Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 23:42:24 (1970)

1997-12-09 23:42:24# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:42]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú bara allt vitlaust hjá hv. þm. Hann áttar sig greinilega ekki á því að hann er að skipa þessum sjúkrahúsum að loka. Gerir hv. fjárln. sér ekki grein fyrir hvað hún er að gera? Eða eru menn orðnir svo lúnir í kvöld að þeir átti sig ekki á hlutunum?

Veruleikinn er sá að uppsafnaður, núverandi og næsta árs vandi sjúkrahúsanna hér á þessu svæði er 1.500 millj. kr. og það er ekki ágreiningur um upphæðir í þessu dæmi nema þá tölu að hallinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sé ekki 144 millj. á þessu ári heldur eitthvað minni að mati heilbrrn. Að öðru leyti er full samstaða um þessa tölu. Ef menn ætla sér að neita að horfast í augu við þennan veruleika, þá eru þeir að segja við fólkið sem vinnur á spítölunum: Lokið spítölunum. Þeir eru að segja við yfirmenn sjúkrahúsanna í Reykjavík: Rekið fólkið, mörg hundruð manns úr vinnu. Af því að þetta gengur ekki. Og þetta er ekki spurning um að ná endum saman, leggja sig fram um og allt það. Hér duga ekki fallegu orðin lengur þó að þau dugi í öðrum ræðustólum en þessum.