Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:26:56 (2026)

1997-12-12 15:26:56# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:26]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. 2. umr. um frv. til fjárlaga fer nú fram. Þingmenn velta fyrir sér kostum og göllum frv. líkt og bókhaldarar velta fyrir sér debet- og kredittölum í bókhaldslistinni. Það er eins og einstaka stjórnarandstöðuþingmenn geri sér ekki grein fyrir að jafnvægi þarf að ríkja í tekju- og útgjaldaliðum í debet- og kreditdálkunum. Þannig er málflutningur þeirra gjarnan þó með ákveðnum skýrum undantekningum.

Formaður fjárln. fór yfir efnahagslegar forsendur þessa frv. Starf fjárln. hefur gengið vel en starfið er ærið. Það koma fjölmargir á fund nefndarinnar og flestir vilja fá peninga en margur fer reyndar bónleiður til búðar.

Formaður og varaformaður hafa stýrt nefndarstarfinu með miklum ágætum. Á sama hátt má segja að starfsmenn nefndarinnar hafi staðið sig einstaklega vel í afar erfiðu starfi. Fulltrúar minni hlutans hafa verið afar málefnalegir og sanngjarnir og hafa veitt okkur eðlilegt aðhald.

Upplýsingatækninni fleygir fram og hugvit mannsins og tölvutæknin kemur vel í ljós þegar við meðhöndlum þær upplýsingar sem við fáum í fjárln. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á starfi nefndarinnar tel ég að hafi að mörgu leyti tekist vel, þ.e. að fela fagnefndum að fara yfir ákveðna þætti fjárlagagerðarinnar.

Eitt af grundvallarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að ná tökum á ríkisfjármálum. Eftir því markmiði hefur fjárln. kappkostað að starfa. Markmið ríkisstjórnarinnar er að leggja fram hallalaus fjárlög og bendir allt til þess að það takist.

Í dag ríkir stöðugleiki í efnahagsmálum. Þessi stöðugleiki kemur öllum vel, heimilum landsins og fyrirtækjunum. Það er aukin atvinna, atvinnuleysi hefur minnkað og stjórnarandstaðan er hætt að rukka framsóknarmenn um 12 þúsund störfin sem við hétum í síðustu kosningum. (Gripið fram í: Það er orðið svo þreytt.) Það er alveg rétt, hv. þm., að auðvitað er það þreytt vegna þess að hv. þm. veit, eins og við, að þetta mun takast. (Gripið fram í: Forseti veit það.) Það er lág verðbólga í landinu og það er aukinn kaupmáttur og kjarasamningar hafa verið gerðir fram yfir aldamót. Viðskiptahallinn virðist minni en búist var við og hagvöxtur er meiri en í nágrannalöndunum. Allt leiðir þetta til þess að hjól atvinnulífsins snúast nú hraðar en áður sem kemur sér vel fyrir alla.

[15:30]

Hallalaus fjárlög eru ekki síst fyrir framtíð þjóðarinnar og koma sér vel fyrir heimili landsins vegna þess að það sættir sig enginn við það til lengdar að við greiðum hvorki meira né minna en 16,2 milljarða í vexti vegna lántöku. Ímyndið þið ykkur hvernig við gætum varið þessum peningum á annan hátt. Til heilbrigðismála, til menntamála, til félagsmála, samgöngumála og á mörgum öðrum sviðum.

Hallalaus fjárlög styrkja velferðarkerfið vegna þess að það er alveg ljóst að velferðarkerfið verður ekki rekið með lántöku til lengdar. Enda sjáum við líka aukin framlög til heilbrigðis- og velferðarmála. Við sjáum einnig auknar fjárveitingar til menntamála þó að við getum gert enn betur í þeim efnum sem og flestum öðrum. Enn vantar meira fé, t.d. til samgöngumála, og það er líka nauðsynlegt að breyta úthlutunarreglum varðandi vegamál og það er eitt af framtíðarverkefnum okkar á Alþingi.

Það er framtíðarhugsun í fjárlagagerðinni. Við erum að styrkja rannsókna- og vísindastörf í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Íslendingum hefur oft verið núið því um nasir að við verjum ekki nógu miklum peningum til rannsókna- og vísindastarfa. Það er hárrétt en hér erum við að reyna að gera bragarbót þar á.

Við erum að efla tölvubúnað í sérskólum landsins. Það kemur fram í fjárveitingum, svo sem til Tækniskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Myndlista- og handíðaskólans svo dæmi séu nefnd. Þetta skiptir heilmiklu máli og fyrir þinginu liggur frv. um uppeldisháskóla þar sem skiptir miklu máli að geta tengt þá fjóra skóla vel saman sem verða sameinaðir í uppeldisháskólanum og þess vegna skiptir tölvubúnaður fyrir þær stofnanir miklu máli.

