Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:47:42 (2068)

1997-12-12 18:47:42# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:47]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið snýst kannski ekkert um það að mæla afköst sjúkrahúsa í rúmum lengur. Það er liðin tíð. Ég hygg að veruleikinn sé bara sá að Borgarspítalinn eða Sjúkrahús Reykjavíkur telur að það geti ekki gert neitt annað en að loka deildum með rúmum vegna þess að Sjúkrahús Reykjavíkur er eitt virkasta, ef ekki virkasta, sjúkrahús landsins. Þar er langmest gegnumstreymi af sjúklingum og hvers kyns heilbrigðisvandamálum af margvíslegu tagi miðað við alla spítala í landinu. Sjúkrahús Reykjavíkur getur ekki sagt: ,,Við lokum á bráðaþjónustuna.`` Það hlýtur að taka á þessum vanda ef það er dæmt til að loka og meiri hlutinn er núna að dæma Sjúkrahús Reykjavíkur til að loka eða að lofa meiri pening á næsta ári eins og var verið að gefa í skyn áðan í andsvari hv. 2. þm. Vesturl. vegna þess að það verði að taka samkomulagið upp frá í haust því það standist ekki. Það eru náttúrlega nokkuð mikil tíðindi. En það er þá spurning hvort ekki væri skynsamlegra að leiðrétta grundvöll fjárlagafrv. við 3. umr. frekar en að halda áfram með þetta sem núna er viðurkennt af öllum, líka meiri hlutanum, að stenst ekki.