Fjáraukalög 1997

Miðvikudaginn 10. desember 1997, kl. 12:21:47 (1985)

1997-12-10 12:21:47# 122. lþ. 39.2 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., GE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[12:21]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu minni í gær að það er sannkölluð sveltistefna sem hefur verið rekin um nokkurt skeið gagnvart heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnin ber sér á brjóst þessa dagana og segir: Við settum 900 millj. í heilbrigðiskerfið. Vorum við ekki góðir strákar eða krakkar? (Gripið fram í: Og stelpur.) Og stelpur, við skulum taka undir það.

Úr þessum stóli í fyrra var predikað alveg nákvæmlega að 1.100--1.200 millj. vantaði inn í heilbrigðiskerfið á þessum tíma og það þyrfti að setja það inn. Það hefði þurft en ríkisstjórnin setur inn röskar 900 millj. og finnst að það hafi verið gert góðverk. Það er bara bráðasti vandinn sem er leystur enda horfir málið þannig við að það þarf að setja 1.200 millj. á sama tíma á næsta ári inn í fjárlögin til þess að halda rekstrinum gangandi og ekkert annað. Ef menn vita ekki um þetta ættu þeir að kynna sér betur þau plögg sem liggja fyrir hjá fjárln. og vandann sem er í heilbrigðiskerfinu.