Fjáraukalög 1997

Miðvikudaginn 10. desember 1997, kl. 12:20:26 (1984)

1997-12-10 12:20:26# 122. lþ. 39.2 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[12:20]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég styð tillöguna vegna þess að ef stefna meiri hlutans fer fram óbreytt eins og hún liggur fyrir í frv. er verið að taka ákvörðun um annað tveggja: Að loka stórum hlutum stóru sjúkrahúsanna á næsta ári, loka þeim, að segja upp mörg hundruð manns. Það er það sem meiri hlutinn er að taka ákvörðun um eða þá það að reka sömu sveltistefnuna á næsta ári og veita síðan hálfan til heilan milljarð í aukafjárveitingu til spítalanna í Reykjavík þegar kemur fram í ágúst/september árið 1998. Það eru útilokuð vinnubrögð að láta spítalana búa við þetta og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur meiri hlutanum og ég segi: Gerir hann sér grein fyrir því að með því að hafna þessum tillögum hér er hann að taka ákvörðun um að loka spítölunum? Gerir meiri hlutinn sér grein fyrir því? Gerir hver einasti þingmaður, sem hafnar þessum tillögum, sér grein fyrir því hvað hann er að gera?

Ég skora á þingmenn að fara betur yfir þessa hluti áður en kemur að afgreiðslu fjárlaganna vegna þess að það er stórkostlegt slys á velferðarkerfinu sem verður ef það gengur eftir sem meiri hlutinn er að knýja fram. Að sjálfsögðu styð ég þá tillögu sem liggur fyrir.