Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:05:53 (1953)

1997-12-09 22:05:53# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:05]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeim umræðum sem hér hafa farið fram í kvöld. Það hefur verið mikið um fullyrðingar. T.d. er fullyrt að fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar hafi aukist og það er sett fram með þeim hætti að engu er líkara en fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar hafi aukist meira en til annarra þátta í þjóðfélaginu. Það væri fróðlegt að velta því fyrir sér hvort það er þannig, hvort fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar hafi t.d. aukist meira en hagvöxturinn á þessum síðustu árum. Það er ekki. Fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar hefur aukist minna en nemur hagvextinum. Greinilegt er að heilbrigðismálin eru að dragast aftur úr í þjóðarbúskap Íslendinga. Það er nokkuð umhugsunarvert.

Ef við berum heilbrigðismálin saman við ýmsa þætti eins og t.d. verslunarumsvif þá er ljóst að uppbygging í þágu verslunar hefur aukist meira en nemur vexti þjóðarframleiðslunnar, landsframleiðslunnar og þar af leiðandi miklu meira en heilbrigðismálin. Heilbrigðismálin sitja eftir og þegar að því kemur að stjórnvöld auka fjármuni einhvers staðar í samfélaginu þá hugsa menn býsna stórar hugsanir á vissum sviðum. Varla er til sá fjörður á Íslandi þar sem mönnum hefur ekki dottið í hug að setja niður a.m.k. olíuhreinsunarstöð ef ekki álver og þar fyrir utan hafa menn nýlega tekið ákvörðun um það í ríkisstjórninni að stækka flugstöðina í Keflavík upp á fleiri fleiri milljarða króna. En heilbrigðismálin sitja eftir. Enn svífur gamli niðurskurðarandinn yfir vötnunum þó að að sjálfsögðu sé hægt að benda á ýmislegt sem vel hefur verið gert.

Í þessu sambandi bendi ég hv. þm. á að heimsækja sjúkrahúsin í Reykjavík. Ég bendi hv. þm. á að ganga um Sjúkrahús Reykjavíkur, Borgarspítalann í Fossvogi og horfa á hann að utan. Ég bendi hv. þm. á að heimsækja Landspítalann. Ég bendi hv. þm. á að horfa á Landspítalann að utan, tengigangana gömlu sem enn eru þar við lýði, skoða tröppurnar og stigana og sjá hvernig búið er að þessari stofnun. Svo er rætt um viðhaldsfé upp á mjög lágar upphæðir. Það er augljóst mál, hvað sem öðru líður, að heilbrigðiskerfið er hornreka á Íslandi. Og ég er sannfærður um að hæstv. heilbrrh. er ekkert ánægður með þá stöðu sem heilbrigðiskerfið er í þó hún hafi að sjálfsögðu það hlutverk að berja í brestina. Það eru hennar örlög í þessu dæmi.

Af hverju eru endurkomur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur mörgum, mörgum sinnum fleiri en þær voru fyrir fimm eða tíu árum? Af hverju ætli það sé þannig, herra forseti, að endurkomur eftir átta daga legu voru kannski fjórar eða fimm á Borgarspítalanum fyrir allmörgum árum en teljast nú í hundruðum innan mánaðar frá því að fólk var útskrifað? Af hverju halda menn að svo sé? Það getur aðeins komið til vegna þess að fólk er núna útskrifað allt of snemma undir allt of mikilli pressu, rekstrarpressu, peningalegri pressu á spítölunum. Og af hverju ætli það sé þannig að í skýrslu um forgangsröðun í heilbrigðismálum frá opinberum aðilum stendur að talsverður fjöldi sjúklinga sé ekki einasta látinn liggja frammi á göngum og baðherbergjum heldur á skolherbergjum. Þetta stendur í skýrslu um forgangsröðun í heilbrigðismálum. Hvar erum við stödd, herra forseti, þegar svona stendur á?

