Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:43:00 (2040)

1997-12-12 16:43:00# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það týrir enn á skari skilnings hjá hv. þm. Ég fagna því að hv. þm. og formaður fjárln., Jón Kristjánsson, segir að það þoli enga bið að kanna þegar í stað möguleg viðbrögð við vanda Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það er söguleg yfirlýsing og skiptir miklu máli.

Hv. þm. orðaði sitt mál þannig, eða ég dró þá ályktun af því, að það sem út af ber er að kanna stöðu samningsins milli Reykjavíkurborgar, fjmrn. og heilbrrn. Það liggur líka alveg fyrir hvernig sá samningur hefur verið útfærður. Til er bréf um það sem er m.a. í vörslu fjárln. Ég vil líka upplýsa hv. þm. um að hann hefði sennilega gott af því að lesa bréf frá 7. september sem Kristján Erlendsson, Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri í fjmrn., og Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður skrifuðu sínum yfirboðurum. Þar kemur alveg skýrt fram álit þeirra á því hvernig þessi staða er og hvernig þeir telja á þeim tímapunkti að fjárlögin horfi við rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það er ekki fagur lestur, herra forseti.