Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 22:52:31 (1961)

1997-12-09 22:52:31# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér eru til umræðu fjáraukalög fyrir árið 1997. Það má segja að ekki sé seinna vænna að taka þau til umfjöllunar ef þau eiga að ná afgreiðslu og verða virk innan ársins sem senn er liðið.

Frv. sem kom fram snemma á haustþinginu miðað við þingskjalsnúmer 55, þ.e. einhvern tímann í októbermánuði hefur það komið fram. Það breytir ekki því að samt hefur hv. fjárln. eða meiri hluti hennar séð sig knúinn til að leggja fram til viðbótar allmarga tugi brtt. þannig að eitthvað er nú enn þá um að menn keyri út af í eyðslu og þurfi á fyrirgreiðslu að halda þó að menn hafi verið að setja sér það undanfarin ár að bæta vinnubrögð við fjárlagagerð og útrýma aukafjárveitingum sem vondum sið. Það hafa verið teknar upp alls konar nýjar fínar reglur og sett lög og hvaðeina til að koma í veg fyrir að sá gamli plagsiður, að keyra ríkisreksturinn á síðari hluta ársins meira og minna á alls konar aukafjárveitingum, heyrði liðinni tíð. Meira að segja ráðherrar hafa fengið talsvert ríflega óskipta ráðstöfunarliði eða ráðstöfunarfé sem þeir eiga að hafa upp á að hlaupa til að mæta óvæntum uppákomum og minni háttar útgjöldum. En samt hefur ekki tekist að ná þessu betur saman en svo að hér eru allmikil útgjöld lögð til viðbótar, mæld í milljörðum, ef bæði frv. og brtt. eru lagðar saman.

Það sem er kannski athyglisverðast við útkomuna á árinu er hinn mikli tekjuauki ríkissjóðs sem er umtalsverður og mælir aukna þenslu og eyðslu í þjóðfélaginu en gjöldin hafa engu að síður aukist sem því nemur og jafnvel rúmlega það, því að niðurstaðan er halli á rekstri ríkisins ef svo heldur fram sem horfir á þessu ári. Að vísu koma inn í innlausnir spariskírteina og fleira slíkt sem þarf að hafa í huga en eftir stendur að ríkissjóður verður í góðærinu miðju rekinn með halla á árinu 1997 og er þó ekki endilega víst að öll kurl séu komin til grafar eins og kunnugt er. Þegar ríkisreikningur endanlega birtist fyrir árið 1997 kann hann að geyma enn einhverjar breytingar frá þessum áformum.

