Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 20:52:37 (1922)

1997-12-09 20:52:37# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:52]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar rætt er um kostnað við sjúkrahúsin og fjárframlög til þeirra þá er það gjarnan gert án tillits til þess hvernig aðrir útgjaldaliðir í heilbrigðiskerfinu koma út. Sá niðurskurður sem hefur sannarlega átt sér stað á sjúkrahúsunum, þar sem sjúklingar eru látnir fara heim eftir stutta legu, biðlistar lengjast og menn bíða lengur eftir aðgerðum, þá kemur þessi sparnaður auðvitað fram á annan hátt. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að líta á útgjöld Tryggingastofnunar í heild og það er fljótlegt að sjá að kostnaður við útgjöld sjúkratrygginga æðir áfram, hækkar í sífellu vegna lyfjakostnaðar. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta, í frv. til fjárlaga: ,,Heildarútgjöld sjúkratrygginga eru áætluð 8.700 millj. kr. og aukast um 8,7% eða 700 millj. kr. í fjárlögum 1997.`` --- Það eru nú hátt í 10% sem hv. þm. var að tala um. --- ,,Þar af eru 330 millj. kr. verðbætur og 330 millj. kr. útgjöld umfram áætlun fjárlaga 1997. Helstu útgjöld umfram fjárlög árið 1997 eru 110 millj. kr. í lækniskostnað, 80 millj. kr. vegna sjúkraþjálfunar, 90 millj. kr. vegna ofáætlaðra sértekna, þar sem afsláttur af lyfjum féll að mestu niður frá síðustu áramótum. Loks stefnir lyfjakostnaður 50 millj. kr. umfram forsendur fjárlaga 1997.`` Ég held þess vegna og vil spyrja hv. þm. hvort ekki væri nær, þegar upp væri staðið, að reyna að rannsaka hvað þessi umbrot á sjúkrahúskerfinu, t.d. í Reykjavík, hafi haft í för með sér í sparnaði og líta þá til útgjalda Tryggingastofnunar ríkisins í heild.