Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:51:57 (1943)

1997-12-09 21:51:57# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sé það svo, eins og ýmsar skýrslur benda til, ég þori ekki að taka af skarið um það, eins og niðurstaða t.d. VSÓ-skýrslunnar bendir til að það sem kalla mætti óæskilegt skipulag í sjúkrahúsaþjónustunni hér á Íslandi tekur upp of mikið fjármagn á sama tíma og fjármagn skortir til að halda úti æskilegri þjónustu, þá er rangt skipulag um leið orðið að faglegu vandamáli vegna þess að það kemur í veg fyrir að sjúkrahúsin geti haldið uppi þeim faglega ,,standard`` sem þau eiga að gera. Ég held reyndar að við séum að komast á þau tímamót að það sé farið að draga þannig af sjúkrahúsunum að þau megni nánast ekki lengur að halda uppi þeim faglega ,,standard`` sem þeim ber. Það held ég. Að því er varðar síðan það sem hv. þm. innti mig eftir og snerti einhverja erlenda sérfræðinga, þá treysti ég mér ekkert til að svara því. Ég hef lesið þessa skýrslu. Ýmislegt skil ég ekki í henni. Flest skil ég. Ég skil suma gagnrýnina sem fram hefur komið. En ég tel að megindrættir skýrslunnar séu það einhlítir að við getum ekki kastað henni. Við hljótum að þurfa að ræða málið á grundvelli þess þegar sérfræðingar, jafnvel þótt þeir séu danskir og kunni ekki skil á íslenskri heilbrigðisþjónustu, komast að því að hægt sé að hagræða sem nemur 520 ársverkum. Það er hreinlega út í hött að ætla að varpa því út í hafsauga.