Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:41:31 (2029)

1997-12-12 15:41:31# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar um að fleiri njóti þjónustunnar. Það er svo vissulega rétt vegna þess að mun fleiri fara t.d. á spítalana en áður, gegnumstreymið er meira. Menn koma inn bráðveikir og eru útskrifaðir áður en þeir eru orðnir heilbrigðir. Þeir koma inn aftur. Það eru endurinnlagnir á sjúkrahúsi þannig að 70 af hverjum þúsund koma inn aftur innan 8 daga á ákveðnum deildum inni á sjúkrahúsunum. (Gripið fram í.) 75 af hverjum þúsund koma inn á deildirnar aftur innan 8 daga. Er þetta eðlilegt? Er það svona sem hv. þm. vill sjá velferðarkerfið? Það er lágmark að menn reki þokkalega þjónustu fyrir sjúka og aldraða og tryggi öryrkjum og öðrum þeim sem ekki geta séð sér farborða þokkalega framfærslu. Það er hægt að taka af annars staðar. Við verum að láta velferðarkerfi okkar standa undir nafni. (ÍGP: Hvar eigum við að taka?) Það er hægt að taka af ýmsu öðru. Hvernig er með risnuna? Hvernig er með ýmsa þætti í fjárlögunum sem hv. þm. ætti að þekkja eftir að hafa verið í fjárln.? (Gripið fram í.) Það er ekki á spítölunum. Það er ekki á heilsugæslunum. Það er ekki það sem á að taka og skera niður. Þar verðum við að veita þjónustuna. Skattpeningar okkar eiga að fara í að sinna almenningsþjónustu eins og þeirri.