Hér hafa, herra forseti, aðallega upp á síðkastið í umræðunni a.m.k., heilbrigðismálin verið rædd og ég þarf ekki að endurtaka það sem þar hefur verið sagt. Ég tek undir það flest sem sagt hefur verið um vanda þess málaflokks og stóru sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnananna almennt, en ég vil sérstaklega gera að umtalsefni einn þátt þess máls og hann tók ég reyndar upp við 1. umr. málsins og það er staða Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég var ákaflega óánægður, satt best að segja stórhneykslaður á því hvernig staðið var að framlagningu fjáraukalagafrv. þar sem stóru sjúkrahúsin í Reykjavík fengu umtalsverða úrlausn sinna mála að sagt var á grundvelli samnings sem gerður hafði verið við þau um tiltekin atriði í rekstrinum á næsta ári eða næstu árum, en á sama tíma fékk Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri enga úrlausn sinna mála og var þó og er vandi þess um flest sambærilegur vanda stóru sjúkrahúsanna í Reykavík, enda eðli málsins samkvæmt við sambærilega hluti að glíma á öllum þessum stóru sérhæfðu deildaskiptum sjúkrahúsum í landinu. Þar hefur Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri algerlega sérstöðu af öllum heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar og er í eðli sínu hvað rekstur snertir miklu líkara stóru deildaskiptu sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér datt satt best að segja ekki annað í hug en að þegar brtt. kæmu frá meiri hlutanum yrði búið að bæta úr þessu og sómasamlega búið að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Ég tel að það sé ekki gert með þeim brtt. og ég leyfi mér að lýsa yfir megnustu óánægju með að þannig skuli eiga að fara með Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að það fái ekki á nokkurn hátt sambærilega meðferð og sjúkrastofnanirnar hér sem að eðli og umfangi eru helst sambærilegar heldur er því vísað á óskiptan lið sem síðan á eftir að útfæra hvernig verði skipt og ráðstafað til allra sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni ef ég hef skilið þetta rétt. Með öðrum orðum, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri á að bítast um hlutdeild sína í hinum óskipta lið við aðrar sjúkrastofnanir á landsbyggðinni. Þetta er ekki mjög smekkleg uppsetning og ég er satt best að segja, herra forseti, að verða heldur leiður á þessum endalausu dúsuliðum sem settir eru alltaf upp í tengslum við vanda í rekstri stofnana í heilbrigðiskerfinu. Þetta er ósiður, hv. formaður fjárln. Það er ósiður að setja málin svona fram ár eftir ár vegna þess að verið er að búa til leiðindi, skapa spennu og setja menn síðan á hnén fyrir fram í samningaviðræðum við ráðuneytið um þessi mál. Af hverju getur fjárlagavaldið ekki ákveðið það að hvaða marki er komið til móts við vanda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og sett þá tölu inn í lög þannig að menn þurfi ekki að ganga fyrir Pontíus og Pílatus eins og einhverjir þurfalingar eftir að búið er að ákveða að setja fjárveitingar til að koma til móts við rekstrarvandann, en þá er gengið þannig frá því að því er ekki skipt eða ekki merkt þeim sem í raun þurfa að fá þessa peninga. Lágu ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um það hver vandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er? Svarið er jú. Ég efast um að aðrar stofnanir hafi sent öllu greinarbetri upplýsingar um sinn rekstur á undanförnum árum. Ég efast um að aðrar sambærilegar stofnanir hafi staðið sig öllu betur í að reka yfirleitt starfsemi sína innan ramma fjárlaga og gera skilmerkilega grein fyrir því um leið og þannig var komið í rekstrinum, að það var ekki lengur hægt miðað við þá þjónustu sem kröfur eru gerðar til um og fjárveitingavaldið og löggjafinn hefur reyndar heimilað sjúkrahúsinu að stofna til á undanförnum árum með því að ráða sérfræðinga á fleiri sviðum, fjölga aðgerðum og taka upp aukna þjónustu. En það hefur gleymst að sjá fyrir eðlilegum og nauðsynlegum fjárveitingum til að mæta þeim rekstri. Ég vona auðvitað að FSA nái út úr þessari skiptingu sanngjörnum hlut en mér finnst þetta mjög miður að menn skuli ekki geta klárað málin með eðlilegum hætti. Og vandi Fjórðungssjúkrahússins á Akueyri er um margt það sérstaks eðlis að hann er ekki nema að hluta sammerktur hvað inntak og eðli snertir því sem við er að glíma á mörgum öðrum stofnunum á landsbyggðinni. Það er m.a. vegna þess að þar hefur þjónustan beinlínis verið aukin með pólitískum ákvörðunum á undanförnum missirum en því er ekki endilega til að dreifa á öllum öðrum stöðum þar sem eftir sem áður er við fjárhagsvanda að stríða.

