Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:37:18 (1996)

1997-12-12 11:37:18# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:37]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort væntanleg stýrinefnd muni leggja tillögur fyrir fjárln. og hvort fjárln. muni verða við þeim tillögum. Að sjálfsögðu mun fjárln. hafa málefni sjúkrahúsanna til umræðu áfram og til meðferðar. Það hefur ætíð verið svo og ég er ekki svo bjartsýnn að ætla að það verði ekki á næsta ári. Hins vegar er ég ekki í færum til að segja til um það hvernig verður orðið við tillögum stýrinefndarinnar. Ég þarf að sjá þær tillögur áður en ég endurtek að þar eiga fulltrúar sjúkrahúsanna að eiga fullan aðgang að.

Varðandi stýrinefndina ef stýrinefnd skal kalla sem hv. þm. minntist á og fjallaði um sjúkrahúsin á landsbyggðinni, þá er það alveg rétt að sparnaði sjúkrahúsanna á landsbyggðinni er ekki deilt út á þessu ári. Það er ætlunin að fara sömu leið varðandi fjárveitingar til þeirra og ég endurtek að þessi málaflokkur á að hafa forgang á næsta ári og það á að styrkja starf ráðuneytisins að þessum málum. Þau áform eru enn þá uppi að sýna aðhald á landsbyggðarsjúkrahúsunum en sömuleiðis eru engin áform um það að skera niður þá þjónustu sem þar er heldur er ætlunin að fara yfir verkaskiptingu þeirra og skipulag (Forseti hringir.) og gera sér grein fyrir kostnaðinum við það umfang sem þeim er ætlað að hafa.