Ég tel að í þessu efni væri í raun verra að umræðan snerist fyrst og fremst upp í að bera orð á hæstv. heilbrrh. þann sem hér situr nú eða þá sem voru kannski allra næst á undan honum. Ég held að ábyrgð Alþingis Íslendinga í þessu máli sé mikið, mikið meiri en svo að það sé við hæfi. Mér finnst að hv. fjárln. og forusta hennar sem hér hefur talað í kvöld, ekki hafa talað af mikilli ábyrgð um þessa hluti, ekki alltaf. Hér er um að ræða ákaflega alvarlegt mál, þ.e. að hér sé örugg heilbrigðisþjónusta þannig að fólk flýi örugglega ekki Ísland vegna þess að heilbrigðisþjónustan sé slök. Í raun er það sjálfstæðismál fyrir þjóðina að hér sé almennileg heilbrigðisþjónusta.

Mér finnst þessi dæmi um endurkomurnar og skolherbergin segja alveg nægilega mikið um það að við erum í mjög miklum vanda stödd. Tillögur ríkisstjórnarinnar núna um lagfæringar eru 200 millj. kr. að mér skilst í þessu fjáraukalagafrv. til landsbyggðarsjúkrahúsanna og þar á meðal FSA, ef ég skil þetta rétt, og 300 millj. á næsta ári til allra sjúkrahúsa til viðbótar við það sem stendur í fjárlagafrv. Sjálfsagt mætti segja að þetta sé betra en ekki neitt. En menn vita væntanlega hver vandinn er, ekki aðeins að mati þeirra stofnana sem hér er um að ræða heldur að mati allra sem vélað hafa með þessar tölur. Ég ætla að fara yfir þennan vanda, herra forseti.

Bæði ráðuneyti og Sjúkrahús Reykjavíkur meta það svo að uppsafnaður vandi Sjúkrahúss Reykjavíkur frá liðnum árum sé 178 millj. kr. Vegna ársins í ár er það skoðun Sjúkrahúss Reykjavíkur en að því er ég hygg hefur ekki verið tekið undir hana af ráðuneytinu né henni verið mótmælt með neinum rökum, að vandinn í ár sé upp á 144 millj. kr. Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er jafnframt búist við að vandinn verði upp á 414 millj kr. á næsta ári. Sá talnagrunnur sem hér býr að baki er ekki gagnrýndur. Með öðrum orðum eru menn þarna að tala um í kringum 700 millj. kr. vanda hjá þessari einu stofnun. Veruleikinn er sá að það er búið að stofna til þessa kostnaðar að verulegu leyti. Þ.e. allt sem um er að ræða frá fyrri tíma 178 millj., 144 millj. kr. í ár. Ákvörunin um að eyða þessum peningum hefur verið tekin.

Ég veit alveg hvað hæstv. heilbrrh. mundi segja við þessu. Hún mundi segja að þegar samið var við Reykjavíkurborg og aðra aðila um rekstrargrundvöll þessa sjúkrahúss og annarra sl. sumar, þá hafi verið gengið út frá öðrum talnagrunni þannig að í raun og veru hafi vandinn í ár ekki verið 144 millj. kr. heldur enginn --- núll, eftir þau framlög sem ákveðin voru í samningnum. Við þessu segir Sjúkrahús Reykjavíkur aftur á móti að varðandi þennan grunn sem gengið var út frá í samningnum, þá hafi menn í verið píndir og grættir til þess að skrifa upp á hann til að fá eitthvað. Þetta segja menn fullum fetum. Þetta segja menn á fundum með fulltrúum allra stjórnmálaflokka, m.a. formanna þingflokka stjórnarflokkanna sem haldinn var á Borgarspítalanum núna fyrir nokkrum vikum. Þar sögðu þeir að þetta hefði verið þannig að þeir hefðu neyðst til að skrifa undir að þessi grunnur væri réttur þó að þeir hefðu vitað og lagt fram tölur sem sýndu að þarna vantaði 144 millj. kr. í rekstur. Þá er ég ekki að tala um ástandið á gjörgæsludeildinni. Hér er um að ræða vanda upp á 700 millj. kr. eða svo.