[23:00]

Þessa sérstöðu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri verða menn að viðurkenna ef menn ætla að verða sjálfum sér samkvæmir. Það hafa verið teknar á undanförnum árum pólitískar ákvarðanir um hlutverk þessarar stofnunar. Tekin var ákvörðun í tíð fyrri ríkisstjórnar um að hefja mikla byggingu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til að leysa úr húsnæðisþörf barnadeildar og fleiri deilda. Sú bygging er nú langt komin og verður vonandi tekin í notkun í lok næsta árs, þ.e. fyrsti hluti hennar. Á undanförnum nokkrum árum hafa verið heimilaðar nýjar stöður sérfræðinga á nýjum sviðum sérhæfðrar þjónustu með ákvörðunum á Alþingi sem teknar hafa verið af bæði fyrrv. og núv. ríkisstjórnum, meiri hlutum hennar og ég held reyndar studdar af öllum af því að menn hafa verið sammála um að þetta hlutverk stofnunarinnar væri mjög mikilvægt. Þetta ætti að verða ein af sérhæfðu og stóru sjúkrastofnununum í landinu sem verða efldar til að veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu fyrir landið á þessu svæði, á stóru upptökusvæði á Norð-Austurlandi og Vestfjörðum. Þarna eru menn enn fremur með í huga að þetta er eina stóra varasjúkrahúsið í landinu fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Hvernig stendur þá á því að ekki er hægt að ganga betur frá þessum málum en hér er gert? Ég spyr að því.

Að öðru leyti, herra forseti, tek ég svo undir að mikið skortir á að menn hafi viðurkennt þarfirnar í heilbrigðiskerfinu almennt, ætli menn að veita hér þá fyrsta flokks þjónustu sem þjóðin gerir kröfur um og pólitíkusar auðvitað átta sig á því að það er ekki vilji til annars í landinu en að halda uppi fyrsta flokks heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu og þá fara menn einhverjar fjallabaksleiðir til þess að reyna að komast undan því eftir sem áður að viðurkenna þörfina fyrir fjárveitingar sem er í þessum málaflokki. Það voru mjög umhugsunarverðar tölur sem komu fram áðan í máli hv. 8. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, þegar það er framreiknað að núvirt framlag til heilbrigðismála á hvern landsmann hefur ekki aukist, það hefur heldur minnkað. Það er úr takti við allt sem er að gerast í þessari grein þar sem út um allan heim er viðurkennt að það er óleysanlegt viðfangsefni að taka inn þá möguleika sem ný tækni og framþróun læknavísindanna bjóða upp á, bæði ný lyf og ný lækningatæki og auknir möguleikar auk breyttrar aldurssamsetningar í samfélögunum, að láta þetta mætast öðruvísi en að menn séu tilbúnir til að leggja meira til þessa málaflokks. Þvert á móti held ég því fram að það sé með ólíkindum hvað íslensk heilbrigðismál eru þrátt fyrir allt rekin með hagkvæmum hætti þannig að það vekur aðdáun víða erlendis hvað t.d. tiltölulega lítil sjúkrahús eins og okkar stærstu sjúkrahús eru á erlendan mælikvarða geta þó gert. Það þarf ekki annað en velta fyrir sér t.d. þeim erfiðleikum sem hin gífurlega aukna sérhæfing í læknisfræði hefur í för með sér fyrir svona litlar stofnanir eins og við erum hér að tala um. Samt held ég að þarna hafi tekist ótrúlega vel til m.a. vegna þess og ekki síst vegna þess að starfsfólkið á þessu sviði leggur ótrúlega mikið á sig af því að þetta er öðrum þræði hugsjónastarf og menn eru bundnir af sínum starfsheiðri og eiðum sem honum fylgja við það að reyna að leysa sitt verk vel af hendi, jafnvel við ótrúlega erfiðar aðstæður. En vinnuálagið er orðið gífurlegt. Það er búið að draga mjög saman fjárveitingar undanfarin ár. Það er langt frá því að fullnægjandi endurnýjun á tækjakosti, svo að ekki sé talað um hörmulega bágborið viðhald á húsnæði, sé fyrir hendi. Og það er alveg nauðsynlegt, herra forseti, að menn horfist einhvern tíma í augu við þessar staðreyndir eins og þær liggja fyrir og fáist til að ræða þær yfirvegað og áreitnislaust og reyna að ná einhverju landi með þessi mál. Það er algjörlega ómögulegt að hafa þennan málaflokk alltaf meira og minna í upplausn eins og hann hefur því miður verið meira og minna í ein 5--6 ár ef ekki lengra aftur. Ég held að það þurfi að fara a.m.k. aftur á daga hv. þm. og hæstv. ráðherra Guðmundar Bjarnasonar til þess að finna sæmilegt jafnvægisástand í heilbrigðismálunum og var þar þó auðvitað við erfiðleika að glíma eins og endranær. Menn vita nú hver ósköpin gengu hér á á síðasta kjörtímabili. Það þarf ekki að fara yfir það. Það er best að hlífa mönnum við því að vera að rifja það mikið upp og svo hefur þetta gengið eins og raun ber vitni á þessu kjörtímabili að það hafa verið endalausar þrengingar. Það hafa verið endalaus sparnaðaráform sem hafa verið ákveðin fyrir fram og ofan frá. Svo verður ekki neitt úr neinu. Á þetta hefur verið bent og niðurstaðan liggur alltaf eins fyrir. Menn neyðast til að veita aukafjárveitingar þegar sparnaðaráformin eru farin í vaskinn, hafa sáralitlu eða engu skilað öðru en óvissu og óánægju og núningi og erfiðleikum fyrir starfsfólk og stjórnendur. Þetta er gjörsamlega ómögulegt og óþolandi. Það verður að reyna að koma starfseminni á þessu sviði niður á sæmilega traustan grundvöll og í formi fjárveitinga sem eru samkvæmt skilgreindum markmiðum og þörfum að þessu leyti þannig að menn vita að hverju þeir ganga og þessum endalausa aukafjárveitingavandræðasparnaðarvítahring ljúki.

