Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:45:10 (1939)

1997-12-09 21:45:10# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Er það ekki lágmarkskrafa sem hægt er að gera til hæstv. heilbrrh. að hún viti að minnsta kosti niðurstöðu grundvallarskýrslna og nefnda sem hún hefur sett á laggirnar? Hæstv. ráðherra innti mig eftir því hvað hefði komið út úr nefndinni sem fjallaði um heilsukjördæmin hennar. Getur það verið að hæstv. ráðherra viti það ekki sjálf? Mér skildist á máli hæstv. ráðherra að hún teldi til að mynda að ég hefði verið sammála þeirri niðurstöðu sem lá þar á borði en var aldrei formlega afgreidd. Það er rétt að fram komi að ég er henni algjörlega ósammála. Ég var algjörlega á móti þessum heilbrigðiskjördæmum. Ég er algjörlega á móti þeim og hef beðið eftir því í þrjú ár að fá tækifæri til að ræða það hér vegna þess að hæstv. heilbrrh. lofaði því aftur og aftur, barði sér á brjóst og sagði að þar kæmi stefnan fram. Ég er búinn að bíða eftir því í þrjú ár að fá að eiga orðastað við hana um þessa stefnu, en hún kemur aldrei fram. Hvers vegna? Vegna þess að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki lengur trú á þessu. Vegna þess að nefndarmennirnir sumir sem um þetta fjölluðu urðu á endanum ekkert sammála þeirri stefnu sem hæstv. heilbrrh. lagði fyrir nefndina. Og dæmi um það hvað eitt rekur sig á annars horn þá er bersýnilegt að hæstv. heilbrrh. telur að þær hugmyndir sem hún lagði þar inn fari saman við niðurstöðu VSÓ-skýrslunnar. Hugmyndir hæstv. heilbrrh. gengu út á það að hafa eina stjórn í hverju kjördæmi. Hugmyndirnar í VSÓ-skýrslunni, meginhugmyndirnar, ganga út á að sameina sex spítala undir eina stjórn í þremur kjördæmum. Hvernig er þá hægt að hafa sérstaka stjórn í sérhverju þeirra kjördæma? Það sér hver maður að er ekki hægt. Þetta er ég búinn að reyna að benda hæstv. heilbrrh. á nokkrum sinnum, en það er eins og hún vilji ekki skilja þetta. Mér finnst það sé lágmark, herra forseti, að fyrst hæstv. heilbrrh. tekur þessar tvær nefndir og tvær skýrslur, og telur að það séu burðarásarnir í framtíðarstefnu hennar, að hún kunni þá glögg skil á þeim.