Það er þó lágmark að það sé staðfest, eins og hér hefur verið gert, að vandinn sem við erum að glíma við núna var fyrirséður að mestu leyti fyrir einu ári. Það er það sem skipti máli að þegar við afgreiddum fjárlög á síðasta ári að þá vantaði (Forseti hringir.) þær tölur, sem við erum að ræða núna, að mestu leyti inn.