Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:44:44 (2031)

1997-12-12 15:44:44# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:44]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Við fjárlagagerðina hugleiðir maður stundum hvað megi betur fara í sjálfri vinnunni. Með breytingunni á uppsetningu fjárlaga nú í haust urðu þau skýrari og auðvelda yfirsýn. Það höfum við fundið í vinnunni í fjárln. á undanförnum mánuðum.

Við þurfum að stíga fleiri skref sem væru til þess fallin að ýta undir langtímasjónarmið í fjármálum ríkisins. Það mætti t.d. gera með því að settir væru heildarrammar fyrir málaflokkana til 3--4 ára í senn eins og þekkist í sumum af nágrannalöndum okkar. Þannig gætum við betur tryggt ákveðna samfellu í rekstrinum. Þetta væri vissulega þörf að gera á sem flestum sviðum ríkisrekstrarins.

Varðandi orðaskipti þeirra tveggja hv. þm. sem tjáðu sig næstir á undan mér í svörum og andsvörum, vil ég geta þess varðandi velferðarkerfið að það liggur fyrir norræn skýrsla um að Íslendingar hafi staðið sig best Norðurlandaþjóðanna undanfarið í því að ná tökum á ríkisfjármálum. Jafnvægið í ríkisrekstrinum, hallalaus fjárlög gera það að verkum að nú getum við notað peninga sem annars hefðu farið í það að greiða vexti af erlendum skuldum inn í velferðarkerfið. Við höfum náð tökum á ríkisrekstrinum án þess að skerða velferðarkerfið. Þetta þarf að koma alveg skýrt fram og menn þurfa að vita þetta, jafnvel hv. þm., ef ég man nafnið, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

[15:45]

Þegar við réttum úr kútnum og komumst upp úr efnahagslægðinni fyrir örfáum árum var það ein stétt sem sat einkum eftir. Það voru bændur. Landbúnaður hefur tekið á sig mestu byrðarnar af því að við næðum efnahagsbata og þeirri framför sem enginn getur neitað að hefur orðið í landinu.

Herra forseti. Í umræðunni hér á þessum degi hefur minni hluti fjárln. kvartað undan eyðslu og fjallar um þjóðhagshorfur og efnahagsstefnu ríkisstjórnar. Hann hefur talað um lausatök í hagstjórn, varað við útstreymi úr ríkissjóði, talað um eyðslustefnu, erlenda skuldasöfnun og viðskiptahalla. Orð sem hafa ekki heyrst alveg eins oft upp á síðkastið og áður var, með réttu. En seinni hlutinn í nefndaráliti þeirra fjallar um nauðsyn þess að verja meira fé til ýmissa málaflokka, svo sem heilbrigðismála, menntamála og til málefna fatlaðra. Það er hins vegar einmitt til þessara málaflokka sem ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar gera tillögur um verulega hækkun.

Minni hluti í fjárlaganefnd vill einnig auka verulega fjármagn til umhverfismála, að ekki sé nú talað um vega- og samgöngumál og segir að niðurskurði þurfi að linna. Því er ég hjartanlega sammála.

Enginn af þeim málaflokkum sem eru nefndir er of haldinn. Full þörf væri á meira fjármagni í allt þetta. En hér þarf að spyrja: Hvaða peningar eru fyrir hendi til viðbótar til þess að verja í þessi mál? Aukningin í frumvarpinu á að ganga til heilbrigðismála, menntamála og málefna fatlaðra. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir auk þess tillögur hér við 2. umr. með tilstyrk minni hlutans að nokkru leyti um framlög til nokkurra þátta með viðbótarútgjöld sem eru á sviði menntamála og til þess að jafna aðstöðu fólks í dreifbýli og þéttbýli. En þar er einkum tvennt bæði á fjáraukalögum og fjárlögum, 50 millj. kr. á fjáraukalögum til jöfnunar húshitunarkostnaðar og hins vegar 50 millj. til jöfnunar á námskostnaði eða aðstöðu til náms.

Það er varðandi þessa hækkun, herra forseti, sem meiri hluti fjárln. gerir tillögu um til jöfnunar á námskostnaði. Vissulega hafa svokallaðir dreifbýlisstyrkir komið að góðu gagni en þeir hafa verið allt of lágir. Talið er að á ári kosti menntun í framhaldsskóla 500, 600, 700 þús. á nemanda. Það er ekki hægt að finna mjög nákvæmar tölur í þessu en heimavistarkostnaður, bókakostnaður er umtalsverður og annað slíkt. Þessir styrkir eru ekki nema lítill hluti því miður og verða ekki nema lítill hluti þrátt fyrir það að 50 millj. komi til viðbótar. En ég vona vissulega að um þá upphæð muni. Stóra hagsmunamálið hefur verið það að auka möguleika fólks til framhaldsmenntunar úti um landið. Það er gífurlegt hagsmunamál að hafa sem bestan aðgang að framhaldsnámi. Auðvitað er brýnt að búa þannig um hnúta að fólk fái þann stuðning sem til þess þarf.

