Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:31:36 (1993)

1997-12-12 11:31:36# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir skörulega ræðu og gleður mig að heyra það í niðurlagsorðum hans að greinilega ríkir góður andi í nefndinni þrátt fyrir að pólitískur ágreiningur kunni að vera nokkur.

Ég dreg það ekki í efa að nefndin hefur sett sig mjög vel inn í þau vandamál sem við er að etja. Þess vegna kom mér nokkuð á óvart þegar ég hlýddi á mál hv. þm. hvernig meiri hluti fjárln. hyggst taka á vandamálum stóru spítalanna í Reykjavík. Mér er kunnugt um að þau vandamál eru gríðarleg og ég veit að hv. þingmenn meiri hlutans gera sér grein fyrir því líka.

Hv. þm. lýsti því yfir að engin áform væru um að brjóta niður heilbrigðiskerfið af hálfu stjórnarinnar og ég er alveg viss um að það er fullkomlega rétt hjá honum. Það eru engin áform um það. En hann sagði líka, með leyfi forseta: ,,Þjónusta þess þarf að vera trygg.``

Nú vitum við að álagið á þessum spítölum hefur aukist gríðarlega. Fjöldi sjúklinga hefur aukist, álag á starfsfólkið hefur aukist, gríðarlegur niðurskurður hefur verið á síðustu árum og við stöndum frammi fyrir því að þrátt fyrir þær aðgerðir sem meiri hlutinn hefur gripið til til að mynda við afgreiðslu fjáraukalaga og þrátt fyrir þá tillögu sem hér liggur fyrir um 300 millj. kr. óskiptan sjóð til sjúkrahúsanna í landinu, þá er það eigi að síður mat forsvarsmanna þriggja stærstu sjúkrahúsanna á landinu að það vanti um það bil 700--1.100 millj. til þess að hægt sé að halda uppi eðlilegum rekstri. Ég held því fram til að mynda að í því sjúkrahúsi sem tengist mínu kjördæmi, Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sé búið að ganga það nálægt spítalanum á síðustu árum að útilokað sé að halda uppi óbreyttri þjónustu með því fjárframlagi sem spítalinn fær. Þess vegna spyr ég hv. þm.: Telur hann að þjónusta þess spítala sé áfram trygg miðað við þá meðhöndlun sem hann fær í þessum tillögum?