Herra forseti. Ég vil að lokum umfjöllunar um þetta mál spyrja hv. formann fjárln. eða þá þess vegna hæstv. heilbrrh.: Hvað er hægt að upplýsa á þessu stigi málsins um þá hlutdeild sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fær út úr þessum óskipta lið? Er hægt að segja eitthvað um það, upplýsa eitthvað um það hvaða úrlausn verður þar á ferðinni gagnvart þeim vanda sem menn standa þar frammi fyrir, uppsöfnuðum frá fyrra ári og því sem eru að myndast á þessu ári og samkvæmt beiðnum FSA mun þurfa einar 80--90 millj. til að leysa á fullnægjandi hátt.

Þá, herra forseti, hafði ég fyrst og fremst ætlað að ræða lítillega eitt annað atriði sem á við í þessu fjáraukalagafrv., fyrst og fremst vegna þess að það vakti mikla undrun mína þegar ég fór að fara yfir það mál, lesa saman annars vegar frv. og hins vegar brtt. meiri hlutans. Þetta undrunarefni, herra forseti, er utanrrn. Ég satt best að segja verð að játa að ég varð alveg forundrandi þegar ég fór að fara yfir það hver ósköpin hafa eiginlega gerst í fjárveitingamálum til utanrrn. á þessu ári og eru enn að gerast. Ég ætlaði ekki að trúa því að þetta litla ráðuneyti með ekki flóknari starfsemi en þar er á ferðinni skuli samtals eiga að fá um hálfan milljarð kr., næstum hálfan milljarð króna í aukafjárveitingar á árinu. Ég leyfi mér nú bara að spyrja, herra forseti: Hvers konar áætlunargerð var þar stunduð? Á hvaða sandi byggðu fjárveitingar til utanrrn. sem afgreiddar voru á Alþingi í desember í fyrra? Þetta eru nú meiri ósköpin. Auðvitað er það svo að sumir þessara liða sem hér eru eiga sér skýringar og ég tek það skýrt fram að ég er stuðningsmaður sumra þeirra. Ég vil t.d. taka það alveg skýrt fram að ég fagna því að Íslendingar hafa opnað sendiráð í Helsinki. Það hefði að vísu mátt bera öðruvísi að. (Gripið fram í: Út af hverju?) Út af því að ég held að það sé mikilvægt að við ljúkum því að koma upp sendiráði í því síðasta af Norðurlöndum, þar sem við höfðum ekki sendiráð fyrir. Það er sjálfsagt mál að við gerum það, höfum þar sendiráð, auk þess getur sendiráð Íslendinga í Helsinki vegna breytinga í stjórnmálum í þeim heimshluta, þjónað stórauknu hlutverki hvað varðar samskipti við Eystrasaltslöndin og austur á bóginn, við Eystrasaltið og jafnvel enn austar á bóginn. Ég er ekki að segja að það hefði endilega þurft að bera þannig að að þetta mun hafa gerst nánast bara sem ákvörðun innan ársins. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra að það hefði borið að með hefðbundnum hætti og fyrir því hefðu verið fjárveitingar samkvæmt fjárlögum að opna slíkt sendiráð. En ég er stuðningsmaður þess engu að síður þó ég skrifi ekki endilega upp á þessa aðferð. Og sama mætti segja um ýmsa aðra smáliði sem þarna fá minni háttar viðbót eins og þróunarmál, alþjóðlegt hjálparstarf og annað því um líkt. En ýmislegt annað, vekur svo sannarlega fleiri spurningar.