Hvernig er þetta svo hjá Ríkisspítölunum? Ég ætla að fara yfir það líka. Ég hygg að heilbrrn. geri engar athugasemdir við talnagrunn Ríkisspítalanna. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um hvort svo sé. Ég hygg að svo sé ekki og ég vildi spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hún fallist á talnagrunn Ríkisspítalanna en hann hefur ekki verið gagnrýndur. Þá er ég ekki að tala um ýtrustu óskir Ríkisspítalanna heldur halla upp á 230 millj. kr. á síðasta ári. Uppsafnaði hallinn á Ríkisspítölunum er 230 millj. Hallinn í ár er upp á 155 millj. eftir samkomulagið og á næsta ári 487 millj. kr. Þetta er í raun og veru það sem Ríkisspítalarnir setja fram og sé það allt skoðað kemur í ljós að vandinn á næsta ári er að mati spítalanna 900 millj. kr. Heilbrrn. hefur ekki vefengt þennan vanda en forstöðumenn þessara stofnana hafa sagt: Ef fjárlagafrv. verður afgreitt eins og það liggur nú fyrir, þá verðum við að segja upp 400--500 manns á báðum spítölunum. Ljóst er að þær 300 millj. kr. sem eiga að fara á alla spítalana í landinu duga engan veginn í þessu dæmi.

[22:15]

Ég spyr hæstv. heilbrrh. og hv. formann fjárln. hvort þau geri sér grein fyrir því að þau eru að taka ákvörðun um að skipa forstöðumönnum þessara sjúkrahúsa að reka fólk í stórum stíl og loka stofnuninni og deildum. Gera þau sér grein fyrir því? Er það þannig að þingmenn stjórnarflokkanna gangi að þessu verki opnum augum? Vilja þau loka deildunum? Er það þannig að fjárlaganefndarmenn stjórnarflokkanna, eins og sá sem gengur hér í salinn, geri sér grein fyrir því að hann er með tillögur um að segja upp mörg hundruð manns á sjúkrahúsunum í Reykjavík og hann er að gera tillögur um að loka verulega stórum hluta spítalanna? Það er þannig. Ég reikna með því að hv. þingmenn reyni eins og fyrr að segja: Við erum nú að gera þetta og við erum nú að gera þetta. Ég reikna með því að það verði reynt að toga hlutina saman einhvern veginn á næstunni. Ég segi alveg eins og er, ég held að þetta sé miklu alvarlegri vandi en svo að menn geti leyft sér að kasta því á milli sín eins og við gerum oft og eins og þetta sé núverandi hæstv. heilbrrh. að kenna eða þeirri ágætu persónu sem þar situr núna. Málið er ekki þannig. Veruleikinn er sá að sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu kosta í fjárlögunum 14 milljarða, ég held 9--10 og í kringum 5, ef ég man rétt. Það er alveg augljóst mál að tilhliðrun upp á eitthvað talsvert innan við 300 millj. dugir engan veginn.

Herra forseti. Mér finnst líka skjóta skökku við þann veruleika sem við horfum svo framan í í þjóðfélaginu að öðru leyti. Það á að fara að stækka flugstöð fyrir milljarða. Það á að fara að byggja verslunarhúsnæði 640 þúsund fermetra fyrir 10--20 milljarða kr. (Gripið fram í.) Nei, þjóðfélagið, þetta eru peningar þjóðarinnar. Ég er alveg sannfærður um að ef þjóðin væri spurð mundi hún frekar vilja verja fjármununum til þess að tryggja heilbrigðisþjónustu sína en byggja upp þetta verslunarhúsnæði með þeim hætti sem er verið að gera. En látum það vera.

Veruleikinn er að minnsta kosti sá að heilbrigðisþjónustan og ástand hennar, grotnandi byggingar og vaxandi vantraust innan stofnananna eru í hróplegri mótsögn við góðærið mikla. Þess vegna finnst mér skylda okkar að reyna að hjálpa hæstv. heilbrrh. eins og kostur er til þess að lyfta þessari mikilvægu undirstöðu þjóðfélagsins upp. Staðreyndin er sú að heilbrigðismálin eru ekki sá baggi á þjóðfélaginu sem alltaf er talað um. Heilbrigðismálin eru undirstöðuþáttur í þjóðfélaginu. Heilbrigðismálin eru ekkert sem menn eiga að skammast sín fyrir. Veruleikinn er sá að í siðaðra manna þjóðfélagi viljum við láta vel að veiku fólki og því sem þarf aðhlynningar við. Það er þannig. Það er spurning um hið almenna siðræna mat í stjórnmálastarfinu hvaða áherslu menn leggja á heilbrigðismálin.

