Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 12:46:53 (2009)

1997-12-12 12:46:53# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. minni hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[12:46]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Minni hlutinn hefur og mun leggja til að fjármagna þær tillögur sem hann leggur fram til aukinna útgjalda. Það er alveg á hreinu. Það á eftir að fjármagna þann halla sem meiri hlutinn leggur til að verði á fjárlagafrv. og við væntum þess að meiri hlutinn leggi okkur lið við að finna tekjur til að fjármagna þennan halla sem meiri hlutinn gerir tillögu um. Við höfum ekki svo miklar áhyggjur af því að við njótum ekki stuðnings meiri hlutans við að finna leiðir til að brúa það bil. Við skulum leggjast í það verkefni. Við bendum á það í okkar nefndaráliti að trúlega séu tekjur ríkissjóðs vanáætlaðar þannig að í sjálfu sér megi vænta þess að jafnvægi sé á fjárlagafrv. að teknu tilliti til þess. En þá á að vísu eftir að taka tillit til þess að það þarf að færa tæpa 4 milljarða til útgjalda vegna nýrra lífeyrissjóðsskuldbindinga umfram það sem fært er í fjárlagafrv.

Ég vil svo að lokum segja, herra forseti, að á þenslutímum er það fyrst og fremst hlutverk ríkissjóðs að taka peninga úr umferð. Draga úr peningamagni í umferð. Það getur ríkissjóður gert með því að hækka skatta, leggja á sparnað eða sýna aðhald í sínum útgjöldum. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar sparnaður er minnkaður og skattar lækkaðir á sama tíma miklar kauphækkanir eru. Það sjá allir sem horfa á efnahagsmál í almennu samhengi að allir þessir þættir geta ekki farið vel saman. Ríkisstjórnin er að keyra út af beinu brautinni í efnahagsmálum. Það er staðreynd málsins.