Íbúar landsbyggðarinnar verða að sjálfsögðu að njóta jafns réttar til náms á við höfuðborgarbúana. Eigi að síður þurfa margir að taka sig upp og það kostar fjárhæðir. Því miður finnast um það dæmi og ég þekki nokkur að fjölskyldum í dreifbýli reynist erfitt að kosta skólagöngu unglinganna. Tekjur af meðalstóru búi í sveit eru talsvert lægri en meðaltekjur í landinu og námsfólk á framhaldsskólastigi fær yfirleitt ekki uppgripavinnu yfir sumarið eins og áður var. Hörmulegt er til að vita að af þessum sökum hætti ungt fólk námi eða hrökklist frá því. Ég tel þó að þessi hækkun um 50 millj. muni koma að góðu gagni og að þeim fjármunum sé vel varið.

Ég get þess svo í leiðinni að samkvæmt könnun sem menntamálaráðuneytið lét fara fram er brýnasta verkefni í heimavistarmálum og í byggingum heimavista á landsbyggðinni á Sauðárkróki. Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir 5 millj. kr. fjárveitingu til heimavistar og vona ég að sú upphafsfjárveiting móti það upphaf að hafist verði handa að formsatriðum loknum um stækkun heimavistar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki þegar á næsta ári.

Í þeirri miklu umræðu sem undanfarið hefur átt sér stað í landinu um byggðaröskun má það ekki gerast að fólk sé nánast knúið til þess að leita út úr byggðarlagi sínu til náms í framhaldsskóla vegna þess að ekki sé búin aðstaða í heimahéraði til þess að geta stundað skólanám. Þá erum við ekki að tryggja fólki jafna aðstöðu og jafnan rétt til náms heldur erum við fremur að reka fólksflóttann af landsbyggðinni hingað suður.

Herra forseti. Heilbrigðismálin taka drjúgan tíma í starfi fjárlaganefndar við fjárlagagerðina. Fjárlaganefnd hefur átt nú sem áður ágætt samstarf við fulltrúa þeirra málaflokka bæði stjórnendur sjúkrahúsanna og starfsfólks heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins. Það hefur komið fram, ekki síst í umræðunni um fjáraukalög um daginn, að vissulega þarf að auka fjármagn til rekstrar í sjúkrahúsunum og það er gert. Það er veruleg aukning nú milli ára og ný tök sem ég hygg að séu nauðsynleg með þessari svonefndu pottagerð að hún muni leiða til góðs, þ.e. að setja upp sjóði til að útdeila síðan í samkomulagi við sjúkrahúsin. Við tölum ekki lengur um niðurskurð heldur tölum við um að koma sjúkrahúsunum fyrir vind í rekstri þannig að þau safni ekki áfram skuldum heldur geti rekið skynsamlega hver sína einingu og það liggi fyrir hvaða starf eigi að fara fram á hverju sjúkrahúsi. Að verkaskiptingin sé skýr.

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma að einum heilbrigðisvandanum og félagsvandanum í þjóðfélaginu sem fær ekki næga umræðu að mínum dómi á hinu háa Alþingi en oft úti í þjóðfélaginu. Það er áfengisvandinn. Þær leiðir sem Íslendingar hafa fundið til úrbóta eru um margt afar athyglisverðar. Við tókum upp fyrir tæpum þremur áratugum bandarískar aðferðir kenndar við Hazelden í Minnesota. Við höfum notað þær með allgóðum árangri á margan hátt. En vissulega má spyrja hvort ekki sé tímabært að endurskoða ýmsa þætti í áfengisvarnastefnunni hjá okkur. Starfsemi SÁÁ hefur reynst mjög mikilvæg. Ég vil nota tækifærið og óska þeim samtökum til hamingju með afmælið á þessu ári. Það hefur verið mikilvægt bæði einstaklingum og fjölskyldum það sem þessi samtök hafa áorkað. Hins vegar getur verið að í einhverjum tilfellum telji fólk að svo mikið öryggi sé í meðferð hér á Íslandi og árangur svo góður að það leiði til ábyrgðarleysis í meðferð með áfengi. Þannig getur hugsast að allt of auðveldur aðgangur að meðferð fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur og fullyrðingar um góðan meðferðarárangur leiði af sér ábyrgðarleysi, bæði hjá almenningi og þeim sem misnota. Það sé með öðrum orðum alltaf hægt að fara í meðferð ef menn missi tökin á hlutunum. Það er ekki góðum meðferðaraðilum að kenna, fjarri því, heldur mætti almennt viðhorf til þessara mála breytast. Ég varpa þessu aðeins fram til umhugsunar og hvet til þess að menn beri saman hluti sem eru sambærilegir. Ég hugsa til þeirra sem þurfa að bíða, ekki bara mánuði heldur árum saman eftir aðgerð. Það væri gott ef alls staðar í heilbrigðiskerfinu væri svo góð og greið leið til bóta og hjá þeim sem eiga við áfengisvanda að stríða.

Því vildi ég varpa því fram til umhugsunar þegar einstaklingur fer í meðferð, kannski í tugi skipta, hvort ekki væri ástæða til að gefa tækifæri þeim sem bíða þjáðir árum saman á biðlistum að fá sitt tækifæri fyrr. Væri ekki rétt að gefa þeim tækifæri fyrr og stuðla þannig að því að biðlistarnir styttist.

Herra forseti. Það þarf að verja meira fé til heilbrigðismála og það er verið að gera og verður vafalaust enn frekar á næstunni.