Herra forseti. Ég tel með öðrum orðum að ég hafi sýnt fram á að þær tölur sem hv. fjárln. er að nefna í kvöld, örugglega í góðum hug, bæði í fjáraukalögum og fjárlögum á næsta ári, duga hvergi nærri. Ég er algerlega viss um ef verður reynt að fara af stað með þetta mun það gerast strax og kemur fram yfir áramótin að menn biðja um meiri peninga og smátt og smátt herðist sá hnútur og smátt og smátt verða skipaðar fleiri nefndir á milli stjórnvalda og sjúkrahúsanna og niðurstaðan verður sú einhvern tíma á árinu 1998 og þegar kemur fram á sumar að menn slaka á. Þannig hefur það verið ár eftir ár af því að fjárlagagrunnurinn sem menn hafa lagt í þessari stofnun hefur verið vitlaus.

Ég held hins vegar að hinn uppsafnaði langtímavandi sem við er að glíma á sjúkrahúsunum í landinu, vegna þess að þetta er engu betra í dreifbýlinu, muni koma okkur í koll af vaxandi þunga á næsta ári af því að fólk vill ekki sætta sig við að heilbrigðisþjónustan sé beygð meira niður á góðæristímunum en allt annað. Réttlætiskennd fólks segir: Þetta gengur ekki svona.

Herra forseti. Svo er því haldið fram að alltaf fari meiri og meiri fjármunir til heilbrigðismála. Það sé meira vesenið með þessi heilbrigðismál. Meiri bagginn, þessi heilbrigðismál. Ótrúlegar herferðir hafa verið farnar gegn heilbrigðisþjónustunni á undanförnum árum. Ég er ekki að segja að það sé í gangi núna en alltaf er verið að tala um það að heilbrigðismálin séu mikill baggi á þjóðinni. Ég ætla að fara yfir útgjöld til heilbrigðismála staðvirkt á mann í þúsundum króna á verðlagi ársins 1996.

Hvað kemur þá í ljós, herra forseti? Þá kemur í ljós að framlög til almennra sjúkrahúsa voru 73.500 kr. á mann 1988 en voru 1996 64.500 kr. á mann, höfðu með öðrum orðum lækkað verulega á átta ára bili. Við getum líka skoðað heilsugæsluna vegna þess að því er alltaf haldið fram að hún sé alltaf að þenjast út. Það er ekki. Ef við skoðum útgjöld til heilsugæslunnar staðvirkt á mann í þúsundum króna á verðlagi ársins 1996 er um að ræða lækkun úr 22.400 kr. á mann 1991 niður í 18.600 kr. á mann 1996. Ef við tökum svo öll opinber heilbrigðisútgjöld eins og þau leggja sig, og þá er búið að taka tillit til þess að lyfjaverð hefur hækkað og það er líka búið að taka tillit til þess að öldrunarþjónustan sem hæstv. ráðherra var að nota sem réttlætingu fyrir niðurskurðinum á sjúkrahúsin hefur tekið meira til sín, hvað hafa opinber heilbrigðisútgjöld þá breyst mikið á þessum tíma?

Árið 1989 voru opinber heilbrigðisútgjöld á mann 128.500 kr. en 1996 voru þau 123.100 kr. á mann. Það er því ljóst að heilbrigðisútgjöld staðvirkt á mann hafa ekki hækkað heldur lækkað þegar upp er staðið. Þetta er veruleiki sem birtist okkur í þessu riti á bls. 99 og getur hver maður séð. Þetta er svona. (Heilbrrh.: Frá 1996?) Þetta er frá 1996, já, það er rétt að síðan bætast við 1997 og 1998 og spurningin er hvort það er að einhverju leyti umfram verðlagsþróun. Ég hygg að það sé það í einhverjum tilvikum en ég hugsa að það nái því þó ekki að 1998 séu tölurnar, t.d. gagnvart fjárlagafrv., orðnar hærri en þær voru samanburðarárið sem ég er með.

