Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:46:31 (2042)

1997-12-12 16:46:31# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að æska hv. þm. sé farin að týnast og hann hafi þess vegna verið talsvert lengur á leiðinni á milli húsa en hann vill vera láta. En staðreyndin er sú að ég færði fyrir því siðferðileg rök að því er ég taldi hvers vegna afstaða mín, þrátt fyrir inngang ræðu minnar hlyti að verða sú að ekki væri annað hægt en láta aukið fjármagn til þessa málaflokks miðað við þann vanda sem við blasti og þau loforð sem m.a. hv. þm. Jón Kristjánsson gaf hér í dag um heilbrigðisþjónustuna. Ég færði fyrir því rök að á síðustu áratugum hefði með samþykki allra flokka byggst upp velferðarkerfi sem þjóðfélagið almennt samþykkti. Ég dró þá ályktun af þeirri stöðu sem blasir við Sjúkrahúsi Reykjavíkur, reyndar stóru spítölunum, að ef þetta fjárlagafrv. næði fram að ganga í þeirri mynd sem það er núna, þá væri verið að rjúfa þá sátt. Og ég taldi mig færa siðferðileg rök fyrir því að það væri mjög óæskilegt að það gerðist. En það getur auðvitað verið að hv. þm. vilji frekar stunda einhvers konar orðfræðilega akróbatík frekar en taka þátt í málefnalegri umræðu og mér er alveg sama um það.