Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:44:13 (2000)

1997-12-12 11:44:13# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:44]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég eiginlega átta mig ekki á því að jafntöluglöggur og greindur maður og hv. þm. er (Gripið fram í: Er hann það?) skuli ekki gera sér grein fyrir því að það er nákvæmlega þetta sem við erum að gera. Við erum að veita fjárveitingu til framkvæmdarvaldsins til að annast ákveðnar framkvæmdir og eigum að fylgjast með því að framkvæmdarvaldið annist þessar framkvæmdir á þann hátt sem Alþingi og fjárveitingavald leggur fyrir. Það er alveg nákvæmlega þetta sem við erum að gera.

Ég ætla ekki að fara með mitt lið í fjárln. til þess að byggja torfbæ á Keldum eða hafa verkstjórn þar. (Gripið fram í: Nú!) Það er menntmrh. og Þjóðminjasafn sem þessi mál heyra undir þegar Alþingi hefur veitt fjárveitingu til þess. Ég skil eiginlega ekkert í jafnglöggum manni og hv. 8. þm. Reykv. er að átta sig ekki á þessu samhengi og koma hér trekk í trekk upp í fjárlagaumræðunni til að endurtaka ræðuna um amerísk hlutafélög sem hann hélt hér fyrir ári síðan. Ég vona að hann haldi hana ekki að ári liðnu.