Við erum að styrkja starf tilraunastjóra, t.d. í Garðyrkjuskóla ríkisins sem stýrir tilraunagróðurhúsum. Þetta nýtist öllum garðyrkjubændum á landinu. Suðurlandsskógaverkefni er sérstakur fjárlagaliður eins og Héraðsskógaverkefni og við erum einnig að styrkja skjólskógaverkefnið á Vestfjörðum og fjölmörg önnur gróðurverkefni. Allt eru þetta mjög jákvæð mál.

Við erum að auka þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Í dag verða opnuð tilboð vegna uppbyggingar Barnaspítala Hringsins. Við erum að byggja upp heilsugæslustöðvar í Reykjavík en uppbyggingu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni er lokið að sinni. Gerðir hafa verið sérstakir þjónustusamningar við sjúkrastofnanir og fleiri samningar eru í burðarliðnum. Einnig er verið að vinna að slíkum þjónustusamningum í menntmrn. hvað framhaldsskólana varðar. Lagt er til að leggja í sérsakan pott peninga til að mæta hluta rekstrarvanda sjúkrahúsanna og skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir að náðst hefur verulegur árangur í hagræðingu í rekstri á sjúkrahúsum á landsbyggðinni eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir benti áðan á.

Í tillögum okkar erum við að stuðla að uppbyggingu nýrra sambýla, t.d. fyrir fatlaða á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og á Reykjanesi.

Á undanförnum árum hafa verið opnaðar náttúrustofur víðs vegar um land og í fjárlagatillögum þessa árs er gert ráð fyrir að koma á fót einni slíkri stofnun í Norðurlandi vestra og einnig er verið að styrkja náttúrusetrið á Kirkjubæjarklaustri sem nefnist Kirkjubæjarstofa.

Í fjárlagatillögum ársins 1998 og fjáraukatillögum 1997 er komið til móts við byggðasjónarmið. Jöfnun námskostnaðar hefur verið mikið baráttumál mitt og nokkurra annarra þingmanna. Mikill kostnaður foreldra utan af landi við að mennta börn sín leiðir til flutnings af landsbyggðinni. Í fjárlagatillögum ársins 1998 er gert ráð fyrir að auka þennan lið um 50 millj. þannig að hann verður í heild sinni 160 millj. Það er von mín að þetta komi ungu fólki utan af landsbyggðinni til góða þegar það er að sækja sér framhaldsmenntun.

Í fjáraukatillögum 1997 er gert ráð fyrir jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum svo að 1,7% hækkun húshitunarkostnaðar komi ekki til framkvæmda. Í þennan lið þyrftum við að geta varið enn meiri peningum. Þessir tveir þættir hafa mjög mikil áhrif á byggðaþróun hér á landi.

Enn traustari stoðum er rennt undir störf atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni með auknu framlagi til Byggðastofnunar hvað þennan þátt varðar. Atvinnuráðgjafarnir hafa þegar sannað hvað þeir geta látið af sér leiða. Það vitum við Sunnlendingar. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands skiptir okkur gríðarlega miklu máli.

Ég get tekið undir orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur þegar hún talaði um skattsvik og neðanjarðarhagkerfi. Það er ein af meinsemdum hjá þjóð okkar. Bent hefur verið á að við höfum varið 20 millj. til viðbótar til þess að reyna að uppræta slíka starfsemi en það er full ástæða til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir skattsvik.

Ég vonast til þess að þegar fjárlagatillögur verða lagðar fram til 3. umr. verði aukin framlög til Áformsverkefnisins um lífræna ræktun. Lífræn og vistræn ræktun er framtíðin og ég vonast til þess að við berum gæfu til að veita aukið fé til þessa verkefnis. Ég vonast líka til þess að við getum útfært þá skuld sem er við bændur hvað jarðræktarframlög varðar. Talað er um að þar sé skuld upp undir 200 millj. og full ástæða til að standa við þær skuldbindingar. Ég vonast einnig til þess að við berum gæfu til þess að leggja meira fé til fyrirhleðslna en ár víðs vegar um land eru að brjóta niður hið ræktaða land og það er t.d. mjög mikið vandamál á Suðurlandi hvað Markarfljót varðar, Þjórsá, Klifanda, Skaftá og fleiri ár.

Þar sem fjárlög eru nú lögð fram á rekstrargrunni er ljóst að afkoma fjárlaga er mun betri en í fyrra og þegar á heildina er litið er árangur ríkisstjórnarinnar mikill. Það er framtíðarsýn í þessum fjárlögum og þau verða vonandi landi og þjóð til heilla.