Rekstur aðalskrifstofu utanrrn. á að fá rúmar 40 millj. kr. í aukafjárveitingum. Það munar um minna. Nú er þetta ekkert óskaplegt batterí að ég hélt. Og í hvað í ósköpunum fara 40 millj. í viðbót í þennan rekstur sem ekki var hægt að sjá fyrir? Jú, það er nú hægt að reyna að átta sig eitthvað á því með því að líta í greinargerðina og þá kemur í ljós að sjálfar skrautfjaðrirnar í hatti utanrrh. --- hvað hétu þær nú aftur, heræfingarnar --- varnaráætlana- og almannavarnaæfingarnar, Samvörður 7 millj. kr. og Norður-Víkingur 4 millj. kr. --- þær gleymdust, þessar fínu miklu áætlanir sem hæstv. utanrrh. er búinn að hæla sér af út um allan heim og færði fram sem sérstök rök að hefðu vakið mikla aðdáun erlendis, þetta brölt hér uppi á miðhálendinu sem landsmenn urðu aðallega varir við af því það varð til óþurftar í túrismanum. En það gleymdist að gera ráð fyrir fjárveitingum og svo kostar þetta heilar 11 millj. kr. sem utanrrn. þarf að fá í aukafjárveitingar bara svona upp úr þurru allt í einu á haustdögum 1997.

Síðan er þarna ýmislegt fleira sem er mjög sérkennilegt að skuli ekki hafa verið gert ráð fyrir. Allt í einu þurfti að ganga frá deiliskipulagi á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og það þarf aukafjárveitingu í það og guð má vita hvað. Það meira að segja gleymdist að gera ráð fyrir því að það þyrfti að birta erlenda samninga í Stjórnartíðindunum og það þarf að fá aukafjárveitingu til þess o.s.frv. 40,4 millj. í aukafjárveitingu til að reka aðalskrifstofu utanrrn. Þetta er nú dálítið umhugsunarefni. Hver er fjármálastjóri þarna? Hver gerir áætlanir? Ég hélt að yfirmaðurinn væri endurskoðandi, einn af frægustu endurskoðendum landsins, sjálfur hæstv. utanrrh. Hvaða einkunn gæfi hann mönnum sem stæðu svona að málum ef hann væri enn prófdómari í Háskóla Íslands?

