Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 14:37:59 (2019)

1997-12-12 14:37:59# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[14:37]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Við erum ósammála um þetta mál ég og hv. þm. Sturla Böðvarsson. Ég tel að markaðir tekjustofnar til ákveðinna verkefna eigi að falla til þeirra. Þess vegna gerir minni hlutinn tillögur um að fella niður 2. lið 6. gr., 4. lið 6. gr. sem lýtur að málefnum fatlaðra og 5. lið 6. gr. sem lýtur að skerðingu vegafjár til tekna ríkissjóðs. Það er þess vegna sem við leggjum tillöguna fram.

Varðandi hæfi okkar í fjárln. til þess að afgreiða þessi mál segi ég bara að sennilega hafa aldrei nokkurn tíma fyrr legið betri og gleggri upplýsingar fyrir um það sem gera þarf. Þess vegna erum við ekki alveg sammála um það, ég og v. þm. Sturla Böðvarsson, á hvern hátt þetta á að gerast.

Ég get hugsað mér að nefnd sé sett af stað sem tekur og skoðar heilbrigðiskerfið í heild sinni og komi með ábendingar um hvar mest kreppir að. Ég tek undir það sem kom fram um Sjúkrahús Reykjavíkur. Fjárln. skoðaði hvernig ástandið var þar og ég tek undir í því máli. Við sem fengum að sjá ástandið erum með tölulegar upplýsingar um hvert einasta atriði. Við hefðum getað með þessar 300 millj. gert úrbætur eins og skot, alveg um leið ef þetta hefði verið til ráðstöfunar og ég tel að þarna kreppi skórinn harðast að og þar erum við sammála, ég og hv. varaformaður fjárln.