Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:24:01 (2025)

1997-12-12 15:24:01# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:24]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í raun séum við ágætlega sammála eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. Hann sagði að ýmislegt þyrfti að gera í velferðarmálunum, tók undir það og hann sagði að við þyrftum öflugt atvinnulíf til að standa undir þeim kostnaði sem það hefur í för með sér. En ég vil líka minna á það að hið öfluga atvinnulíf þarf á því að halda að við séum með nægt framboð heilbrigðra og ánægðra einstaklinga í landinu. Það er ákaflega dýrt að fólk þurfi að bíða mánuðum og árum saman eftir nauðsynlegri aðgerð svo að því líði vel og geti gegnt því hlutverki sem það kýs og atvinnulífið þarf á að halda þannig að þetta styður hvað annað og er erfitt að segja hvort eigi að nefna á undan.

Hvað varðar umhverfismálin þá er hárrétt að ýmislegt er að gerast og af því að hv. þm. minntist á spilliefnagjaldið þá er það einmitt dæmi um það hvernig atvinnulífinu sjálfu er ætlað að taka á sig kostnað vegna þeirrar mengunar sem það veldur. Það ættum við að gera í fleiri greinum og við ættum að manna okkur upp í að skattleggja mengandi starfsemi meira en hingað til hefur verið gert til þess einmitt að standa undir þeim kostnaði sem af menguninni hlýst.