Ekki batnar það nú, herra forseti, þegar kemur að sendiráðunum. Guð minn góður! Sendiráðið í Washington, 5 millj. í viðbót í rekstur. Það gleymdist að gera ráð fyrir því að það þurfti að leigja húsnæði á meðan bústaðurinn væri óíbúðarhæfur o.s.frv. Og 95 millj. kr. í stofnkostnað, aukafjárveiting. Aukafjárveiting í sendiherrabústaðinn í Washington. Hann hefur ekki verið mikils virði. Það er enginn smáræðis kostnaður sem fylgir þessu litla sloti þarna í Washington. Þetta er vonandi ekki sundlaugin sem er farin að leka, hin fræga sem þjóðin stóð á öndinni út af fyrir nokkrum árum þegar þurfti að byggja sundlaug við bústaðinn í Washington af því að þar var svo mikill raki í lofti og heitt á sumrin eins og kunnugt er. Það er vonandi ekki sundlaugin sem hefur hrunið heldur eitthvað annað. 101 millj. er í aukafjárveitingar vegna sendiráða almennt og það fer mest í sendiráðið í Washington.

En þetta er ekki nóg, herra forseti. Nei, þetta er ekki nóg. Svo líða nokkrar vikur frá því að frv. kemur hér fram með aukafjárveitingum til utanrrn. upp á 182,2 millj. kr., þessa litla ráðuneytis og þá koma brtt. meiri hlutans og hvað er þar? Þar eru 310 millj. í viðbót í aukafjárveitingar til utanrrn. Það eru 17,4 millj. í ýmis verkefni og sendiráð Íslands í London fær 290 millj. Ég spyr að því, herra forseti: Hvernig stendur á því að þessa hluti ber þannig að að það uppgötvast allt í einu í október, nóvember eða desember, eða hvenær það nú er, að það vantar 290 millj. til að reka sendiráðið í London eða koma því yfir áramótin? Það getur ekki beðið eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1998. Nei, það verður að koma sem aukafjárveiting í fjáraukalögum ársins 1997. (Gripið fram í: Það er búið að eyða því.) Það er kannski búið að eyða því. (Gripið fram í: Nei.) Nei, menn eru ekki sammála um það í salnum hvort þessar krónur eru farnar eða ekki. En ég segi það alveg eins og er, herra forseti, að mig rak í rogastans að sjá hvernig þetta litla ráðuneyti, með þó ekki flóknari rekstur en það ætti að vera að reka nokkur sendiráð og einn lítinn kontór hér í Reykjavík, skuli þurfa næstum hálfan milljarð kr. í aukafjárveitingar á einu ári og menn depla ekki auga yfir þessu hér, fjárlaganefndarmenn og þeir sem sátu í fínum nefndum um fjárreiður ríkisins. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er alveg forundrandi, herra forseti.

[23:15]

Ég gerði það mér til gamans af svona vissum sögulegum áhuga að ég fór og skoðaði landbrn. sem er miklu stærra ráðuneyti með miklu útgjaldafrekari málaflokka á sínum herðum og var nú oft illa séð fyrir það að stundum þurfti aukafjárveitingar í blessað landbrn. eins og ræðumaður man mjög vel eftir af vissum ástæðum og það gátu verið heilmikil læti í kringum það þegar var verið að slást fyrir því að fá einhverja aura sem vantaði upp á útflutningsuppbætur eða eitthvað fyrr á öldinni, eins og hv. 8. þm. Reykv. mundi kannski orða það. En þá sá ég það mér til ánægju að landbrn. er ekki einu sinni hálfdrættingur á við utanrrn. í aukafjárveitingum. Það fær kannski svona þriðjung. Það er fyrst og fremst einn liður þar, af ástæðum sem eru vel skýrðar í greinargerð með með frv., sem fær nokkra hækkun. Það eru jarðamálin hjá landbrn. Þar er á ferðinni tala sem er ekki nema brot af því sem utanrrn. fær eða um 1/3 líklega, herra forseti.

