Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:40:53 (1955)

1997-12-09 22:40:53# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:40]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hið síðasta sem er alveg rétt hjá hæstv. heilbrrh. að eru auðvitað hrikalegar upplýsingar og satt að segja dauðbrá mér þegar ég sá þetta. En ég ráðlegg hæstv. heilbrrh. að ræða við sína starfsmenn, þeir geta frætt hann um þetta mál. Ég kann satt að segja ekki við að hengja þessa stofnun upp hér. En ég gæti líka tilnefnt tiltölulega mjög traustan heimildarmann. Ég geri það ekki nú en mun gera það við hæstv. ráðherra utan þessa ræðustóls. En ég skil vel að henni skuli vera brugðið.

Varðandi framlögin til heilbrigðismála þá held ég að ekki hægt sé að neita því að stórhugur ríkir á öllum sviðum í íslenska þjóðfélaginu núna. Hann er ekki í heilbrigðismálum. Menn eru pínulítið vandræðalegir og skammast sín pínulítið fyrir heilbrigðismálin. Þar er þó margt verið að gera gott. En það er ekki verið að reisa nein merki, neina fána fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.

Ég sýndi fram á það að útgjöld til heilbrigðismála staðvirkt á mann á föstu verðlagi á 5--7 ára bili hafa ekki hækkað. Ég hygg að ég gæti sýnt fram á það ef ég væri með þær tölur tiltækar, sem ég á einhvers staðar, að í raun sé búið að ná fram verulegum niðurskurði á spítölunum á Reykjavíkursvæðinu á 5--6 ára bili. Ég hygg að það sé hátt í milljarð kr. En ef ég man rétt, þá eru menn á þeim tíma um leið að taka þann kostnað út í aukinni hjúkrun annars staðar þannig að það er ekki nettóávinningur út af fyrir sig fyrir ríkissjóð heldur vísar hann í ákveðna átt. Ég held að alveg óhætt sé að segja það, herra forseti, eða það finnst mér alla vega, að ekki er eins mikill stórhugur í heilbrigðismálum og þegar kemur að stóriðjunni og flugstöðvunum og öllu því.