Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:58:29 (1947)

1997-12-09 21:58:29# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gerir enn að umræðuefni þá ágætu nefnd sem við hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sátum í og átti að véla um heilsukjördæmin. Inn í þá nefnd lagði hæstv. ráðherra ákveðnar hugmyndir sem bersýnilegt var að fulltrúar hennar áttu að keyra út og gera að stefnu sem átti að ljúka með skýrslu sem hæstv. ráðherra sagði einum fjórum eða fimm sinnum að yrði lögð hér fyrir þingið. Þessi nefnd lauk nánast störfum. Það voru að minnsta kosti tveir sem í upphafi höfðu miklar efasemdir. Það vorum við hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir. En hvernig skyldi standa á því, herra forseti, að nefndin skilaði aldrei frá sér endanlegu áliti? Kynni að vera að þegar yfir lauk hafi það ekki verið bara tveir sem voru á móti þessum hugmyndum heldur væru fagmenn í nefndinni, úr geiranum, komnir á þá skoðun að þetta væri ekki nægilega gott?

Ég er algjörlega á móti þessum heilsustjórnum hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi vegna þess að þær auka kostnað talsvert. Í öðru lagi fólst líka í þessu að stýra átti þessu öllu meira og minna frá skrifborði ráðherrans. Þarna braust því fram ótrúleg miðstýringarárátta. Og í þriðja lagi skerti þetta alvarlega rétt sjúklinga til að leita þess sjúkrahúss og þess læknis sem þeir kjósa. Það var kannski í mínum augum langalvarlegast.

Ég spyr hæstv. heilbrrh. Hvernig í ósköpunum stendur á því að verið er að vinna eftir einhverjum óljósum hugmyndum víðs vegar um landið, en stefnan sem slík sem hún er að vinna eftir hefur aldrei komið inn í þingið? Hvernig stendur á því að þingið fékk ekki að ræða þessar hugmyndir hennar? Þetta voru grundvallarhugmyndir og þó ég sé þeim algjörlega andvígur þá tel ég að það hefði átt að ræða þær eins og hæstv. heilbrrh. lofaði aftur og aftur. En staðreyndin er sú að hún heyktist á því að koma með þetta inn vegna þess að það brast á flótti í hennar eigin liði. En nú er maður að heyra að þrátt fyrir allt er þetta stefnan og líka hin stefnan sem birtist VSÓ-skýrslunni.