Fjáraukalög 1997

Miðvikudaginn 10. desember 1997, kl. 12:13:49 (1978)

1997-12-10 12:13:49# 122. lþ. 39.2 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[12:13]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða hin fyrsta af þremur brtt. minni hluta fjárln. sem allar lúta að þeim vanda sem safnast hefur upp í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum. Það er einfaldlega staðreynd að uppsafnaður rekstrarhalli allra sjúkrahúsanna í landinu er orðinn um það bil einn milljarður kr. Þar af er halli þriggja stærstu sjúkrahúsanna í landinu nær 800 millj. kr. nú í árslok. Aðgerðir meiri hlutans duga engan veginn til að taka á þeim vanda.

Minni hluti fjárln. telur óhjákvæmilegt að fjárþörf vegna hallareksturs sjúkrahúsanna verði mætt að fullu svo að þau geti byrjað nýtt ár með hreint borð. Það sýnist best hvernig komið er í heilbrigðiskerfinu þegar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem allt þar til á síðasta ári hefur tekist að halda sig innan ramma fjárlaga er nú komið með 84 millj. kr. rekstrarhalla. Ég segi já við þessari tillögu.