Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:29:33 (1966)

1997-12-09 23:29:33# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig er það gott að fjárln. hefur farið rækilega yfir þetta mál og ég efa það ekki. Sjálfsagt er það svo að á þessu öllu saman séu skýringar. Ég gaf ekkert annað í skyn í mínu máli en að svo gæti verið og eins og hér kom fram hjá hv. ræðumanni að viðhald hafi verið lítið og mörg verkefni ber nú allt í einu upp á þetta sama ár og allt kostar þetta ósköpin öll og reiðinnar ósköp af peningum þegar um er að ræða fokdýrt húsnæði á miðsvæði í erlendum stórborgum.

En gagnrýni mín var ekki bara á það að þetta kostaði mikla peninga, sem það sannanlega gerir og allir viðurkenna, heldur líka á hitt, af hverju þetta þarf allt saman að bera upp á eins og óvænta atburði. Hvernig stendur á því að þetta skuli allt þurfa að vera aukafjárveitingar? Ég fékk í sjálfu sér engin svör við því. Þess þá heldur, ef um áratugalangan leigusamning er að ræða, ætti það þá að koma mönnum á óvart þegar hann er útrunninn? Það er það sem ég skil ekki og mér finnst fullkomin ástæða til að gagnrýna að þetta eru hlutir sem ber ekki að, hvað fjárlagagerðina eða fjárveitingarnar snertir, eins og æskilegt er, að menn hafi helst einhverra ára aðdraganda að því að ráðast í svona stórar fjárfestingar hvort sem heldur er um meiri háttar endurbætur á húsnæði að ræða, endurnýjun leigusamninga, kaup eða sala o.s.frv. Ég held að það sé ástæða til að láta fara yfir það hvernig ástandið er á þessu húsnæði í öðrum sendiráðum. Hvar eru leigusamningar að renna út? Hvar má búast við því að fá svona sprengjur í andlitið eða hnalla í hausinn á næstu árum þannig að menn þurfi ekki að standa hér uppi með tölur af þessari stærðargráðum í fjáraukalögum, hálfan milljað króna inn í þetta litla ráðuneyti? Þetta eru allt saman hlutir sem, ef eðlilega er að staðið, hafa komið upp á eftir að gengið var frá fjárlögum í desember í fyrra.