Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:39:35 (1997)

1997-12-12 11:39:35# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, hefur flutt hina árlegu skýrslu sína og eins og í fyrra minnir þessi skýrsla mig á skýrslu framkvæmdastjóra meðalstórs bandarísks fyrirtækis, hlutafélags, enda veltan svipuð. Hér er verið að tala um alls konar framkvæmdir. Fyrst byrjaði hv. formaður fjárln. að tala um hvernig útsýnið væri fram á við fyrir fyrirtækið og síðan talaði hann um ýmis rekstraratriði. Til dæmis stendur til að gera upp torfbæ á Keldum í Rangárvallasýslu fyrir 3 millj. Það er það sem löggjafarsamkundan ætlar að gera. Síðan á að standa í landþurrkun fyrir 600 þús. Það á að rannsaka laxveiði fyrir 2,6 millj., það á að byggja löggustöðvar á Hólmavík, Ólafsvík og Blönduósi fyrir 10 millj. Þetta á sem sagt löggjafarsamkundan að gera.

Hjá sýslumanninum á Seyðisfirði á að ráða mann (Gripið fram í.) og svo á að leysa vandamál tveggja einstaklinga í málum fatlaðra fyrir 3,7 millj. --- þetta er svona þar sem ég gríp niður, og að lokum á að mæla frjókorn fyrir 2,5 millj. (Gripið fram í: Það er mjög nauðsynlegt.) Það er mjög eðlilegt og mjög nauðsynlegt. En þetta eru verkefni framkvæmdarvaldsins, ekki löggjafarvaldsins.

Með því að taka að sér framkvæmdarvald er Alþingi að minnka ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Ég minni t.d. á heilbrigðismálin. Alþingi Íslendinga getur ekki gert kröfu til þess að heilbrrh. sé ábyrgur þar sem Alþingi er alltaf að kássast upp á hans verkefni. Á sama hátt er framkvæmdarvaldið að semja nánast öll lög sem Alþingi samþykkir. Það eru engin lög sem sett eru að frumkvæði Alþingis og ég spyr hv. formann fjárln. hvort hann telji þetta rétta þróun að löggjafarvaldið sé að kássast upp á framkvæmdarvaldið og að framkvæmdarvaldið sé að semja lög fyrir löggjafarvaldið.