Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 17:33:54 (2055)

1997-12-12 17:33:54# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[17:33]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að textinn í ræðu minni er saminn í samráði við fjmrn. og ég ítreka að ætlunin er að fara yfir þessa útreikninga.

Í öðru lagi varðandi háskólann þá kom það fram í þeirra erindum að reiknilíkan er í vinnslu og sú þróunarvinna er alllangt komin eða er á lokastigi. Það kom einnig fram í ræðu minni í morgun að yfir þá útreikninga verður að fara þegar endanleg niðurstaða í því máli liggur fyrir. Þess vegna töldum við rétt að taka til greina rannsóknanámið sem forsvarsmenn háskólans settu í forgang. Þeir tjáðu okkur að það væri fyrsta mál sem þeir settu á oddinn.

Í öðru lagi er skemmst að minnast umræðna um ritakaupasjóðinn þar sem mjög erfitt ástand var og við vildum koma til móts við að styrkja stofnunina sem menntastofnun. Auðvitað hefði verið æskilegt að sinna miklu fleiri erindum í menntamálum og öðrum málum að sjálfsögðu. En sá rammi sem er viðurkenndur bæði af meiri og minni hluta --- það þarf ekki annað en hlusta á ræður minni hlutans til að heyra að þeir telja svigrúmið ekki ótakmarkað. Það er nú þess vegna sem við sinnum ekki öllum beiðnum að fullu.