Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:38:08 (1935)

1997-12-09 21:38:08# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:38]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. rifjar það upp þegar Landakot og Borgarspítalinn voru sameinuð. Það var erfitt á þeim tíma. Ég er alveg sammála hv. þm. um það og það var talsvert sársaukafullt fyrir marga þá sem unnu t.d. á Landakoti. Nú eru menn í því, þegar nokkur ár eru liðin, að gera upp þessa reynslu. Ég er viss um að hv. þm. hefur eins og ég lesið greinar eftir mæta lækna sem störfuðu á Landakoti, sem lýsa því að þegar þeir horfa til baka þá hafi þessi sameining tekist mjög vel. Það er líka rétt hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að líkast til var gengið fullharkalega að Borgarspítalanum. Ég ætla ekki hér að vera með einhverja sérstaka kokhreysti eins og hv. þm. segir. En mig langar að benda honum á að ein af þeim forsendum sem fyrri ríkisstjórn lagði fyrir þeirri sameiningu, voru framlög sem áttu að koma í tilteknar byggingar, m. a. skrifstofubyggingu og þjónustubyggingu við Sjúkrahús Reykjavíkur í Fossvogi, sem átti að kosta á þriðja hundrað millj. kr. Við höfum bent á það aftur og aftur, ár eftir ár, að það stendur upp á framkvæmdarvaldið að efna þetta loforð. Og þótt áhrif mín teygi sig bæði langt aftur og fram í tímann, herra forseti, þá er ekki hægt að ásaka mig eða mína venslamenn fyrir það að núverandi framkvæmdarvald hefur ekki staðið við þessi orð.