Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:44:04 (1957)

1997-12-09 22:44:04# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:44]

Svavar Gestsson (andsvar):

Ég kann nú ekki við þennan tón satt að segja, herra forseti. Ég læt ekki mana mig til þess að nefna þetta dæmi en ég gæti sýnt hæstv. heilbrrh. fram á þetta í skýrslu frá nefnd sem hún sjálf skipaði og gæti líka nefnt embættismann sem gæti gert henni grein fyrir þessu í smáatriðum. Ég kann ekki við þetta og tel að ég hafi ekki gefið tilefni til þess með málflutningi mínum áðan að hæstv. ráðherra setji málin upp með þeim hætti sem hún gerði núna.

Út af fyrir sig er það rétt að margt er reynt að gera. En það er enginn baráttuandi fyrir heilbrigðisþjónustunni á Íslandi í gangi. Menn þurfa ekki annað en horfa á grotnandi spítalana á Reykjavíkursvæðinu, horfa á gangana, horfa á flagnaða málninguna á húsunum. Menn þurfa ekki annað til að sjá að það er eitthvað annað en stórhugur sem einkennir stöðuna í dag í þessum efnum.