Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 14:40:06 (2020)

1997-12-12 14:40:06# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[14:40]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hvað þýðir það að falla frá skerðingarákvæðum 6. gr.? Ef við föllum frá því erum við að auka hallann á ríkissjóði, ef við værum með halla, eða minnka afganginn. Út á það gengur málið. Við erum að færa til fjármuni á milli liða og draga úr útgjöldum. Hv. þm. talaði mjög mikið um sérstök framlög sem tengjast landbúnaði, þ.e. það er skerðing á framlögum til þess geira landbúnaðarins. Ef við föllum frá því, verðum við að taka það einhvers staðar annars staðar og hvar eigum við að taka það? Það er sá vandi sem við er að glíma.

Hvað varðar framlögin til þessara tilgreindu sjúkrastofnana er það náttúrlega þannig að við höfum fengið í formi fjárlagafrv. frá ríkisstjórninni tillögur um framlög til einstakra viðfangsefna, einstakra stofnana og síðan er þetta greint niður. Ég hef litið svo á að það væri að lokinni ítarlegri skoðun og ítarlegu mati á þörfum á hverjum stað. En um það eru deildar meiningar og ég nefndi sérstaklega Sjúkrahús Reykjavíkur. Ég held að það sé ekki skynsamlegt eins og hv. þm. var að nefna að fara að endurskoða allt heila heilbrigðis- og sjúkrahúsakerfið í landinu. Við eigum að ganga til þess verks og láta þann stýrihóp og ráðuneyti sem kom að þessu verki ganga fyrst að þeim stofnunum sem eiga í mestum vanda, reyna að komast að niðurstöðu og ná samningum um þá þjónustu sem þar á að leggja til og ákveða þá fjármuni og komast að niðurstöðu um hvaða fjármuni þeir eiga að fá til þess verks.

Ég vænti þess að það verk gangi vel fyrir sig og það takist að greiða með einhverjum hætti úr vanda sjúkrastofnana.