Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 12:45:17 (2008)

1997-12-12 12:45:17# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[12:45]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að hluti tekna ríkissjóðs er kominn til vegna mikillar veltu í þjóðfélaginu og vegna þess að það er aukinn kaupmáttur og aukin velta. Það færir ríkissjóði tekjur. Það sem ég átti við er að ég er ekki búinn að sjá að minni hluti fjárln. ætli að beita sér gegn þeim tillögum sem meiri hlutinn flutti. Það er ekki tilfellið. En þessar brtt. minni hlutans eru til viðbótar og til þess fallnar að þenja út ríkisgeirann. Ég er ekki að segja að þessar brtt. séu af hinu slæma. Þetta eru þörf verkefni sem æskilegt væri að geta sinnt. Eigi að síður horfðumst við í meiri hlutanum í augu við þann ramma tekjumegin sem fyrirsjáanlegur var án þess að leggja á ný gjöld og hugsanlega aukningu tekna sem við höfum litið á spá um. En minni hlutinn vill aftur auka tekjurnar enn meira, taka meira frá atvinnulífinu inn í ríkisgeirann. Mismunurinn á stefnunni er fólginn í því.