Ég tek síðan, herra forseti, útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála 1993--1996 líka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þá kemur það í ljós að framlög til heilbrigðismála 1993 voru 6,92% af vergri landsframleiðslu en þau voru 1994 6,82%, 1995 6,92%, 1996 6,84%. Ég hef auðvitað ekki 1997 og 1998 þó ég gæti út af fyrir sig giskað á það. En veruleikinn er sá að ekki er hægt að tala um að heilbrigðismálin hafi verið að gleypa stækkandi hluta af þjóðarframleiðslunni á þessum tíma, það er ekki þannig, þau hafa ekki verið að því. Þess vegna er rangt sem allir talsmenn stjórnarflokkanna hafa sagt í kvöld að heilbrigðismálin hafi alltaf verið að bæta við sig. (Gripið fram í.) Eftir 1996. Auðvitað eru þau eitthvað að bæta við sig en ég er algerlega sannfærður um að það er ekki þannig að heilbrigðismálin séu að sækja á aðra þætti í samfélaginu um þessar mundir, þvert á móti. Ég tel þess vegna brýna nauðsyn að auka talsvert, ekki mikið, við heilbrigðismálin og sérstaklega sjúkrahúsin.

Nú geta menn sagt sem svo: Já, þýðir nokkuð að vera að þessu? Er ekki alltaf verið að setja inn í heilbrigðismálin einhver hundruð milljóna á hverju einasta ári? Það má segja að það séu þrjár lotur á ári. Fyrsta lotan er þegar fjárlögin eru afgreidd. Við 2. umr. fjárlaga er alltaf bætt einhverju við. Önnur lotan er sumarið á eftir þegar niðurstaðan er sú að það verði að bæta við í fjáraukalög og þriðja lotan er þegar verið er að undirbúá fjárlagafrv. fyrir næsta ár þar á eftir innan ríkisstjórnar og stjórnarflokka. Þetta eru þrjár lotur á hverju einasta ári. Ég hygg að það sé raunar hægt að sýna fram á það að þær séu allar með þeim hætti að menn nái aldrei utan um vandann, stjórnvöld gefi dálítið eftir en ekki of mikið og ekki heldur nógu mikið til þess að menn nái utan um hlutina eins og þeir eru.

Ég held að þetta snúist þar af leiðandi um það að nálgast hlutina í grundvallaratriðum talsvert mikið örðuvísi en nú er gert. Áður en ég kem að því hvernig ég get ímyndað mér að þetta ætti að gerast, þá ætla ég líka að segja það að mér finnst stýrinefndirnar óeðlilegar og það er ekki vegna þess að ég sé kannski á móti því að hafa einhverja miðstýringu á þessum hlutum. Ég tel að það sé eiginlega spaugilegt þegar Sjálfstfl. sem er búinn að sitja lengur í ríkisstjórn en nokkur annar flokkur í heiminum liggur mér við að segja, þegar hann þykist vera á móti miðstýringu. Sjálfstfl. er eitthvert svakalegasta miðstýringargóss sem til er í heiminum þannig að það er nú eins og hvert annað grín. Sjálfstfl. vill alltaf miðstýringu. Það er eins og það er. Nei, en ég held hins vegar að það að taka út úr fjárlögunum 200 millj. eða 1.000 millj. eða hvað það var, eins og síðasta ríkisstjórn gerði einu sinni, ég held að hún hafi verið með flatan niðurskurð upp á 2% eða svo yfir línuna, tekið þar allt í sjóð og síðan úthlutað því aftur. Mig minnir að það hafi verið 2% en það voru kannski 5, þetta var satt að segja alveg ótrúlega vitlaust kerfi og erfitt, ógagnstætt og ólýðræðislegt af því að það var ómögulegt fyrir fjárln. eða þingmenn eða neinn að fylgjast með hvað var notað í málaflokkana. Á þessum árum var ég yfirskoðunarmaður ríkisreikninga og það var ekki nokkur leið að bera saman ríkisreikning og fjárlög vegna þess að tölurnar rímuðu hvergi. Það var alltaf einhver vilji, í þessu tilviki ráðherrans eða einhvers slíks, sem kom þarna á milli ákvörðunar Alþingis annars vegar og ríkisreikningsins hins vegar.

[22:30]

Ég sé alveg hvernig á að nota þessa stýrinefnd núna. Það á að nota hana til að dreifa peningum, ég held um 200 millj. kr., til sjúkrahúsanna utan Reykjavíkur, 200 millj. Er það ekki?

