Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 21:54:25 (2082)

1997-12-12 21:54:25# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[21:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. um stefnuleysið í heilbrrn. þá er það rétt að það var unnin stefnumörkun í nefnd á vegum heilbrrn. En sú stefnumótun hefur ekki komið nokkurs staðar fram í vinnubrögðum í ráðuneytinu. Ég var að hvetja til þess að menn tækju nú á sig rögg og framkvæmdu eitthvað af því sem var samþykkt í þessari nefnd og kæmu einhverju af því í framkvæmd sem menn í nefndinni lögðu til. Það hefur ekkert verið gert í því enn þá. Ég bara vona að hæstv. ráðherra taki á sig rögg eins og ég sagði áðan og geri eitthvað í þessum málum og vinni í framhaldi af þeirri stefnumörkun sem var unnin í nefndinni. Það væri ágætis mál og löngu brýnt. Ég benti á ýmsa þætti sem þyrftu að koma þar til framkvæmda t.d. biðlistana, t.d. tækjakaupin og fleira sem ég nefndi í ræðu minni sem er mjög mikilvægt að verði tekið á í heilbrigðiskerfinu. Ég vil segja að það var vissulega góð vinna sem var unnin í þessari fjölmennu nefnd og ég vona að sú vinna hafi ekki verið unnin fyrir gýg.