Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:48:27 (1941)

1997-12-09 21:48:27# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti nú ekki von á því að niðurstaða þessarar umræðu yrði þessi. En hún er svona. Hæstv. heilbrrh. er enn þá með tvær stefnur uppi á borðinu í stærstu málum heilbrigðisþjónustunnar. Hæstv. heilbrrh. er enn þá uppi á borðinu með það sem hún kallar kjördæmastjórnirnar og líka þá niðurstöðu sem er hægt að lesa út úr skýrslu VSÓ. Þetta tvennt fer ekki saman. Það vita allir sem kynna sér þessi mál.

Af því hæstv. heilbrrh. spurði mig út í niðurstöðu þeirrar nefndar sem ég sat í, þá er rétt að fram komi að ég er á móti þeim meginhugmyndum sem hún lagði inn í farteski nefndarinnar og ég er á móti þeim meginhugmyndum sem virtust vera afurð nefndarinnar þegar hún var að ljúka störfum. En ég hef aldrei séð lokaskýrslu nefndarinnar. Ég veit ekki til að hún hafi verið undirrituð, að minnsta kosti aldrei af mér. Og ekki hefur verið óskað eftir mínu áliti sérstaklega á því. Það er ekki tími til að fara út í það. En ég tel t.d. að þær hugmyndir brjóti ákveðin grundvallarréttindi sjúklinga sem ég get ekki vikið frá.