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem ég hef ekki áttað mig á. Það var tekin um ákvörðun það á síðasta þingi að skera niður landsbyggðarspítalana um 160 millj. Er það ekki rétt munað hjá mér? Síðan hættu menn við það að nokkru leyti og frestuðu því a.m.k. að hluta til. Hvernig ríma þessar 200 millj. við niðurskurðaráformin í fyrra? Eða rímar þetta alls ekki? Ég hefði gaman af að heyra hvernig hæstv. ráðherra útskýrir það. Ég þekki það mikið til í nokkrum spítölum úti á landi að ég veit að búið er að vera sannkallað eymdarástand þar vegna þess að þar er verið að reyna að spara þar sem alls ekki er hægt að spara. Verið er að segja upp fólki þar sem kannski ein manneskja er í stöðu og ráða hana svo aftur í 80% starf. Það er sparnaðurinn og fólk ræður ekki við þetta almennilega. Og svo er viðkomandi kannski að leysa verkefni í yfirtíð af því að þetta er ekki raunverulegur verkefnaniðurskurður heldur á þetta bara að vera launaniðurskurður. Það er út af fyrir sig gott ef menn hafa séð að þetta gengur ekki upp án gífurlegra skipulagsbreytinga á landsbyggðarsjúkrahúsunum sem enginn pólitískur vilji er fyrir í þessari stofnun, eins og er alla vega.

Mér gest ekki vel að því að einhver stýrinefnd uppi í ráðuneyti ákveði þetta, sletti 200 millj. hér og þar. Þetta er sú kíttispaðapólitík sem hæstv. forsrh. rekur. Það má aldrei sjá glufu í þjóðfélaginu án þess að hann komi með hálfan milljarð eða svo og sletti í glufurnar, eða jafnvel milljarð. Það er mjög athyglisvert að þegar hæstv. fjmrh. vill skera niður um 500 millj. og við skömmum hann fyrir það og hann stendur að því keikur einn daginn, þá kemur hæstv. forsrh. með þennan kíttispaða eða múrskeið og slettir upp í glufuna 500 millj. eins og ekkert sé. Það var eins í lífeyrismálinu. Þar var hann með um 2.000 millj. á múrskeiðinni.

Nú er þessi kíttispaðapólitík búin að halda innreið sína í heilbrigðismálin. Það eru 200 millj. sem á að sletta hér og þar eftir geðþótta þarna inni á Laugavegi. Ég kann ekki að meta þetta. Mér finnst þetta ólýðræðislegt líka og virðingarleysi við Alþingi eða hvað segir formaður fjárln. um það, sitjandi blessaður maðurinn, hv. þm. sem er hinn prýðilegasti í alla staði, nætur og daga yfir því að láta hlutina stemma og svo er allt í einu hægt að skilja 200 millj. eftir. Er það ekki bara svipað og sjúkrahúsin kosta í hans eigin kjördæmi samtals eða eitthvað álíka. Hvernig gengur þetta eiginlega upp miðað við viðhorf manna, þessi kíttispaðastefna eða spartlstefna sem á að fara að taka upp.

Ég held, herra forseti, að þetta sé vont gagnvart stofnunum og Alþingi því að þó að heilbrrh. sé eða væri a.m.k. fullkominn, þá getur alltaf farið svo að ráðherrann beiti sínum persónulega geðþótta þegar verið er að úthluta þeim peningum. Ég hef aldrei vitað nokkurn fullkominn mann í stól heilbrrh., þó þekki ég ýmsa. Ég held því að þetta sé ekki gott kerfi.

Þá vil ég aðeins koma að því, herra forseti, hvernig ég gæti séð þetta fyrir mér í örstuttu máli. Ég vil fyrst segja að hæstv. núv. heilbrrh. hefur gert heiðarlegar tilraunir til þess að ná utan um þennan vanda. Það er utan við þessa sali hér, hún hefur gert það. Ég tel að það komi bæði fram í forgangsröðunarnefnd þar sem verið er að reyna að glíma við hlutina. Ég verð þó að segja að mér finnst sú skýrsla kannski fullveik því þar er málunum raðað of lítið í forgangsröð. Ég vil að málunum sé raðað í forgangsröð og ég held að nauðsynlegt sé fyrir ráðherrann að hafa það þannig. Segjum að nýr ráðherra kæmi í heilbrrn. og vildi vita í hvaða röð ætti að fara í hlutina, þá væri gott að hafa slíka skýrslu í höndunum. Mér finnst skýrslan pínulítið veik en mér finnst hún samt mjög í áttina. Mér líkar það vel að fólk reyni að setja hlutina svona upp.

