Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:55:34 (2048)

1997-12-12 16:55:34# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:55]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. og formaður heilbr.- og trn. flutti hér athyglisverða ræðu. Hins vegar komu mér mjög mikið á óvart fullyrðingar hv. þm. um að fyrir dyrum stæðu stórfelldar lokanir sjúkrahúsa. Hvers vegna skyldi það koma mér á óvart? Jú, vegna þess að 12. september sl. gerðu borgarstjórinn í Reykjavík og heilbrrh. og fjmrh. samning um rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík, Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna. Línur voru lagðar um hvernig standa ætti að rekstri þessara sjúkrahúsa til áramóta. Í fjáraukalögum sem afgreidd verða á næstu dögum eru settar inn 320 millj. til að hlaupa undir bagga á þessu ári. (Gripið fram í: Dugar það?) Niðurstaðan hjá þeim aðilum var að það dygði. Annars hefði borgarstjórinn í Reykjavík væntanlega ekki skrifað undir þennan samning. Ég ætlast til þess.

Hv. þm. nefndi að þróun kostnaðar hjá þessum sjúkrahúsum hefði verið með svipuðum hætti. Ég tel ástæðu til að nefna það vegna þess að fjárln. hefur undir höndum ágæta skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem segir að tímabilið 1990--1996 hafi framlög hækkað. Raunbreytingin hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur er 1,3% frá 1990 til ársins 1996. Inni í því er vel að merkja mikil lækkun lyfjakostnaðar. Sú lækkun hefur áhrif á heildarútgjaldaþróunina og ætti að hafa orðið til þess að aðrir þættir hefðu úr meiru að spila.

Í seinni ræðunni minni mun ég svo fjalla um Ríkisspítalana.