Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:04:02 (1951)

1997-12-09 22:04:02# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:04]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað og hver er þessi samhæfing sem svo mikið er rædd hér á þingi? Er það sameining, er það samvinna eða er það einhvers konar laust samstarf? Hvað er samhæfing? Ég hef aldrei sagt mig vera á móti samstarfi eða samvinnu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana hér á landi. Ég tel hins vegar að við verðum að gjalda varhug við ráðagerðum um fulla sameiningu stórra stofnana eins og Borgarspítala eða Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala eða Landspítala. Ég tel það vera mjög alvarlegt mál. Menn skulu gæta að því að ef að sameiningu kemur áður en Alþingi er búið að ræða til hlítar hvert við viljum stefna með heilbrigðisþjónustuna í framtíðinni þá verður ekki aftur snúið. Þess vegna er það alvörumál þegar rætt er um sameiningu sjúkrastofnana.