Hæstv. heilbrrh. hefur líka skipað nefnd um stefnumótun í heilbrigðismálum til lengri tíma þar sem meiningin er að forgangsraða verkefnum þar sem reynt er að tölusetja markmið í heilbrigðismálum að því er varðar ýmsa þætti hins mannlega vanda sem heilbrigðisþjónustan glímir við, í forvörnum líka og fleiru. Ég geri mér hugmyndir um að þarna gæti orðið um mikilvægan leiðarvísi að ræða. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það væri ekki í raun úrslitaatriði fyrir heilbrigðismálin að fjárlögin yrðu til margra ára. Ég er algerlega þeirrar skoðunar að ekki náist eðlilegar niðurstöður í heilbrigðismálunum öðruvísi en að fjárlögin verði til margra ára, fjárlagarammi til margra ára. Ég gæti séð fyrir mér að Alþingi tæki t.d. um það ákvörðun með einhverjum bindandi hætti --- það er alltaf verið að tala um eitthvað bindandi núna í tengslum við Kyoto --- að segja: Til heilbrigðismála á að fara þetta X hlutfall af ríkisútgjöldum eða þjóðarframleiðslu. Menn reyndu sem sagt að átta sig á þeim ramma og skoðuðu hann til lengri tíma. Náttúrlega mundi samdráttur í þjóðfélaginu hafa áhrif á þetta. Það mundi geta þýtt einhvern samdrátt. Þá stæðu menn frammi fyrir því og það eru pólitíkusarnir sem eiga að ákveða samdráttarforgangsröðina. Það á ekki að leggja það á starfslið heilbrigðisþjónustunnar. Það erum við sem eigum að gera það. Ef það verður einhver aukning, þá má auðvitað hugsa sér að einhver aukning verði í heilbrigðisþjónustunni líka.

Ég held að við ættum að setja okkur það markmið að hlutfall okkar til heilbrigðismála, svo ég nefni það, sé á svipuðum stað í röðinni og við erum í þjóðartekjum á mann innan OECD. Í þjóðartekjum á mann höfum við verið innan OECD á bilinu 7.--8. sæti. Við erum núna komin í 5. sæti í þjóðartekjum á mann innan OECD. Það er í raun óvenjuhátt á mjög löngu tímabili. Ég hygg að í heilbrigðismálum séum við þarna langt á eftir. Við vorum í 7., 8., 9. sæti í útgjöldum til heilbrigðismála innan OECD. Ég hygg að í tíð hæstv. heilbrrh. Sighvats Björgvinssonar hafi menn séð jafnvel Íslandi raðað aftar en ég held að aldrei verði þjóðarsátt um þetta mál öðruvísi en að við séum með svipuð útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu til heilbrigðismála og við erum með tekjur þannig að ef við erum í 5. sæti í tekjum, þá séum við kannski í 7. sæti í útgjöldum til heilbrigðismála en ekki öllu aftar. Ég held að best væri ef Alþingi gæti farið í þetta verk, ekki endilega heilbrn. eða fjárln. Það mætti hugsa sér að sérstök nefnd færi í það verk að gera tillögur um stefnumótun á þessu sviði eða öðru. Ég gæti séð það fyrir mér að veruleg alvara yrði lögð í þetta verkefni.

Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt að ég held að lausn á þessu máli felist ekki í því að við berum hvert annað orðum í þessum sal. Ég vil líka segja það að lokum, að tölurnar í fjáraukalagafrv. og fjárlagafrv., eins og þær hafa verið kynntar okkur, eru hættulega fjarri lagi. Ég held að ég hafi leitt rök að því að fækkun starfsmanna blasir við og út af fyrir sig er ekki rétt að fara þeim megin í málin fyrst og fremst því það þýðir auðvitað niðurskurð í þjónustu. Ég hygg að ef við lokum fjárlagadæminu svona séu menn að tala um fækkun starfsmanna á sjúkrahúsunum og í heilbrigðisstofnununum í landinu um 300--400 manns. Það gengur ekki. Það er engin þjóðarsátt um stefnu, herra forseti.