Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:38:10 (2027)

1997-12-12 15:38:10# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að hallalaus fjárlög styrki velferðarkerfið. Það er einmitt velferðarkerfið sem hefur verið látið greiða fjárlagahallann. Það hefur verið skorið niður í velferðarmálum, í þjónustu við aldraða, við sjúklinga, aukin þjónustugjöld til þess að reyna að ná niður fjárlagahallanum. Ég efast um að sjúklingarnir á biðlistunum séu sammála hv. þm. í því að hallalaus fjárlög styrki velferðarkerfið. Þeir fá verri þjónustu. Sumir sjúklingar þurfa liggja á göngum spítalanna. Telur hv. þm. að þeir séu sáttir við það og telji það vera betra velferðarkerfi vegna þess að það séu hallalaus fjárlög? Fólki er þjónað mun verr vegna þess að þetta er alltaf meginmarkmiðið. Ekki er verið að hugsa um að velferðarkerfið standi undir nafni. Það er verið að vega að rótum þess og hvað sem öllum pottum og stýrinefndum líður er það ljóst að allt þetta pottastand, þó svo það sé gott svo langt sem það nær, dugir ekki til að velferðarkerfið standi undir því nafni sem velferðarkerfið á Norðurlöndum ætti að standa undir.