Ég ætla ekki að fara fram á það hér, herra forseti, að hæstv. utanrrh. komi til þessarar umræðu því að það er óhefðbundið að vera að biðja hæstv. utanrrh. að koma og ræða fjárlagamál. En utanrrn. er ráðuneyti eins og hvert annað ráðuneyti líka í þessum skilningi. Það er ekkert yfir önnur ráðuneyti hafið í þeim efnum. Það verður að reyna að vera innan ramma fjárlaga. Er það ekki? Það hefur enga sérstaka stöðu hvað varðar fjárreiður ríkisins. Er það? Nei, ég held ekki. Og þó að hæstv. utanrrh. sé mikið í útlöndum og það sé kannski erfitt fyrir hann að fylgjast með því svona dag frá degi hvernig reksturinn gengur á bænum, þá verður að gera sömu kröfu til hæstv. ráðherra og annarra um að þarna sé farið að settum leikreglum. Ég leyfi mér að lýsa svo vægt sé til orða tekið, herra forseti, mikilli undrun á þessu og geri það hér með og vona að ég hafi tekið þetta þannig fyrir að það hafi komist sæmilega til skila að hér er um nokkuð óvenjulegt frávik að ræða, svo ekki sé meira sagt, hjá þessu eina ráðuneyti.

Allra síðast spyr ég, herra forseti: Má kannski búast við því að við fáum svona eins og tvö sendiráð í hausinn á næsta ári? Það komi í ljós að allt sé ónýtt í New York eða Kaupmannahöfn og það kosti hundruð milljóna að koma þeim sendiráðum í lag á næsta ári og það verði líka að vera aukafjárveitingar? Er kannski ástæða til að fara þarna í úttekt á stöðu mála --- heita það ekki stjórnsýsluúttektir --- og eitthvað svoleiðis fínerí sem Ríkisendurskoðun er stundum sett í þegar mönnum ofbýður eitthvað sem gerist af þessu tagi? Ég spyr að því. Hefur hv. fjárln. velt því fyrir sér hvort þetta sé þannig frávik miðað við forsendur fjárlaga yfirstandandi árs að kannski sé ástæða til þess að Ríkisendurskoðun fari þarna í úttekt og fari ofan í saumana á því og kanni hvernig svona ósköp geta allt í einu komið upp.

Nú kann vel að vera að á þessu öllu séu efnislegar haldbærar skýringar og eitthvað var nefndur hér lóðaleigusamningur í London o.s.frv. til 99 ára og það getur verið að það sé ágæt fjárfesting. En ég spyr þá að því: Hafði enginn hugmynd um að hann væri útrunninn? Þarf það að koma mönnum gjörsamlega á óvart? Er eðlilegt að það uppgötvist í september eða í október eða nóvember og menn standi bara ráðþrota og verði að fá 290 millj. í aukafjárveitingu? Gat enginn séð þetta fyrir eða ástandið á bústaðnum í Washington o.s.frv.? Ekki trúum við því eitt augnablik, herra forseti, að það séu bara mannaskipti þar sem kosti öll þessi ósköp. Það getur ekki verið. Það hlýtur að vera sama hvað sendiherrann heitir sem situr þar. Ég hef ekki heyrt um það að síðasti sendiherra í Washington hafi beðið neitt heilsutjón af því að búa í húsinu þannig að ég spyr: Getur þetta virkilega hafa verið svo brýnt að allt þetta þurfi að vera aukafjárveitingar? Spyr sá sem ekki veit, herra forseti.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Aðrir ræðumenn hafa tekið prýðilega fyrir ýmsa aðra þætti þessa máls sem ástæða er til að fara hér yfir. Ég hef haldið mig fyrst og fremst við tvo þætti, þ.e. heilbrigðismálin og þá aðallega hvað varðar vanda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og vona að ég fái þar svör við spurningum mínum og svo hefur þessi stórfellda og undarlega frammúrkeyrsla eða útafkeyrsla eins og er til siðs að segja núna, útafkeyrsla utanrrn. í fjármálum á þessu ári, vakið athygli mína. Ég hef hér gagnrýnt hana og spurt þar ýmissa spurninga hvernig á þessum ósköpum skuli standa að utanrrn. hefur keyrt svona hressilega út af veginum og langt út í mýri eins og þessi fjáraukalög og breytingartillögur meiri hlutans bera með sér.