Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:22:48 (1963)

1997-12-09 23:22:48# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárln., hv. 2. þm. Austurl., Jóni Kristjánssyni, fyrir þessi svör og sérstaklega kannski þann gæðastimpil eða það vottorð sem hann gaf hér upp á það að þau gögn sem frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hafa komið séu greinargóð og gefi fullt tilefni til þess að komið sé til móts við vanda sjúkrahússins eins og hann birtist. Þó að hv. þm. treysti sér ekki til að nefna hér tölur þá gaf hann í skyn að það lægi allt fyrir sem þyrfti að liggja fyrir til þess að unnt væri að ganga frá þessum málum við Fjórðungssjúkrahúsið. Þá er að vísu eftir þetta samningatal sem hér er alltaf uppi nú orðið. Það er eins og það sé ekki hægt að veita bara fjárveitingar á fjárlögum á eðlilegan hátt til þessara stofnana rétt eins og annarra ríkisstofnana þannig að þær geti bara rekið sig á þeim grunni, heldur þarf alltaf að ganga til einhverra samninga. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta finnst mér heldur hvimleitt. Það kann vel að vera að sú samningagerð verði í þannig góðum anda og ekki verði um neina nauðung að ræða af hálfu viðsemjendanna, við ráðuneyti, fjmrn. eða heilbrrn. eða hverjir sem það nú eru sem þar véla um. En ég verð að segja alveg eins og er að í ljósi reynslunnar er maður svolítið tortrygginn á þessa uppsetningu mála, þessa óskiptu liði og síðan þessar samningaviðræður einhvers staðar bak við lokuð tjöld.

Mun t.d. fjárln. fylgjast með því hvernig skipting þessa liðar verður og hafa hönd í bagga með því að það verði þá með sanngjörnum hætti spilað úr þessum fjármunum til þess að leysa vanda stofnana eins og FSA sem óumdeilt er að hafi staðið sig vel, að hafi fært fram alveg fullnægjandi skýringar og rök fyrir því hvers vegna þessi vandi hefur skapast? Mér finnst það skipta máli að slíkt liggi fyrir áður en Alþingi sleppir málunum frá sér.