Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:35:38 (1995)

1997-12-12 11:35:38# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er skáld gott og ber gott skyn á rím og hann veit þess vegna að það rímar ekki að segja annars vegar að ekki eigi að skera niður þjónustuna á þessum spítala og hins vegar að koma í veg fyrir að spítalinn fái nægilegt fjármagn til að halda uppi þjónustu. Það þýðir ekki að koma hingað og tala enn einu sinni um enn eina nefndina. Hv. þm. sat í annarri stýrinefnd sem átti að fjalla um annan vanda spítalanna á síðasta ári. Hvað varð um þá nefnd? Hún hvarf, hún gufaði upp, það kom ekkert út úr henni. Ég á við þá nefnd sem átti að fjalla um vanda landsbyggðarsjúkrahúsanna, sem átti að koma út sparnaði upp á 160 millj. sem í rauninni varð að fjárveitingu upp á 200 millj. í meðförum nefndarinnar.

Herra forseti. Ég spyr þess vegna hv. þm.: Ef athugun stýrinefndarinnar leiðir í ljós að verulegar fjárhæðir vantar, e.t.v. hundruð millj. til að hægt sé að reka þennan spítala, mun hún þá koma til fjárln. og óska eftir þeirri fjárveitingu? Og ef það gerist mun þá hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., beita sér fyrir því að sú fjárveiting fáist? Ef það gerist ekki óttast ég að niðurstaðan verði sú að segja þurfi upp 100--200 manns á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og það þurfi að loka deildum og ég óttast að burðarstoð spítalans, sem er bráðaþjónustan, muni bíða verulegan hnekki af og það er nokkuð sem rímar ekki miðað við það áform sem hv. þm. hefur lýst sem áformi ríkisstjórnarinnar þ.e. að skera ekki niður bráðnauðsynlega þjónustu. Ég spyr hv. þm.: Hvernig ætlar hann að leysa úr þessari þverstæðu?